Á Þingvöllum eru margar gamlar götur og stígar. Má þar nefna Tæpastíg, Langastíg, Leynistíg, Kárastaðastíg, Skógarkotsveg, Vatnskotsgötu, Veiðigötu, Sandhólastíg, Hrauntúnsveg, Leiragötu, Prestastíg, Kluggustíg o.fl.
Sögufrægasti staður landsins er í hjarta Þingvallasveitar. Þar ber Almannagjá hæst og þingið forna við Öxará. Þingvallaþjóðgarðurinn var stofnaður 1930. Þingvallavatn er stærst stöðuvatna á Íslandi, 83,7 km² og dýpst 114m á Sandeyjardýpi. Dýpsti punkturinn er u.þ.b. 13m undir sjávarmáli. Vatnið er hið fjórða dýpsta á landinu. Árið 1990 hófst framleiðsla á heitu vatni til húshitunar á háhitasvæðinu að Nesjavöllum og haustið 1998 hófst þar raforkuframleiðsla fyrir Stór-Reykjavíkursvæðið.