Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu er að Ásabraut 2, 210 Garðabær. Síminn er 554-7105.
Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hófst á Íslandi árið 1851. Fyrstu trúskiptingarnir, tveir ungir námsmenn nýkomnir frá Danmörku, urðu fyrir miklu aðkasti og þeim var jafnvel bannað með dómi að prédika opinberlega. Þeir gáfust þó ekki upp og fyrsta greinin var stofnuð 1853 og starfrækt af og til fram yfir aldamótin 1900. Á þeim tíma voru kirkjuþegnar hvattir til að safnast til Utah í Bandaríkjunum og þrátt fyrir ofsóknir eða ef til vill vegna þeirra fluttust á næstu áratugum yfir 400 manns til Utah.
Vegna ofsókna og svo vegna þess að nýskírðir fluttust flestir af landi brott festi kirkjan ekki rætur á Íslandi og lagðist trúboð af 1914. Það hófst ekki á ný fyrr en 1975 er Byron Gíslason og fjölskylda hans frá Spanish Fork í Utah kom til starfa við kristniboð á Íslandi. Spanish Fork er elsta íslenska samfélagið í Bandaríkjunum. Reykjavíkurgrein var síðan stofnuð 8. ágúst 1976 með um 10 greinarmeðlimum og óx sú tala í um 40 fyrsta starfsárið.
Kirkjan hefur frá árinu 1977 haft einn starfsmann við þýðingar. Allt annað starf í kirkjunni er sjálfboðastarf. Nú eru öll helgirit kirkjunnar, önnur en Biblían, komin út í endurskoðaðri þýðingu auk fjölmargra rita annarra. Mormónsbók—Annað vitni um Jesú Krist var fyrst gefin út á íslensku árið 1981.
Árið 2000 var viðburðaríkt fyrir kirkjuna á Íslandi, en í viðbót við áðurnefnda útgáfu helgirita kirkjunnar í einu bindi, þá var kirkjubygging vígð að Ásabraut 2 í Garðabæ. Einnig var forkunnarfagurt minnismerki um 410 útflytjendur til Bandaríkjanna vígt við „Mormónapoll“ í Vestmannaeyjum og er það gjöf afkomenda þeirra vestra. Þá var einnig opnað í Vesturfarasetrinu á Hofsósi sérstök sýning helguð Utah-förum nítjándu aldar og þar er þeirri sögu allri gerð góð skil og er reyndar talin ein besta sýning sem upp hefur verið sett án þess að vera beint á vegum kirkjunnar.
Þá átti sér stað hinn merki viðburður að forseti kirkjunnar, Gordon B. Hinckley, heimsótti Ísland árið 2002 til að hvetja og styrkja kirkjuþegna hér. Einnig átti hann fund með forseta Íslands. Og sagan heldur áfram. Landnám Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á Íslandi er aðeins rétt að byrja.