Melstaðarkirkja er í Melstaðarprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi. Melstaður er bær og prestssetur í Miðfirði og um aldir talinn meðal beztu og eftirsóknarverðustu brauða landsins.
Kirkja var byggð þar skömmu eftir kristnitökuna og helguð heilögum Stefáni í katólskum sið. Útkirkjur eru á Hvammstanga, Staðarbakka og Efra-Núpi. Steinkirkjan, sem nú stendur, var vígð 8. júní 1947 og tekur 150 manns í sæti. Altaristaflan sýnir skírn Krists, eftir Magnús Jónsson, prófessor, og Ríkharður Jónsson skar út prédikunarstólinn.
Í skrúðhúsinu eru tvær grafskriftir, önnur um séra Arngrím Jónsson lærða og séra Halldór Ámundason (1773-1843) á Melstað.