Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Landselur

Landselur verður allt að 2 m langur og 150 kg að þyngd. Hann er líkur öðrum selum í vexti en er nokkuð   gildur og breiðvaxinn. Hann er dökkur, stein- eða gulgrár á baki, með þéttum dökkum eða ljósum dílum. Hann er oftast ljósgrár á kviði og síðum. Liturinn fer allmikið eftir árstíðum, hárafari, kyni og aldri. Heimkynni hans eru Atlantshaf norðanvert, nyrzti hluti Kyrrahafs og þeir hlutar Íshafsins, sem golfstraumurinn nær til. Hann er algengur umhverfis allt landið, mest innanfjarða í hólmum og skerjum og á söndum Suðurlands.

Landselur heldur sig nærri landi og á sumrin skríður hann venjulega á land með flóðinu í látrum. Hann er ákaflega var um sig, þegar hann hvílist í fjörunni, og eltir útfirið til að komast sem fyrst í sjóinn, ef hann verður fyrir truflun. Á vorin (maí-júní) velja urturnar sér oftast sendnar fjörur, eyjar og árósa til kæpingar. Kópurinn er á spena 4-6 vikur eftir fæðingu. Þótt hann geti strax farið að synda, flytur urtan hann með sér á bakinu eða á milli hreifanna og hefur hann hjá sér á landi. Landselurinn fer úr hárum að kæpingu lokinni og að mánuði liðnum er kominn nýr feldur. Þá liggja selirnir á landi en fara samt og ná sér í æti. Landselurinn virðist vera fjölkvænisdýr. Fengitíminn tekur við í ágústbyrjun, þegar háraskiptum er lokið og mökunin fer fram í sjónum. Þroski fósturs stöðvast um skeið og heldur síðan áfram fram að kæpingu. Meðgöngutíminn er níu mánuðir.

Myndasafn

Í grennd

Villt spendýr
Ísland státar ekki af mörgum tegundum villtra dýra miðað við mörg önnur lönd og álfur. Landið er og hefur verið einangrað og einkum vettvangur fugla o…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )