Kirkjugólf er í túninu rétt austan Kirkjubæjarklausturs og skammt frá Hildishaug. Þetta er u.þ.b. 80 m² jökul- og brimsorfinn stuðlabergsflötur, þar sem sést ofan á blágrýtissúlurnar. Þarna hefur aldrei staðið kirkja en engu öðru er líkara en flöturinn hafi verið lagður af manna höndum. Talið er að stuðlaberg myndist, þegar skrið hrauns stöðvast og það kólnar í kyrrstöðu og líklega í tengslum við gufu eða vatn. Kirkjugólf er friðlýst sem náttúruvætti.