Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Skinnastaðakirkja

Skinnastaðakirkja er í Skinnastaðarprestakalli í Þingeyjarprófastsdæmi. Skinnastaður er bær,  og prestssetur í Öxarfirði. Katólskar kirkjur þar voru helgaðar Pétri og Páli postulum. Skinnastaðaprestar þjónuðu mörgum hálfkirkjum og bænhúsum á miðöldum, s.s. í Hafrafellstungu, Klifshaga og jafnvel í Möðrudal á Fjöllum var útkirkja þaðan á árunum 1859-1880 og aftur 1906-1966, Garði í Kelduhverfi frá 1862 og Presthólasókn (frá 1927 Snartarstaðasókn).

Prestakallið er eitt hið víðlendasta á landinu, einkum, þegar Hólsfjöll lágu til brauðsins. Timburkirkjan, sem nú stendur, var byggð 1854. Hún er með turni og tekur 70 manns í sæti. Skarsúðin í loftinu er blámáluð og skreyttur bogi yfir kórdyrum.

Undir turninum er loftpallur. Arngrímur Gíslason, listmálari í Öxarfirði, skreytti kirkjuna í upphafi með rósafléttum á veggjum og öðru málverki. Um aldamótin 1900 var þakturninn tekinn af kirkjunni og söngloft smíðað. Síðar var kirkjan múrhúðuð að utan. Hún var lagfærð í tilefni aldarafmælisins og þá var nýr þakturn settur á hana. Þá endurnýjaði hinn listfengi bóndi, Helgi Gunnlaugsson á Hafurstöðum, hinar gömlu veggskreytingar.

Meðal góðra gripa kirkjunnar eru tveir voldugir koparstjakar, sem séra Jón Einarsson gaf henni 1694, silfurkaleikur og patina frá því um 1790, tvær gamlar klukkur, önnur frá 1824 og hin er eldri, forn prédikunarstóll í endurreisnarstíl og skírnarsár úr eik, sem gefinn var til minningar um Hjörleif Guttormsson.

Skammt norðan Skinnastaðar er Brandslækur, þar sem sagt er að Þangbrandur hafi skirt Öxfirðinga. Jökulsá á Fjöllum hefur löngum leikið presta staðarins grátt, drepið fyrir þeim fé og fólk auk þess að eyða landi.

Myndasafn

Í grennd

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )