Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Rauðanes í Þistilfirði

Rauðanes gönguleið

Þessi texti er unninn upp úr bæklingi nemenda 8. bekkjar Svalbarðsskóla árið 2001.
Rauðanes í Þistilfirði er í grennd við Velli og Svalbarð, u.þ.b. 30 km frá Þórshöfn. Frá heimtröðinni að Völlum er merkt hringgönguleið um nesið.
Fyrst er komið að Háabjargi (60m), sem sýnir vel blágrýtisstaflann. Nesið er mólent og sumpart graslent.
Háir og tignarlegir klettar girða það. Þeirra á meðal eru Lundastapar með fallegu stuðlabergi. Fyrrum var þar mikil lundabyggð en minkurinn eyddi henni. Þessir stapar eru undan Ytra-Undirlendi, þar sem er mikil berjaspretta og gamalt tófugreni.
Kletturinn Gluggur er einstök náttúruperla. Brimið svarf hann og myndaði helli, sem hrundi síðan að hluta og skildi eftir fallegan steinboga á bjargbrúninni.
Austanvert á nesinu er margt um hella og um einn þeirra má sigla á litlum báti. Skammt þaðan er drangurinn Brík og svonefnd Flæðifjara, sem má komast niður í á fjöru.
Gatastakkur er sérkennilegur í laginu, berggangur, sem var umlukinn mýkri bergmyndunum, sem veðruðust brott.

Í Stakkabásafjöru er að finna hellisskúta með nafninu Hannes ristu á vegginn. Þar eiga tveir sjómenn að hafa leitað skjóls í aftakaverði fyrir aldamótin 1900. Annar þeirra var Hannes, sem risti einnig upphafsstafi félaga síns í bergið.

Stakkarnir eru á norðanverðu nesinu, tveir stórir drangar, sem rísa upp úr sjónum.

Stakkatorfa er rétt utan norðurenda nessins. Þar er talsverð lundabyggð. Lundi er víðast sjaldgæfur á þessum slóðum, þannig að hann lífgar verulega upp á umhverfið. Eitt sinn var náttúrleg brú út í Stakkatorfu.

Gönguleiðin endar á veginum að Velli, sem liggur að bílastæðinu. Þessi leið er u.þ.b. 7 km löng og auðfarin. Gott er að hafa með sér eitthvað til drykkjar, því ekkert drykkjarvatn finnst á nesinu. Útsýni af nesinu er mikið og gott að gefa sér góðan tíma til göngunnar.

Myndasafn

Í grennd

Þórshöfn
Þórshöfn á Langanesi fékk, eins og Raufarhöfn, löggildingu sem verzlunarstaður árið 1836. Gott skipalægi er þar frá náttúrunnar hendi og byggist atvin…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )