Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Norðurljós yfir Íslandi

AURORA BOREALIS
Yfirborð sólarinnar sendir í sífellu frá sér svokallaðan sólvind, en hann er straumur hlaðinna agna,  aðallega róteinda og rafeinda. Segulsvið jarðar hrindir flestum þessum ögnum frá svo að þær streyma umhverfis hana eins og vatn um kjöl. Undantekning frá þessu er kringum segulpólana en það eru pólarnir sem segulnál vísar á, annar á norðurhveli og hinn á suðurhveli jarðar, gagnstætt við hinn. Á svæðum kringum þessa póla sleppur lítill hluti þessara agna inn í segulsvið jarðar. Svæðið þar sem flestar agnirnar sleppa inn myndar kraga utan um segulpólana.

Hlöðnu eindirnar sem fara inn í segulsvið jarðar hreyfast á miklum hraða eftir gormlaga brautum kringum segulsviðslínurnar milli segulskautanna. Rafeindir og róteindir streyma þannig í átt að segulpólunum og þegar nær dregur pólunum rekast eindirnar á lofthjúpinn, oftast í milli 100 og 250 km hæð. Orkan í rafeindunum og róteindunum örvar sameindir og frumeindir í lofthjúpnum en þær senda aftur á móti frá sér orkuna sem sýnilegt ljós sem við köllum norðurljós eða suðurljós eftir því við hvorn pólinn þau sjást. Litirnir sem við sjáum oftast eru grænn og rauð-fjólublár, en þeir stafa frá örvuðu súrefni annars vegar og örvuðu köfnunarefni eða nitri hins vegar.

Áhrif sólvindsins eru mest á kraga kringum segulpólana og þar eru norður- og suðurljósin einnig mest áberandi. Á Íslandi erum við svo heppin að vera í norðurljósakraganum að nóttu til við eðlileg skilyrði. Breytingar í sólvindinum valda því hins vegar að kragarnir geta stækkað eða minnkað og sjást þá ljósin á mismunandi breiddargráðum. Sem dæmi um þess konar breytingar má nefna að sólin sendir stöku sinnum frá sér gífurlegt magn af efni út í geiminn, svokallaða sólstróka. Þegar þeir ná til jarðarinnar geta norður- og suðurljósakragarnir náð mjög langt í átt að miðbaug og dæmi er um að orðið hafi vart við ljósaganginn á sjálfum miðbaugnum.

Texti af Vísindavefnum 

Myndasafn

Í grennd

Sögustaðir Höfuðborgarsvæðinu
Ýmsir staðir tengdir sögu svæðisins Akurey Alþingishúsið Bessastaðakirkja Bessastaðir – Álftanes …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )