Kaldársel er nafn eyðibýlis 14 km suðaustan Hafnarfjarðar, þar sem eru nú sumarbúðir KFUM og KFUK. Árni Björnsson gaf samtökunum jörðina til þessarar starfsemi. Séra Friðrik Friðriksson lét uppeldisstöðvar Sölva vera þar. Kaldá kemur upp skammt suðaustar og hverfur skömmu síðar niður í hraunið. Vatnsból Hafnfirðinga er í Kaldárbotnum.
Sagt er, að göldróttur karl hafi kveðið ána niður í hraunið eftir að hafa misst tvo syni sína í henni. Önnur sögn segir, að Kaldá sé stórmóða, sem renni úr Þingvallavatni neðanjarðar til enda Reykjanesskagans og myndi Reykjanesröstina.
Helgadalur er grasi góið misgengi á leiðinni frá Kaldárseli að Valabóli. Þar er vinsæll leik- og útivistarstaður með tjörn, þegar grunnvatnsstaðan er há.
Helgafell (340m) er víðast klettótt og bratt, en auðgengt upp norðausturranann. Það stendur upp úr hraunbreiðu með mörgum nöfnum og er vinsælt uppgöngu vegna hins góða útsýnis og góðum degi. Jón Jónsson, jarðfræðingur, taldi Gvendarselshraun undir fjallinu vestanverðu runnið eftir landnám.
Valaból (áður Músarhellir) var notað til fjárgeymslu fyrrum og þar var náttstaður leitarmanna. Farfuglar fengu leyfi Hafnarfjarðarbæjar til að innrétta sér þarna hreiður árið 1941 og gróðursettu blóm og tré þar umhverfis. Á þessum slóðum eru margar og skemmtilegar gönguleiðir, s.s. inn í Heiðmörk (Búrfell, Búrfellsgjá). Margir hafa ort um þennan fallega reit:
Einn á ferð í engri sól
úti í mugguéli,
vafra ég í Valaból
vestan úr Kaldárseli.
Í Valabóli er varmt og hlýtt,
en von á stormum hörðum.
Allt er þegar orðið hvítt
uppi í Grindarskörðum.
(Gestur Guðfinnsson).
Valabólið vinsælt er
veginn þangað rata.
Ef á tveimur fótum fer,
finnst mér greiðust gata.
(Haraldur Ámundínusson).
Óbrynnishólar eru röð fjögurra gíga vestan Undirhlíða, tæpum tveimur kílómetrum sunnan Kaldársels. Talið er, að þarna hafi gosið tvisvar, þótt gamla hraunið verði ekki rakið, en undir hinu yngra er moldarlag með leifum plantna. Greining með geislakolsaðferð segir hraunið runnið 650 árum fyrir Krist. Að öllum líkindum hefur það runnið til sjávar við Straumsvík. Gígarnir eru ekki svipur hjá sjón vegna gjallnáms. Nýr vegur liggur um þá og vegur í Bláfjöll um Lönguhlíð.