Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Ráðhús Reykjavíkur

Reykjavík

Hugmyndin um ráðhús í Reykjavík er næstum jafngömul borginni. Borgaryfirvöld veltu henni fyrir sér  saman, leituðu að hentugum stað og báðu um tillögur um gerð og útlit hússins.

Ekkert gerðist í raun og veru fyrr en 1987, þegar Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóri, ákvað að byggja ráðhús í norðurenda Tjarnarinnar að undangenginni samkeppni meðal arkitekta um teikningar og útlit hússins.

Staðarval ráðhússins var ekki byggt á duttlungum. Þessi staður hafði verið í umræðunni áratugum saman. Fagurt umhverfi Tjarnarinnar var álitið við hæfi til að leggja áherzlu á stöðu borgarinnar sem höfuðborg landsins.

Ráðhúsið var fullbyggt og vígt 14. apríl 1992. Innanhúss er vettvangur fyrir borgarana og embættismenn borgarinnar til að skiptast á skoðunum um framtíð höfuðborgarinnar, til að njóta list- og menningarviðburða og njóta umhverfisins til hins ítrasta.

Umræður um byggingu ráðhúss í Reykjavík hófust 1799, 13 árum eftir að litli bærinn fékk borgarréttindi. Þá sendi kanselíið í Kaupmannahöfn bréf til landstjórans, þar sem minnst var á húsnæði fyrir borgarráðið.

Árið 1835 birtist grein í Fjölni, þar sem Tómas Sæmundsson fitjaði upp á hugmynd um ráðhús.

Árið 1918 skipaði Knud Zimsen fyrstu nefndina til að ræða byggingu ráðhúss í Reykjavík.

Árið 1929 voru skrifstofur borgarinnar fluttar í bráðabirgðahúsnæði í Austurstræti 16. Borgarráð samþykkti að veita fé til byggingar ráðhúss, en áætlununum var ekki fylgt eftir.

Árið 1941 skipaði borgarráð aðra nefnd. Hún stakk upp á staðnum við norðurenda Tjarnarinnar.

Árið 1945 samþykkti borgarráð að efna til samkeppni um staðarvalið.

Árið 1946 var efnt til fyrstu samkeppninnar með þremur staðsetningum, við norðanverðan Tjarnarendann og tvo staði í brekkunni ofan Lækjargötu. Engin tillagnanna hlaut náð fyrir augum borgarráðs.

Árið 1950 stakk skipulagsnefnd borgarinna upp á norðurenda Tjarnarinnar eftir að hafa velt 16 stöðum fyrir sér.

Árið 1955 samþykkti borgarráð samhljóða að reisa ráðhús við sunnanvert Vonarstræti. Ráðhúsnefnd var   kjörin og sex arkitektum var boðið að leggja fram tillögur sínar og teikningar. Næstu árin var unnið að þróun þessa verkefnis.

Árið 1962 gerði aðalskipulag borgarinnar ráð fyrir ráðhúsbyggingu við norðurenda Tjarnarinnar.

Árið 1964 voru hugmyndir um ráðhúsið til sýnis.

Árið 1984 tilkynnti Davíð Oddsson, borgarstjóri, hugmyndir sínar um ráðhús á lóðinni Tjarnargötu 11.

Árið 1985 voru lóðirnar Tjarnargata 11 og Vonarstræti 11 teknar frá til byggingar ráðhúss samkvæmt deiliskipulagi miðbæjarins og tillögurnar lagðar fyrir skipulagsnefnd og borgarráð.

Árið 1986 var haldin önnur samkeppni um hugmyndir um ráðhús við norðurenda Tjarnarinnar. Alls bárust 38 hugmyndir og í júní 1987 voru fyrstu verðlaun afhent arkitektunum Margréti Harðardóttur og Steve Christer. Þeim var falið að teikna bygginguna.

Árið 1987 fóru fram jarðfræði og tæknilegar athuganir á lóðinni allt sumarið og fyrsta stig verksins var boðið út fyrir áramótin. Lóðin og frumáætlanir voru samþykktar í borgarráði í október. Ístak var falinn fyrsti áfanginn.

Árið 1988 tók Davíð Oddsson fyrstu skóflustunguna og á Degi Reykjavíkur, 18. ágúst var grunnsteinn lagður.

Vorið 1990 var lokið við að steypa húsið upp, gluggar voru settir í, lokið við þakið og hafizt handa við innréttingar. Alls komu 75 undirverktakar að verkinu. Samtímis framkvæmdum innanhúss var unnið að frágangi utanhúss, s.s. gangstígum og bökkum Tjarnarinnar.

Árið 1991 lagði Davíð Oddsson, borgarstjóri, hornsteininn (28. apríl).

Árið 1992 vígði Markús Örn Antonsson, borgarstjóri, ráðhúsið (14. apríl).

Samspil ráðhússins og umhverfisins.
Ráðhúsið fellur vel inn í umhverfi sitt en stendur þó sjálfstætt sem tákn sins tíma og kynslóðarinnar, sem reisti það. Nálægð Tjarnarinnar og umhverfis hennar hefur mikil áhrif á einkenni byggingarinnar. Samspil útlits, umhverfis og innviða hússins, út- og innrýmis hefur mikil áhrif á gesti ráðhússins.

Jarðhæðin er eiginlega hluti af gatnakerfinu, því að gönguleið liggur um hana frá vestri til austurs að  . Vegna þessa miðlæga hlutverks sins, staldra vegfarendur við innanhúss til að kynnast betur því, sem þar er í boði. Þarna gefst yfirvöldum borgarinnar tækifæri til að koma á framfæri upplýsingum og stuðla að menningarviðburðum í borginni. Kaffihúsið Tjarnarkaffi fær líka marga til að setjast niður og njóta útsýnisins yfir Tjörnina eða skoða betur 70 m² stórt, upphleypt kort af landinu.

Efri hæðin skiptist í borgarstjórnarsal og skrifstofur borgarinnar. Borgarstjórnarhlutinn er bjartur yfirlitum, bæði innan- og utanhúss. Skrifstofuhlutinn er fjórskiptur með sporbaugslaga lýsingu yfir aðalstiganum milli hæða. Sunnan við skrifstofuhlutann er linsulöguð súla og veggur, sem standa úti í Tjörninni, þar sem er skemmtilegt samspil ljóss og skugga.

Lítil tjörn var útbúin á horni Tjarnargötu og Vonarstrætis með mosavöxnum vegg í bakgrunni, sem visa til samspils Tjarnarinnar og ráðhússins. Mosanum var sprautað á vegginn með loftþrýstingi (hugmynd Barböru Stanzeit, líffræðings og leiðsögukonu).

Val byggingarefnis ráðhússins réðst af því að halda því björtu yfirlitum án tillits til veðurs. Steypan er ljós og sandblásin og á að eldast vel. Einnig eru grófir fletir samhliða sléttum og mjúkum flötum. Áhrifa birtu, vatns og gróðurs gætir bæði innanhúss og utan.

Heildarflatarmál borgarstjórnar- og skrifstofuhlutans er 5356 m² og heildarrúmmál 24.279 m³.

Heildarflatarmál kjallarans er 5098 m² og heildarrúmmál 17.320 m³.

Jarðhæðin er opin almenningi alla daga vikunnar. Upplýsingamiðstöðin er opin á virkum dögum og laugardögum á veturna en einnig á sunnudögum á sumrin. Sími :411-1000

Myndasafn

Í grennd

Sögustaðir Höfuðborgarsvæðinu
Ýmsir staðir tengdir sögu svæðisins Akurey Alþingishúsið Bessastaðakirkja Bessastaðir – Álftanes …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )