Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Mjólkárvirkjun

Á árinu 1956 hófu Rafmagnsveitur ríkisins byggingu virkjunar í Mjólká sem nýtti fallið úr Borgarhvilft   niður í Borgarfjörð, u.þ.b. 210 m. Þessi virkjun tók til starfa haustið 1958.

Á árunum 1958 til 1960 lauk tengingu Mjólkárvirkjunar við kauptúnin frá Patreksfirði til Bolungarvíkur, ásamt tengingu við Reiðhjallavirkjun. Hér er um allmikið línukerfi að ræða sem liggur yfir hinar háu heiðar Vestfjarða með sæstrengi yfir ála Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Þessi veita var nefnd Mjólkárveita.

Á árinu 1972 hófu Rafmagnsveitur ríkisins síðan undirbúning að annarri virkjun í Mjólká sem nýtir fallið úr Langavatni og niður í Borgarfjörð, u.þ.b. 490 m.

1971 til 1972 var byggð stífla við Langavatn til miðlunar fyrir þáverandi virkjun í Mjólká. Framkvæmdir hófust við byggingu á Mjólká II 1973 og þar með talið Tangavatnsmiðlun. Virkjunin var gangsett 1975.

Núverandi Mjólkárvirkjun er því í raun tvær virkjanir sem nýta sama stöðvarhús og aðstöðu í botni Borgarfjarðar. Eldri virkjunin (Mjólká I) er minni, 2,4 MW en Mjólká II er 5,7 MW.

Þann 1.janúar 1978 var Orkubú Vestfjarða stofnað og tók við rekstri Mjólkárvirkjunnar ásamt allri starfsemi Rafmagnsveitu ríkisins og annarra rafveitna í Vestfjarðakjördæmi.

Byggingu Vesturlínu var lokið 1980 og þar með komst Mjólkárveita í tengingu við landskerfið. Fram að þeim tíma var Mjólkárvirkjun grunnaflstöð fyrir svæðið en er nú rekin sem stjórnstöð fyrir afl- og orkukaup Orkubúsins af Landsvirkjun.

Gerð hefur verið athugun á hagkvæmni stækkunar Mjólkárvirkjunar (Mjólká III). Sú stækkun felst í því að mynda miðlunarlón í Stóra-Eyjarvatni og veita vatni þaðan af 13,5 ferkílómetra lands með pípu og skurði í inntakslón Mjólkár II (Langavatn) og síðan að veita vatni af efri hluta vatnasviðs Hófsár yfir í inntakslónið.

MANNVIRKI
Stöðvarhús Mjólkárvirkjana I og II eru sameiginleg með einum vélarsal og kjallara. Við byggingu Mjólkárvirkjunar II var stöðvarhúsið lengt um 9 m til suðurs. Stjórnkerfi beggja vélanna er í stjórnklefa eldri virkjunarinnar við enda vélasalarins.

REKSTUR VIRKJUNARINNAR
Við virkjunina starfa þrír starfsmenn og sjá þeir um daglegan rekstur, viðhald og eftirlit með stöðinni. Auk þess hafa þeir eftirlit með aflkaupum Orkubúsins af landsvirkjun um vesturlínu.

STAÐHÆTTIR
Vatnasvið Mjólkárvirkjana er á vestanverðu Glámuhálendinu fyrir botni Borgarfjarðar í Arnarfirði. Helstu ár á svæðinu eru Mjólká og Hófsá. Milli þeirra er Borgarhvilftarlækur sem rennur í inntakslón Mjólkár I, Borgarhvilftarvatn. Árnar eru dragár með mismiklum lindarþætti en fá einnig nokkuð vatn úr fönnum sem ekki bráðna að fullu á sumrin. Fannirnar hafa þó minnkað mjög síðustu áratugina enda telst Gláma ekki lengur til jökla.

Meðalrennsli Mjólkár við rafstöðina er um 2,3 rúmmetrar á sekúndu. Í vatnsrýrasta ársfjórðungnum (miður janúar til miður apríl) fellur um 12 % af meðalrennslinu til sjávar en í vatnsmesta ársfjórðungnum um 40 % meðalársrennslisins. Lindarþáttur Mjólkár er því óvenjulega mikill og mun meiri en Hófsár og annarra áa sem mældar hafa verið á Vestfjörðum, að Dynjandisá undanskilinni.

Vatnasvið Mjólkár við rafstöð er rúmlega 29 ferkílómetrar. Þar af eru 20,5 ferkílómetrar fyrir ofan Langavatn og vatnasvið Borgarhvilftarvatns en 8,6 ferkílómetrar neðan Langavatns. Vatnasvið Hófsárveitu er 14 ferkílómetrar og er þá samanlagt vatnasvið Mjólkár I 22,6 ferkílómetrar.

Þegar um yfirfall er að ræða, þá fellur Mjólká niður bratta hlíð að rafstöðinni í mörgum hvítfyssandi fossum.

ORKUVINNSLA
Raforkuframleiðsla virkjunarinnar er misjöfn eftir árferði en hefur undanfarin ár verið að meðaltali rúmar 54 GWh á ári. Þar af hefur framleiðsla Mjólkár I verið 11 – 16 GWh á ári og Mjólká II hefur framleitt 38-45 GWh á ári

Mjolarvirjun

Myndasafn

Í grennd

Sögustaðir Vestfjörðum
Álftafjörður Álftamýri Arnarfjörður Arnarnes Æðey Barmar Bjarkarlundur Borgarland Botn er í Bo…
Virkjanir á Íslandi, ferðast og fræðast
Listi yfir raforkustöðvar í stafrófsröð Bjarnarflag Blævardalsárvirkjun Blönduvirkjun Búðarhálsstöð Búrfellsvirkjun …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )