Minjasafn Orkuveitu Reykjavíkur er til húsa við Rafstöðvarveg í Elliðaárdal, gegnt gömlu Elliðaárstöðinni, sem hefur séð Reykvíkingum fyrir raforku frá árinu 1921. Þegar safnið tók til starfa árið 1990, var því einkum ætlað að gera sögu rafvæðingar höfuðborgarsvæðisins skil, en með stofnun Orkuveitu Reykjavíkur árið 1999 var ákveðið, að safnið skyldi einnig fjalla um sögu vatns- og hitaveitumála. Megináherslan er þó, enn sem komið er, á þátt rafmagnsins.
Minjasafnið er í senn byggðasögusafn og eitt fárra tækniminjasafna landsins. Þar eru varðveittir hvers kyns gripir er tengjast sögu veitufyrirtækja Reykjavíkur í tæpa öld og hafa því mikið gildi fyrir atvinnusöguna. Rafmagn, hiti og hreint vatn skiptu sköpum fyrir þróun Reykjavíkur frá bæ í borg, auk þess að lífskjör og heilbrigði íbúa tóku stakkaskiptum.
Haustið 1899 voru fyrstu rafljósin tendruð hérlendis, það var í húsi Ísafoldarprentsmiðju í Austurstræti 6. Höfðu þá um nokkurt skeið verið uppi umræður um stofnun rafveitu í Reykjavík. Ekkert varð þó úr slíkum framkvæmdum að sinni, meðal annars vegna þess, að bærinn átti mörg önnur verkefni fyrir höndum.
Árið 1909 hóf Vatnsveita Reykjavíkur starfsemi sína og þótti hún mikið mannvirki. Um svipað leyti tók Gasstöðin til starfa og sá bæjarbúum fyrir eldsneyti til eldunar og lýsingar, jafnt innan dyra sem utan.
Á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar komst rafmagnsmálið á rekspöl á ný og árið 1921 var rafstöðin við Elliðaár tekin í notkun. Á Minjasafninu er undirbúningi hennar og rekstri gerð góð skil í máli og myndum, auk þess sem hægt er að skoða sjálfa stöðina á virkum dögum.
Framleiðsla Elliðaárstöðvarinnar var ekki meiri en svo að hún rétt dugði Reykvíkingum til lýsingar og lítilsháttar iðnreksturs. Húshitun fór að mestu leyti fram með brennslu kola. Á þriðja áratugnum skaut sú hugmynd upp kollinum að nýta mætti jarðvarmann til húskyndingar. Boraðar voru holur í grennd við Þvottalaugarnar í Laugardal og árið 1930 hófst rekstur hitaveitu í Reykjavík. Veitukerfi hennar var smátt í sniðum og náði ekki til margra heimila. Engu að síður sannfærði tilraun þessi menn um það að rétt væri að ráðast í enn stórfelldari hitaveituframkvæmdir og árið 1943 fengu Reykvíkingar fyrst notið heits vatns frá borholum Hitaveitunnar að Reykjum í Mosfellsdal.
Reykvíkingar fengu snemma augastað á hinu mikla óbeizlaða afli Sogsins. Árið 1935 hófst undirbúningur að gerð fyrstu Sogsvirkjunarinnar, Ljósafosstöðvar og hún var tekin í notkun árið 1937. Næstu áratugina var unnið sleitulítið að framkvæmdum við frekari virkjun Sogsins og var það ekki fullvirkjað fyrr en um 1960. Á Minjasafninu gefur að líta fjölda ljósmynda frá þessari umfangsmiklu mannvirkjagerð.
Orkuheimar, fræðslusetur Orkuveitu Reykjavíkur, eru starfræktir á neðri hæð Minjasafnsins. Þar fá grunnskólanemar fræðslu um ýmsa þætti íslenskra orkumála og spreyta sig á einföldum tilraunum, sem ætlað er að dýpka skilning þeirra á eðli rafmagnsins.