Staðarkirkja er í Bolungarvíkurprestakalli í Ísafjarðarprófastsdæmi. Staður er eyðibýli, fyrrum og kirkjustaður í Aðalvík við Staðarvatn. Meðal presta þar í 16 ár var séra Snorri Björnsson (1710-1803), síðar á Húsafelli í Borgarfirði.
Hornstrendingar vildu glettast við prest og kanna galdrakunnáttu hans. Þeir fóru með löngu í líkkistu til kirkju og báðu Snorra að jarða þennan niðursetning að norðan, sem hefði sálast og þyrfti leg í kirkjugarði. Snorri gekk þögull og þungbúinn kringum kistuna og kvað:
Hér er komið kistuhró,
klambrað saman af ergi,
líkaminn er úr söltum sjó,
en sálina finn ég hvergi.
Hann bað komumenn að hverfa sem skjótast á brott og reyna ekki að glettast við sig framar, sem þeir gerðu ekki.