Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Ölkelduvatn

Vegna jarðfræðilegrar samsetningar Íslands er uppsprettuvatn og þar með drykkjarvatn mjög kalksnautt. Þess vegna er ástæða til að nýta ölkelduvatn, einkum kalkríkt, og koma því á markað, sem neyzluvatni í hentugum umbúðum. Í þessum tilgangi ber sérstaklega að nefna:
Ölkeldu við Bjarnarfosskot í Staðarsveit með 255,0 mg Ca²+ pr. kg,
Ölkeldu við Ölkeldu í Staðarsveit með 220,0 mg Ca²+ pr. kg,
Ölkeldu við Glaumbæ í Staðarsveit með 686,0 mg Ca²+ pr. kg.
Vatni úr þessum ölkeldum er unnt að umbreyta í bragðgóðan drykk með íblöndun kolsýru. Sama gildir um aðrar ölkeldur, svo sem við:
Lýsuhól í Staðarsveit með 30,5 og 47,7 mg Ca²+ pr. kg,
Stórahver með 35,7 mg Ca²+ pr. kg,
Ósakot í Staðarsveit með 20,2 mg Ca²+ pr. kg.

Af samgönguástæðum kemur nýting ölkeldunnar við Stórahver norður af Torfajökli ekki til greina. Hentugast er ölkelduvatn með litlu járninnihaldi, þar sem það umbreytist lítið með tímanum og hefur því betra geymsluþol. Slíkar ölkeldur eru við

Vallnahnúk undir Svartbaksfelli á Snæfellsnesi með 0,33 mg Fe²+ pr. kg og Glaumbæ í Staðarsveit með 0,61 mg Fe²+ pr. kg.

Vatn ölkeldunnar við Ölkeldu, sem inniheldur 2,0 mg Fe²+ pr. kg, liggur á mörkunum, sem þýðir, að járnútfellinga megi vænta við kolsýrublöndun. Úr vatni ölkeldunnar við Bjarnarfosskot, sem inniheldur 5,5 mg Fe²+ prk kg, þyrfti aftur á móti að fjarlægja leyst járn fyrir áfyllingu og dreifingu.

Allt ölkelduvatn, sem rannsakað var, innihélt lítið af klóríðjónum, sem þýðir, að þar er snautt af matarsalti. Það kemur sérstaklega fram í bragði þess sem neyzluvatns.
Flestar ölkeldur er unnt að nota sem heilsulindir. Kransæðasjúklingar geta hagnýtt sér kalkríkt ölkelduvatn, sem í sumum tilfellum getur bjargað lífi þeirra. Einnig er slíkt ölkelduvatn heilsulind fyrir nýrnasjúklinga vegna þvagörvandi eiginleika þess.

Bíkarbónatinnihald ölkelduvatns verkar vel á sykursjúka, þar sem langvarandi neyzla vatns, sem inniheldur kalsíum- eða natríumbíkarbónat, skapar minni insúlínþörf. Í þessu sambandi ber sérstaklega að nefna ölkeldur við Bjarnarfosskot, Lýsuhól, Ölkeldu, Vallnahnúk og Glaumbæ. Í heitu, kolsýruríku vatni ölkeldna eru jafnframt fólgnir möguleikar til lækninga ýmissa hjartasjúkdóma, en við slíka meðferð verður sjúklingurinn að vera undir ströngu eftirliti læknis. Í þessu skyni kæmu sérstaklega til greina ölkeldurnar við Glaumbæ og Lýsuhól. Þó þyrfti að framkvæma nánari koldíoxíðákvarðanir (CO²) á þessum stöðum.

Myndasafn

Í grennd

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )