Óspakseyrarkirkja er í Prestbakkaprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi. Staðurinn er kenndur við Óspak , sem bjó hér á söguöld, en hann var illræmdur fyrir ránskap og vígsmál, svo að kirkjan, sem fyrst var vígð á staðnum 1318 skv. máldögum Árna Helgasonar Skálholtsbiskups, var jafnan nefnd Eyrarkirkja í Bitru, en Óspaksnafni sleppt. Er það raunar í samræmi við málhefð. Sóknin náði frá Ennishöfða að norðan suður á Borgarháls, en útkirkja í Guðlaugsvík. Hét það prestakall Bitruþing. Á tímabinum var eyrarkirkju þjónað frá Prestbakka og svo er nú, en 1886-1951 var sókninni sett þjónusta frá Felli í Kollafirði og síðan Kollafjarðarnesi. Þann tíma og upp frá því eru sóknarmörk hin sömu og sveitarinnar, en Óspakseyrarhreppur stofnaður 1886, syðri hluti hins gamla Broddaneshrepps, og tekur yfir byggðina milli Ennishöfða og Stikuháls.
Um aldamót voru íbúar Bitru 115, en eru nú aðeins 49.Þá stóð snotur timburkirkja á Eyri, byggð 1887 og voru sérkenni hennar, að predikunarstóll var yfir altari. Vék það kirkjuhús fyrir steinsteyptri kirkju, tæplega 47 m² auk 8 m hás turns á sérbyggðum stöpli, er biskup Íslands vígði hinn 14. júlí 1940. Rúmar kirkjan 54 í bekkjarsæti. Predikunarstóll er í suðausturhorni, en norðanvert í kór er hljóðfærið og aðstaða hins prýðilega skipaða söngflokks kirkjunnar.
Byggingafræðilega skoðað eru gluggarnir, 3 á hvorri hlið, einkar sérstæðir, en það mun tilviljun, að þeir mynda koptíska boga, sem alkunnur er í egypzkri list og helgihúsum með íslömskum þjóðum. Altarisbúnaður kirkjunnar er góður, stjakar, dúkur og klæði allt hið vandaðasta, en kaleikur og patína gamlir og fallegir silfurgripir. Á miðju altari er vænt krosstákn, en yfir litfögur altaristafla, málverk Jóhanns Briems og sýnir atburð pálmasunnudagsins. Fonts umbúnaður er renndur úr kjörviði í Árdal í heimasókninni. Góð klukka frá 1849 er í turni og önnur lítil frá liðinni öld. árið 1957 hlaut kirkjuhúsið gagngerar aðbætur, er einfaldir steinveggirnir voru klæddir innan, en allnorkkrar á þessu sumri í tilefni hálfrar aldar víglsuafmælis, einnig utan dyra. Þar eð föst búseta er ekki á Óspakseyri á þessum misserum, þurfa þeir, sem vilja skoða kirkjuna að snúa sér til formanns sóknarnefndar, nema eigandi jarðarinnar sé heimavið á staðnum.