Miðdalskirkja er í Mosfellsprestakalli í Árnesprófastsdæmi. Kirkjan, sem nú stendur, er lítil timburkirkja, járnklædd með turni á mæni. Hún tekur 50 manns í sæti og var byggð og vígð 1869. Guðmundur Þórðarson var yfirsmiður en Halldór Bjarnason vann aðallega verkið. Altaristaflan er steinprentuð Kristsmynd í eikarramma (Komið til mín). Prédikunarstóllinn var gerður 1837.
Gömul altaristafla, sem sýnir kvöldmáltíðina, hangir á norðurhlið kórs. Hún er talin vera eftir Ófeig Jónsson á Heiðarbæ í Þingvallasveit og hann smíðaði líka prédikunarstólinn.
Fyrsta prestsins í Miðdal, Guttorms Finnólfssonar, er getið í heimildum frá 1080. Kolbeinn Þorsteinsson (1731-1783) var prestur í Miðdal á árunum 1765-1783. Eftir hann er Gilsbakkaþula (Kátt er á jólum, koma þau senn).