Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Reynivallakirkja

Reynivallakirkja í Kjós er í Reynivallaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var byggð árið 1859 í  Kirkjubrekku, skammt austan við kirkjugarðinn. Áður hafði kirkjan staðið vestar í landareigninni, væntanlega í sjálfum kirkjugarðinum. Reynivellir eru ævaforn kirkjustaður, kirkjunnar er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá því um 1200.

Á Reynivöllum var Maríukirkja í kaþólskum sið. Kirkjan sem nú er á staðnum er byggð í hefðbundnum stíl timburkirkna um miðja nítjándu öld. Henni hefur að vísu verið breytt dálítið. Skömmu fyrir 1930 var prédikunarstóllinn, sem upphaflega var fyrir ofan altari, færður að suðurvegg. Þá voru pílárar í skilrúmi milli kórs og framkirkju fjarlægðir og lágur veggur settur í staðinn. Fyrir hundrað ára afmælið 1959 var hún lengd um rúma þrjá metra, gerð geymsla norðan við kórinn en skrúðhús að sunnanverðu, settir nýir bekkir o.fl. Einar Jónsson frá Brúarhrauni (1818-1891) smíðaði Reynivallakirkju, hann byggði einnig Útskálakirkju. Hann var sagður „fæddur snillingssmiður“ og einn helsti forsmiður í Reykjavík á sinni tíð. Miklar viðgerðir á kirkjunni hófust sumarið 1997 með því að sökkull var endurhlaðinn og styrktur og leiddur var rafmagnskapall inn í kirkjuna.

Sumarið 1999 var kirkjan klædd að utan, gert var við forkirkju, nýtt timburgólf var sett í kirkjuna í sömu hæð og það var upphaflega, það kallaði á hækkun dyra og dyraumbúnaðar og jafnframt smíði nýrra hurða, innri og ytri, þá voru bekkir einnig smíðaðir að nýju í stíl eldri kirkjubekkja. Kirkjan var máluð að innan með línoleummálningu. Við val á litum var tekið mið af þeim litum sem í ljós komu þegar farið var að skrapa gömlu málninguna af. Þá var sett ný upphitun í kirkjuna, kórskil voru færð um 80 cm til stækkunar kórnum svo að söngkórinn geti verið innst í kirkjunni. Þá var altaristaflan hreinsuð svo og minningartaflan á vesturgafli. Húsafriðunarnefnd hefur séð um allar teikningar og sagt fyrir um hvernig að verki skuli staðið.

Framkvæmdastjóri hennar, Magnús Skúlason, hefur haft yfirumsjón með verkinu. Umhverfi kirkjunnar hefur tekið stakkaskiptum, hönnun verksins fór fram á vegum Kirkjugarðasjóðs, kostnaður var einnig að mestu greiddur af þeim sjóði, en teikningar gerði Einar Sæmundsen landslagsarkitekt.

Myndasafn

Í grennd

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )