Sandreyður SEI WHALE (Balaenoptera borealis
Hér við land verður sandreyðurin 12,5-15 m löng. Karldýrin vega 20-25 tonn og kvendýrin 25-30 tonn. Hún sker sig frá langreyðinni að því leyti, að neðra borð bægsla og sporðs er dökkt. Bakugginn er framar en á langreyði og beint yfir raufinni og hálsfellingar ná ekki eins langt aftur. Skíðin eru mjög fínkögruð.
Sandreyðurinn er úthafshvalur, sem heldur sig í öllum heimshöfum, en fer sjaldan norður í Íshaf. Lengst fer hún norður á Grænlandssund, að Nýfundnalandi og Norður-Noregi. Vetrarheimkynnin ná allt suður að Flórídaskaga og Blancohöfða í Vestur-Afríku.
Mökun fer fram í nóvember til febrúar, meðgöngutíminn er u.þ.b. eitt ár og kvendýrin kelfa annað hvert ár. Kálfurinn er u.þ.b. 4½ m langur við fæðingu og er 5 mánuði á spena. Hann verður fullvaxta á 12 árum og meðalævilíkurnar eru 80 ár.
Sandreyðurin étur aðallega ljósátu hér við land en annars staðar er rauðáta mikilvægasti hluti fæðunnar. Smokkfiskur og smærri fisktegundir eru líka hluti hennar. Hún er félagslynd, gjarnan í 10-20 dýra vöðum en oft sést hún hundruðum saman. Hún kafar í 5-10 mínútur og blæs allt að þrisvar á milli. Sandreyðar halda sig á opnu hafi og sjást ekki nálægt ströndum.
Sandreyðurin sést oftast síðsumars suður af landinu og hverfur þaðan suður á bóginn í oktober. Göngur hennar eru mjög óreglulegar, þannig að sum ár sjást fá dýr. Lítið er vitað um fjölda og stofnskiptingu þessarar tegundar. Áætlaður fjöldi við Ísland er 10.500 en alls í heiminum 50.000-70.000. Meðalfjöldi veiddra dýra á hvalveiðiárum Íslendinga var 65.