Mýrdalur er vestasta sveit V.-Skaftafellssýslu og hin syðsta á landinu. Mörk hennar eru Mýrdalssandur í austri og Sólheimasandur í vestri. Sveitin er sundurskorin af fjöllum og hálsum og stærsti dalurinn, Mýrdalurinn sjálfur, er á milli Reynisfjalls og Steigarháls.
Hvergi er grænna og grösugra en í hinum iðjagræna Mýrdal á sumrin. Hrikaleg gljúfur og gil ganga inn í fjalllendið og landslag er fagurt og fjölbreytilegt.