Náhvalur (NARWHAL) (Monodon monoceros)
Stærð fullvaxinna karldýra við landið er 4-6 m og 1,2-1,6 tonn en kvendýrin eru 3½-5 m og 0,8-1,3 tonn.
Lífslíkurnar eru u.þ.b. 50 ár. Tönnin fram úr trýni karldýranna verður allt að 2,7 m löng. Hausinn er fremur lítill og kúptur og kjafturinn lítill. Sporðblaðkan er blævængslaga, bægslin stutt og breið og bakuggi (hyrna) enginn. Liturinn er mismunandi eftir aldri. Kálfarnir eru brúnir, dökkgráir eða jafnvel bláleitir en dökkna fram að kynþroskaskeiði en lýsast eftir það og verða dröfnóttir og stundum verða eldri dýr allt að því hvít.
Náhvalurinn kýs helzt grunnsævi en þó ekki nærri landi. Hann er helzt að finna í köldum sjó, oft við ísröndina. Tennur (20 sm) eru aðeins tvær í efra skolti. Það er vinstri tönnin í karldýrunum, sem fer að vaxa fram með öfugum snúningi, þegar þeir eldast. Hún getur vegið allt að 10 kg. Vinstri tönn kvendýranna vex ekki fram nema í undantekningartilfellum. Náhvalurinn heldur sig aðallega á heimsskautssvæðunum og fer stundum langt undir ísinn. Hann heldur sig í 2-20 dýra hópum, en stundum sjást >1000 dýra vöður. Hann er flækingur umhverfis Ísland.
Fæðan er aðallega fiskur, þorskur og flatfiskar, smokkfiskur, rækja og áta. Líklega getur náhvalurinn kafað nokkur hundruð metra og er 7-20 mínútur í kafi. Hann fer suður á bóginn til að maka sig, meðgangan er 14-15 mánuðir og kálfurinn (11,7 m; 80 kg) fæðist í afskekktum fjörðum og er á spena í u.þ.b. eitt ár. Kvendýr verða kynþroska á 4-7 ára aldri og bera líklega á þriggja ára fresti. Tarfar verða kynþroska 8-13 ára. Ekki er fullljóst hvaða tilgangi tönnin Langa þjónar en hún gæti verið kyntákn.
Inúítar hafa löngum nýtt sér náhvalinn til matar og gert ýmsa listgripi úr holum tönnunum, líkt og úr rostungstönnum eða selt þær óunnar. Líklega eru u.þ.b. 4000 dýr drepin á ári en einungis fjórðungur þeirra næst, hin sökkva til botns. Hvítabirnir, rostungar og háhyrningar eru líka óvinir náhvalsins. Stofnstærð í heiminum er áætluð 25.000-50.000 dýr.