Rifgirðingar eru fyrir mynni Hvammsfjarðar og bera mörg nöfn eyja og sérgreindra eyjaklasa. Sagt er, að þar hafi ekki verið byggð til forna, en Kjóey og Gautsey (Gussey) hafi skipt með sér nytjum þeirra til helminga þar til byggð hófst þar undir nafni Rifgirðinga. Bærinn stóð var við botn Skjaldarvíkur vestarlega á heimaeyjunni. Í Rifgirðingum var stundum tví- og þríbýlt. Vatnsból voru á nokkrum stöðum og stundum varð vatnið salt.
Árið 1702 bjuggu 11 manns í Rifgirðingum með 9 nautgripi og 50 fjár. Sextíu árum síðar var mannfjöldinn 18 manns á þremur býlum. Árið 1801 voru 13 manns heimilisfastir hjá bóndanum, Eiríki Sigurðssyni. Sonur hans varð þekktur sem Sigurður Breiðfjörð skáld. Rifgirðingar fóru í eyði árið 1974.
Kjóeyjar eru hluti Rifgirðinga. Milli Norðureyjar og Gusseyjar er Norðureyjarsund. Austan á Gussey er Vörðuhóll, sem er siglingarmerki á leiðinni í Röstina. Kjóey er suðaustan Norðureyjar og rif á milli, sem fer í kaf á flóði. Hún er grasi vaxin og stór. Rústir bæjar og garða sjást greinilega suðaustast á henni. Lynghólmi er stór og lyngi vaxinn hólmi suðaustan Kjóeyjar og Kjóeyjarvogur á milli. Sagnir segja, að Öxneyjarbærinn hafi upprunalega verið í Galtarey og nautum hafi verið beitt í Öxney. Nú stendur sumarhús í Galtarey.