Mesta afrek Skeiðamanna var Skeiðaáveitan. Hún bætti afkomu bænda með aukinni sprettu og sléttari engjum. Skeiðaáveitan var merkur áfangi í framfarasögu sveitarinnar ásamt jarðræktarlögunum sem samþykkt voru 1923, sama árið og Skeiðaáveitan tók til starfa. Skeiðaáveitan styrkti stöðu Búnaðarfélagsins og kenndi bændum að vinna saman.
Árin sem áveituverkið stendur yfir er minna unnið að öðrum jarðabótum þó alltaf nokkuð. Merkur áfangi í sögu Búnaðarfélagsins var þegar félagið keypti fyrsta hestaplóginn 1927 og réði mann til að fara með hann um sveitina og vinna hjá bændum.
Á sínum tíma var talað um að Skeiðaárveitan væri stærsta framkvæmd Íslandssögunnar.
Mynd: SKEIDARETT
Heimild, Guðmundur Sigurðsson, bóndi á Reykhól
Skeiðaáveita er ein af þremur áveitum sem voru gerðar í því augnamiði að veita vatni úr jökulám yfir mýrlendi til að búa til flæðiengi. Fyrst var gerð áveita á Miklavatnsmýri í Flóa (gerð um 1912-1913) og síðan var Skeiðaáveitan gerð árin 1917 til 1923. Síðust var gerð Flóaáveitan 1922-1928. Skeiðaáveita varð mun dýrari en áætlað var og var það meðan annars út af klöpp í hluta aðalskurðarins sem skurðgrafa réð ekki við.
Skeiðaáveitan er eins og Flóaáveitan flokkur af áveitu sem kallast uppistöðuseytla. Í uppistöðuseytlum er vatn á stöðugri hreyfingu milli hólfa. Vatnið var um 10-40 sm á dýpt á áveitutímanum. Vatni var hleypt á áveiturnar í maí og látið standa fram í lok júní. Hvert áveituhólf var yfirleitt hvílt þriðja eða fjórða ár.