Sauðeyjar, í norðvesturhluta Vestureyja, eru hinar einu þeirra, sem heyrðu ekki til Flateyjarhreppi. Ingjaldur Sauðeyjargoði er nefndur í Laxdælu. Síðan er lítið vitað um byggð í Sauðeyjum fram undir aldamótin 1700. Líklega var búið í Sauðeyjum alla 18. og 19. öld og allt fram til 1930. Það var ekki auðvelt vegna skorts á vatsbóli og lending var erfið.
Eggert Ólafsson bjó þar um tíma um miðja 18. öld, áður en hann fluttist til Hergilseyjar. Heimaeyjan og næstu úteyjar liggja í réttan hálfhring líkt og barmur sokkins eldgígs, u.þ.b. ½ km í þvermál og opnast til austurs. Heimaeyjan er á norðurendanum og stærsta úteyjan, Þórisey á suðurendanum.
Aðrar úteyjar eru m.a. Háey og Skarfey en Kiðhómar eru lengra til vesturs. Norðaustan heimaeyjarinnar eru m.a. Rauðsdalshólmar og Æðarsker. Byggðin og túnið á heimaeyjunni var á vesturenda hennar og lendingin niður undan gamla bæjarstæðinu á sunnanverðri eyjunni. Sauðeyjar fóru fyrstar Vestureyja í eyði, ef Stagley er undanskilin. Vatnsleysið mun aðallega hafa valdið því. Stundum varð að flytja kýr til lands vegna þess eða flytja vatn úr landi til heimilisnota. Bændur í Haga hafa nýtt Sauðeyjar síðan þær eyddust.