Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Nagdýr

Mús

HÚSAMÚSIN
Mus musculus eins og hún heitir á latínu er dökk- eða mógrá og örlítið ljósari að neðan án þess að glögg  mouse mörk séu á milli litanna. Hún er minni en hagamús, snjáldrið minna, augun stærri og eyrun minni. Húsamúsin finnst um allan heim og er líklega upprunnin á gresjum sunnanverðrar Mið-Asíu og á Miðjarðarhafssvæðinu. Hún barst með mönnum vítt og breitt um heiminn og lifir að langmestu í híbýlum manna og öðrum mannvirkjum. Hana er stundum að finna á ræktuðu landi, við sjávarsíðuna og í fuglabjörgum. Engar heimildir eru til um tilurð hennar hérlendis, en álitið að hún hafi borizt hingað snemma með mönnum. Hún nærist aðallega á kornmeti en á til að naga sápu og kerti og getur valdið talsverðum skemmdum. Hún býr sér til hreiður á dimmum stöðum úr pappír, hálmi, heyi, ull, tuskum o.þ.h. Við beztu skilyrði gýtur hún 5-6 sinnum á ári og eignast 6-8 unga í senn. Meðgöngutíminn er 19-20 dagar.

HAGAMÚSIN
Apodemus sylvaticus er latneskts heiti hennar. Litarhaft hennar er nokkuð breytilegt, grá- eða gulbrún að ofan og ljósgrá að neðan og skilin á milli litanna glögg. Lengd hennar með hala, sem er u.þ.b. 8 sm, er 17 sm. Helzti munurinn á húsa- og hagamúsum er ljósari kviður hinnar síðarnefndu, stærri augu og frammjórra trýni. Fullvaxnar hagamýs vega u.þ.b. 30 g, nokkru meira en í nágrannalöndum. Þessi músategund er útbreidd um mestalla Evrópu og Asíu og er talin hafa borizt hingað þegar á landnámsöld. Hún er algeng í margs konar gróðurlendi, hraunum, urðum og í nábýli við fólk. Híbýli hennar eru annaðhvort náttúruleg eða grafin í jarðveg. Göng kvíslast víða og enda í forðabúrum eða hreiðri, sem er fóðrarð með sinu eða laufi. Gottíminn er aðallega á sumrin og meðgöngutíminn er ekki nema 25-26 dagar, þannig að gotin geta orðið tvö til þrjú. Ungarnir vega 1-2 g og eru blindir og hárlausir. Þeir fá feld eftir u.þ.b. 6 daga, tennur eftir 13 daga og sjónina eftir 16 daga. Meðalungafjöldi er 5-6.

Fáar hagamýs lifa lengur en einn vetur, þannig að vetrarstofninn er ung dýr frá síðasta sumri. Þar sem gróðurlendi er grózkumikið, s.s. í Mýrdalnum, er þéttleiki músanna 120-160 á hektara í nóvember en 70-100 í júlí og ágúst. Þéttleikinn í Mývatnssveit er 8 mýs á hektara í hraununum. Hagamúsin nærist líklega aðallega á fræjum, aldinum og skordýrum en nartar líka í maðka og snigla auk hræja af dýrum, einkum fugla. Hún safnar birgðum til vetrarins, s.s. kornsúrulaukum, lúsamunlningum, fíflafræjum, berjum o.fl. Stundum heyrist tíst í músum, en það er aðeins lítill hluti hljóðanna, sem þær gefa frá sér. Þau eru á tíðnisviði, sem mannseyrað greinir ekki. Helztu óvinir músa hérlendis eru minkur, brandugla og refur, en líklega eru þeir fleiri, s.s. hrafn og kjói.

BRÚNROTTAN
Rattus norvegicus, eins og hún heitir á latínu, er 24-30 sm löng og halinn 18-20 sm. Hún er mórauð, mógrá, gulgrá eða rauðgrá að ofan en ljósgrá að neðan án skýrra litaskila. Aðalmunur á henni og svartrottunni er styttri hali og minni augu og eyru. Halinn á henni er líka ljós að neðan, sem á ekki við svartrottuna. Fólk ruglar oft rottuungum saman við mýs, en þeir þekkjast þó á öflugri afturfótum og gildari hala. Brúnrottan er í híbýlum manna og mannvirkjum um allan heim. Hún er upprunnin í Mið-Asíu og norðanverðri Austur-Asíu. Þaðan breiddist hún út á 18. og 19. öldum, landveg til Rússlands og líklega sjóveg til Suður-Asíu og áfram til Evrópu. Hennar varð fyrst vart í Danmörku, Bretlandi og Frakklandi á árunum 1720-1750. Fyrstu sagnir um hana í Noregi eru frá 1762 og í Svíþjóð 1798. Hún barst til Ameríku 1775 og hingað kom hún um miðja 18. öld.

Útbreiðslu hennar um landið var lokið seint á 19. öld. Hún er helzt á ferli í ljósaskiptunum er líka að degi til, þar sem hún er ótrufluð. Þær hreiðra um sig alls staðar, sem þær eru óhultar og valda stundum usla í fuglabyggðum, þar sem þær éta bæði egg og unga. Þær eru mikið á ferðinni í holræsum, fjörum og sorphaugum, þar sem þær lifa á lífrænum úrgangi. Þær valda víða miklum skemmdum og víða erlendis eru þær plága á rætarlöndum. Hún gýtur sjaldan oftar en 5 sinnum á ári og gengur með í 21-24 daga. Ungarnir eru fyrst hárlausir og blindir og eru á spena í 3 vikur. Það tekur kvendýrin 11 vikur að verða kynþroska. Meðalaldur þeirra er eitt ár. Rottur bera oft með sér sóttkveikjur, taugaveiki og svarta dauða, sem er sums staðar landlægur í nagdýrum. Hann berst oft í fólk með flóm, sem lifa á rottunum. Það er hægt að hægja á viðkomu rottustofna með hirðusemi og þrifnaði.

SVARTROTTAN
Rattus rattus, eins og hún heitir á latínu, er lík brúnrottunni en minni (17-19 sm + halinn 20-23 sm). Hún er með hlutfallslega stærri augu og eyru. Hún er oftast dekkri en brúnrottan, dökkgrá, svört eða mógrá og aðeins ljósari að neðan. Það er ekki hægt að reiða sig á litinn sem öruggt einkenni. Hún er upprunnin í Suðaustur-Asíu og kom snemma til Evrópu, þar sem hún var algeng á 11. og 12. öld. Hún barst til Ameríku á öndverðri 18. öld og er nú víðast um heiminn. Hún býr um sig í mannabústöðum og er helzt að finna í hafnarborgum í köldum löndum. Hún vék fyrir brúnrottunni, þegar hún barst til Evrópu og er enn þá á undanhaldi. Talið er, að hún hafi fyrst numið hér land um miðja 18. öld, en fyrsta vissan um hana fékkst árið 1919. Hennar verður vart af og til en er ekki talin eiga örugga fótfestu hérlendis.

Myndasafn

Í grennd

Villt spendýr
Ísland státar ekki af mörgum tegundum villtra dýra miðað við mörg önnur lönd og álfur. Landið er og hefur verið einangrað og einkum vettvangur fugla o…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )