Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Njarðvíkurskriður

Borgarfjörður Eystri

Mismunandi heimildir eru fyrir tilurð krossins, en í Naddasögu í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir svo  frá, í mjög styttu máli: Borgfirskur bóndi þurfti til Njarðvíkur og lenti þá í bardaga við Nadda. Sá var „óvættur í dýrslíki að ofan en maður að neðan“, en hann hafði hafst við í skriðunum um tíma. Naddi var hann kallaður því að það „naddaði“ í honum er hann gekk. Áttust þeir lengi við, en eftir að hafa gert heitið því að reisa „minnismark um guðs vernd“ á sér tókst bónda að koma Nadda í sjóinn og síðan hefur ekkert til hans spurst. Síðan á að hafa verið kross í skriðunum og hann var síðast endurnýjaður um miðja þessa öld. Á krossinum er áletrun á latínu sem útleggst:

Þú sem að framhjá fer
fram fall í þessum reit
og Kristí ímynd hér
auðmjúkur lotning veit.
Anno 1306*

Á krossinum standa latnetsku orðin: EFFIGIEM CHRISTI QUI TRANSIS PRONUS HONORA ANNO MCCCVI. Það merkir: Þú sem leið átt hjá merki Krists, beygðu höfuð þitt í lotningu. Árið 1306.

NADDASAGA
Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar, IV, bls. 37-38.
Lunginn úr sögunni um Jón (yngra?) son Björns skafins í Njarðvík og óvættina Nadda er í Þjóðsögum og ævintýrum tekin eftir sögn og handriti Jóns Sigurðssonar í Njarðvík. Er hún varkárlega sögð þar en ófullkomin mjög. Einkennilegt er það að aðrir sannsögulir menn segja sögu þá nokkuð öðruvísi sem nú skal greina.

Nú er fallinn Naddakross.
Nú er fátt er styður oss,
en – þú helgi klerkakraftur
krossinn láttu rísa upp aftur

Jón átti heima eða bjó að Gilsárvöllum í Borgarfirði þegar lagðist að mestu af þjóðleiðin yfir Njarðvíkurskriður sem eru milli Víkurinnar og Borgarfjarðar og brattar mjög. Var það fyrir þá sök að óvættur einn tók sér bólfestu í gili einu í vestanverðum skriðunum svo ófært þótti einum um þær að fara er rökkva tók. Er sagt að þeim væri þá grandað. En væri fleiri bar minna á því. En jafnan heyrðist glamur og gnadd í grjótinu á nóttum og síðkvöldum. Kölluðu menn af því óvættinn Nadda.

Svo bar til að Jón skrapp til Njarðvíkur frá Gilsárvöllum að hitta fólk sitt og fór hálsleiðina, slórði lengi og bjóst að fara heim skriðuleiðina. Menn báðu hann hætta sér eigi einn í skriðurnar undir nótt en hann skeytti því engu og fór af stað. Þegar hann kom í dýpsta gilið í vestanverðum skriðunum þar sem óvætturinn hafðist við og heitir síðan Naddagil (er Naddahellir þar ofar frá), þá kemur þar óvætturinn á móti honum og ræður þegar á hann. Er eftir honum haft síðar að hann væri í dýrslíki að ofan en maður að neðan. Sótti Naddi á það að færa hann niður að sjónum. Urðu nú ærið harðar, illvígar og langar sviptingar með þeim. Varð þó óvætturinn að þoka austur skriðurnar undan Jóni því sagt er að hann hafi haft járnstöng í hendi en var mesta heljarmenni sem þeir feðgar allir.

Þegar kom á háan meljaðar litlu austar í skriðunum varð leikurinn svo harður að Jón sá tvísýnu á lífi sínu. Gerði hann þá það heit að ef hann sigraði þá skyldi hann reisa þar minnismark um guðs vernd á sér. Þá brá svo við að björtum ljósgeisla sló niður sem eldingu niður á milli þeirra Jóns. Við það ómætti Nadda. Hrökk hann þá niður úr götunni og dragnaðist ofan gjögur í sjóinn. En Jón komst marinn og blár og blóðugur í Snotrunes, sagði tíðindin og kvað eigi mundi verða framar mein að Nadda. Síðan lét hann reisa kross þann á jaðrinum með Faðirvori á latínu* og þeirri áskorun að hver sem færi þar síðar um skyldi krjúpandi lesa þar Faðirvor. Þar á var líka vers. Hélst sá siður fram á miðja 19. öld.

Jón lá rúmfastur viku eftir, aðrir segja mánuð og varð aldrei samur. Svo er að sjá sem Naddi hafi verið hafmaður af sama tagi og svo margir aðrir& Enn minnir krossinn á Krossjaðri menn á atburð þennan. B.
„E.s. Guðnýjar Tómasdóttur Skr. 1917“ Þjóðs. J.Á. 1,134-135 og Grímu II, 346.

Myndasafn

Í grennd

Borgarfjörður eystra
Borgarfjörður eystra er nyrstur fjarða, sem ganga inn í Austfjarðahálendið. Borgarfjörður liggur á mótum blágrýtissvæðis og líparítsvæðis og má þar fi…
Sögustaðir Austurlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landsins Aðalból Álfaborg Álfatrú Álftafjörður Ás í Fellum Ás í Fellum Áskirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )