Parthús voru í landi Arnheiðarstaða í Fljótsdal.
Þar voru beitarhús alllangt frá bæjarhúsunum, þar sem illskeyttur draugur hafðist við. Parthúsa-Jón flúði ásamt félaga sínum inn í húsin undan ofsaveðri. Þar lögðust þeir á garðann og Jón sagði félaga sínum að hreyfa sig ekki, þótt hann heyrði eitthvað undarlegt. Brátt hófust mikil ólæti, sem félaginn þóttist ekki heyra og lá sem fastast, en þótti í óefni komið fyrir Jóni. Hann var lamaður af ótta og hreyfði hvorki legg né lið fyrr en lætin voru yfirstaðin. Þá skundaði hann til næsta bæjar. Daginn eftir blöstu líkamshlutar Jóns við vítt og breitt um fjárhúsin.
Parthús eru neðan þjóðvegar á Arnheiðarstaðaparti, sem var fyrrum kirkjuhluti Valþjófsstaðar í jörðinni.