Seltjarnarneskirkja er í Seltjarnarnesprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Í kirknatali Páls biskups Jónssonar í Skálholti frá því um 1200 er fyrst getið um kirkju í Nesi við Seltjörn (Dipl.Isl. XII,9). Var hún prestsskyldarkirkja, sem sýnir það, að Nes var í tölu stórbýla og kirkjan hefur þá væntanlega átt einhverjar eignir, e.t.v. þriðjung úr landi Ness eins og hún átti samkvæmt fyrsta máldaga hennar, sem kunnur er, en það er Vilchinsmáldagi frá 1397. Nes var að fornu talin 120 hundraða jörð.
Í Vilchinsmáldaga vekur einkum athygli, hve kirkjan er auðug að jörðum.(Bps. A,II,2) Hún á þriðjung í heimalandi í Nesi með rekum, skógum og afréttum. Þá á hún jarðirnar Eiði, Bakka og Bygggarð, en þær hafa væntanlega allar byggst út úr Neslandi. Síðan bætist við Árland, sem Ólafur Lárusson telur, að sé Ártún í Mosfellssveit (Byggð og saga,180-198). Þá á kirkjan ýmis ítök svo sem fjórðung af veiði í Elliðaánum og rekaréttindi á tveimur jörðum.
Afar lítið er hægt að ráða af máldaganum frá 1397 um kirkjubygginguna í Nesi í lok 14. aldar. Þar er aðeins talað um tvo glerglugga á henni og hinn þriðja, sem sé brotinn. Hörður Ágústson telur gluggafjöldann benda til þess, að þessi kirkja í Nesi hafi verið timburkirkja. Kirkjan á 6 manna messuklæði, 3 kantarakápur og 4 altarisklæði með dúkum. Af merkisgripum má nefna 3 kaleika, fornan róðukross, smelltan kross og font með skírnarkatli. Kirkjan á 11 norrænubækur, lesbækur fyrir alla helgidaga kirkjuársins og líknesi tvö. Var annað af verndardýrlingi kirkjunnar, heilögum Nikulási og hitt af heilagri Önnu. Það vekur athygli, að samkvæmt þessum eina máldaga, sem til er úr kaþólskum sið, hefur Neskirkja verið mun auðugri að jörðum en kirkjan í Reykjavík. Þykir það benda til þess, að lengi hafi mun ríkari höfðingjar búið að Nesi en í Vík.
Í fyrstu máldagabók, sem til er í Skálholtsbiskupsdæmi eftir siðaskipti, og kennd er við Gísla biskup Jónsson, kemur fram, að jarðeignir kirkjunnar í Nesi eru hinar sömu og voru fyrir siðaskiptin. Að vísu mun þar ranghermt um Eiði, því að sú jörð lenti undir konung 1553, en máldagabókin er frá 1575 (Bps.A II,2.). Hins vegar vekur athygli, að Neskirkja virðist nú fátæk orðin af skrúða og áhöldum(ornamernta og instrumenta). Aðeins eru nefnd fern messuklæði, tveir kaleikar og tvö altarisklæði. Kirkjan í Vík var í lok 16. aldar orðin auðugri af þessum lausu munum en Neskirkja. Við þetta vakna ýmsar spurningar eins þær, hvort Nes hafi orðið hart úti við eignaupptöku siðskiptanna.
Samkeppni fór fram um teikningar að kirkjunni og hlaut tillaga Harðar Björnssonar og samstarfsmanns hans Harðar Harðarsonar, 1. verðlaun. Ákveðið var að byggja eftir verðlaunateikningunni, en systkynin í Pálsbæ höfðu gefið lóð undir kirkjuna.
Hér á eftir fer stutt lýsing á kirkjunni: Greiður aðgangur er inn á báðar hæðir kirkjunnar, en kjallari eða jarðhæð er undir kirkjunni, þar sem eru skrifstofur sóknarprests, organista og kirkjuvarðar. Þar er einnig salur þar sem messað var frá jóladegi 1985 til vígsludags 19. febrúar 1989. Þar er hægt að loka af fyrir kennslustofu og vinnu með smærri hópum. Á neðri hæð er einnig stór salur, sem notaður er fyrir æskulýðsstarfsemi. Uppbygging kirkjunnar er þannig, að veggir eru steyptir, en þök léttbyggð. Þak kirkjuskipsins er þrístrent og hvílir á steyptum skífum, en burðarviðir eru úr límtré. Einnig halda límtré uppi þökum útbygginga, sem hvíla á sömu undirstöðum auk minni undirstaða. Límtrén eru sýnileg inni, en á milli þeirra er klætt með furu. Þakið er klætt að utan með hvítum stálplötum.
Gluggaband er upp við þak milli aðalþaks og útbygginga hornrétt á þakflötinn allt í kring og auk þess eru gluggar upp við þak útbygginga. Rými yfir skrúðhúsi og forkirkju er nýtt fyrir kirkjugesti og er þar rúm fyrir 40 manns, en á aðalgólfi er rúmt um 235 manns, að meðtöldu söngfólki.
Safnaðarsalurinn uppi var tekinn í notkun á hvítasunnu 1990. Í framtíðinni er stefnt að því að nýta rými yfir andyri og snyrtingum, svo og eldhúsi, en þar er hægt að fá um 50-60 manns í sæti umfram þau, sem komast fyrir á aðalgólfi, en það eru um 100 manns.
Kristín Friðbjarnardóttir, formaður sóknarnefndar frá stofnun sóknarinnar árið 1974-1990 tók fyrstu skóflustunguna að kirkjunni þann 16. ágúst 1981, en ekki var hafist handa við bygginguna fyrr en á vordögum 1982.
Á jóladag árið 1985 vígði þáverandi biskup Íslands, herra Pétur Sigurgeirsson guðsþjónustusalinn á neðri hæð kirkjunnar, en þá var einnig vígð skírnarskál, sem enn er í notkun en hún var gjöf frá Eyjólfi og Ernu Kolbeins. Þá keypti söfnuðurinn lítið fjagra radda orgel, sem enn er í notkun. Stefnt er að því að festa kaup á nýju orgeli, sem hæfir kirkjunni á þessu ári.
Hinn 19. febrúar 1989 vígði Herra Pétur Sigurgeirsson síðan aðalkirkjuskipið.
Fáa kirkjumuni á söfnuðurinn enn sem komið er. Þó má nefna altarissilfur, sem teiknað var af Herði Björnssyni og smíðað af Vali Fannar, gullsmið. Það var gefið til kirkjunnar af Lions klúbbi Seltjarnarness þann 3. október 1987. Silfrið var fyrst tekið í notkun þann 4. október auk sérbikara, sem pantaðir voru frá Danmörku.
Kirkjuklukkur voru vígðar á hvítasunnudag, þann 22. maí 1988. Þær voru smíðaðar af John Taylor og Co. í Bretlandi og voru einnig gjafir til kirkjunnar frá Kvenfélaginu Seltjörn, Soroptimistklúbb Seltjarnarness og afkomendum Þuríðar Helgadóttur kennara og Sigurðar Jónssonar fyrrverandi skólastjóra Mýrarhúsaskóla til minningar um Þuríði.
Fjóra hökla á söfnuðurinn, hvítan, grænan, rauðan og fjólubláan, sem einnig hafa verið gjafir til kirkjunnar. Sálmabækur í eigu safnaðar eru u.þ.b. 250. Á vígsludegi kirkjunnar bárust kirkjunni að gjöf frá Seltjarnarnesbæ tveir silfurkertastjakar á altari. Þann dag bárust kirkjunni einnig tvær áletraðar Biblíur og tvær áletraðar sálmabækur, önnur frá Dómkirkjusöfnuðinum og hin frá frú Emmu Guðmundsdóttur. Á fyrsta sunnudegi í aðventu árið 1989 gaf Margrét Sigurðardóttir ljósprentaða útgáfu af Guðbrandsbiblíu til minningarum mann sinn Þórð Guðmundsson.
Systkynin Kristín, Ásgeir, Guðmundur og Baldur Ásgeirsbörn gáfu kirkjunni veglega útihurð til minningar um foreldra sína Soffíu Guðmundsdóttur og Ásgeir M. Ásgeirsson
Kvenfélagið Seltjörn safnaði í bæjarfélaginu fyrir öllum stólum í kirkjunni og gaf auk þess 50 fermingarkirtla fyrir fyrstu fermingar vorið 1987. Kvenfélagið hefur þar að auki gefið ýmsan útbúnað í eldhús, m.a. uppþvottavél. Kirkjan er vel útbúin öllum tækjum í eldhúsi og á
skrifstofum. Hljóðkerfi í kirkjunni er þó ábótavant og stendur það til bóta. Á skrifstofu prests er ný Macintosh tölva og allir starfsmenn kirkjunnar hafa aðgang að ljósritunarvél og nýju fax-tæki.
Nýjasta gjöf til kirkjunnar er nýr Yamaha flygill, sem var gjöf frá félagasamtökum, sem starfa á Seltjarnarnesi.
Heimild: Vefsetur kirkjunnar.