Lokinhamradalur, vestast í norðanverðum Arnarfirði, er hömrum girtur nema til vesturs og meðal afskekktustu byggðra bóla landsins. Þangað og þaðan ferðast fólk fótgangandi eða í jeppum eftir tæpri slóð. Þarna nýtur sumarfagurt, vestfirzkt landslag sín til fullnustu í svotil undirlendislausu en velgrónu umhverfi.
Draugarnir Lokinhamra-Skotta, Stutta-Gunna, Arnarnúps-Móri og Gunnhildur á Sveinseyri voru þarna á sveimi og hinn síðastnefndi líklega enn þá. Náttskessan Kerling varð að steini í Grísavík í dagrenningu. Guðmundur G. Hagalín, rithöfundur, fæddist þar um aldamótin 1900.
Nú eru tveir bæir, Hrafnabjörg og Aðalból, í dalsmynninu. Lokinhamrar eru í eyði. Fólkið í dalnum byggði afkomu sína á sjónum og veiddi aðallega þorsk og hákarl frá Grísavík, þar sem enn sést til rústa verbúða.