Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Skorradalsvatn

Skorradalsvatn er 16 km langt og víðast 1 km á breidd. Flatarmál þess er 14,7 km² og mesta dýpi 48 m.    Vatnsflöturinn er í 57 m hæð yfir sjó. Fitjá úr Eiríksvatni rennur í það og Andakílsá er afrennsli þess. Þegar Andakílsárvirkjun var byggð, hækkaði yfirborð vatnsins vegna stíflugerðar. Mikið er af bleikju í vatninu, en mest af henni er fremur smár fiskur, um og innan við eitt pund. Talið er, að vatnið jaðri við að vera ofsetið, en þó er fiskurinn í þokkalegum holdum. Flest sumur veiðast risasilungar í vatninu, bæði urriðar og bleikjur. Hafa bleikjurnar vegið allt að 17 pund og urriðarnir 14 pund. Þeir fiskar fást einkum, þegar veiðmenn fara á bátum yfir djúpmið og draga á eftir sér þunga spóna.
Vegalengdin frá Reykjavík er u.þ.b. 92 km.

Skorradalsormurinn.
Gömul saga er um orm í vatninu. Varð hann til með þeim hætti að bóndadóttir í Hvammi tók   brekkusnigil, lagði hann á gullhring í skríni sínu og geymdi í fatakistu sinni. Nokkru síðar ætlaði hún að vitja um skrínið en þá var lok þess sprungið sundur og ormurinn útblásinn og ægilegur ásýndum. Var kistunni þá skellt aftur og róið með hana út á vatn og sökkt þar. En eftir þetta urðu menn iðulega varir við ófreskju í vatninu og sást hún ýmis öll eða hlutar hennar, svo sem haus, kryppa eða hali. Töldu menn, að halinn væri undan Háafelli en hausinn undan Vatnsenda. Talið er að Jón krukkur hafi spáð því að ormurinn mundi spúa eitri yfir dalinn og eyða byggð þar allri þann dag er sjö bræður kvæntust á sama degi á Grund í Skorradal og eignuðust sjö systur. Þó er þennan spádóm ekki að finna í þeirri Krukksspá sem nú er til. Talið er að síðast hafi skrímsli þetta sést í vatninu um 1870, enda á það óhægt um vik eftir að séra Hallgrímur Pétursson kvað það niður á báðum endum og í miðjunni.
(Af vef www.skorradalur.is)

 

 

Myndasafn

Í grennd

Skorradalur
Skorradalur er syðstur Borgarfjarðardala, 28 km langur. Vestast sunnan hans er Skarðsheiði, svo   Dragafell og Botnsheiði. Norðan hans er Skorradalshá…
Veiði Vesturland er Borgarfjörður, Snæfellsnes og Dalasýsla
Stangveiði á Vesturlandi. Hér er listi yfir flestar laxveiðiár og silungsár og -vötn. Laxveiði Vesturlandi Álftá á Mýrum Andakílsá…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )