Hvítá er hrein jökulsá þar til þverárnar bætast í hana á leið til sjávar. Víðast eru þær góðar laxveiðiár og ósar þeirra, þar sem þær sameinast Hvítá. Beztu veiðistaðirnir eru Iða við Laugarás og Hamrar, sem getið er um í kaflanum um Brúará. Veiðistaðir eru víðar, s.s. við Gíslastaði og Snæfoksstaði. Á þessum stöðum eru talsverðar líkur til að setja í lax og veiðitölur eru nokkrir tugir á hverjum stað á ári. Samtals veiðast nokkur hundruð laxa í Hvítá en Iða er gjöfulasti veiðistaðurinn.
Skógræktarfélag Árnesinga keypti jörðina Snæfoksstaði árið 1954 og var hafist handa við að girða af landið en sumarið 1956 var fyrst gróðursett. Árið 1958 hófst sumarvinna barna og unglinga frá Selfossi, sem stóð óslitið, með tilstyrk Selfosshrepps, næstu 12 árin. Á þessu árabili var skógurinn við Kolgrafarhól gróðursettur.