Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hvítasunnukirkjan í Vestmannaeyjum

Hvítasunnukirkjan í Vestmannaeyjum var stofnuð 1. janúar 1926. Kirkjan spratt upp af trúboðsstarfi   sem norskur maður, Eric Åsbö, hóf í júní 1921. Hann fékk vitrun frá Guði með þeim hætti að hann sá loftsýn af byggð á Íslandi undir eldfjalli. Honum var sagt að fara þangað og prédika fangaðarerindi Jesú Krists með úthellingu Heilags anda. Guð ætlaði að endurreisa söfnuð sinn með endurnýjungu náðargjafanna. Hann dvaldi einn vetur (1920-21) í Reykjavík þar sem allt virtist ganga á afturfótunum og ætlaði því að yfirgefa Ísland um vorið 1921 fullviss um að sýnin hafi verið tál eitt. Hann steig á skipsfjöl að kveldi dags í Reykjavík og vaknaði sólríkan morgun við Vestmannaeyjar. Þegar honum var litið út um kýraugað á klefanum þá sá hann landslagið sem hann þekkti frá sýninni eða vitruninni. Hann steig í land og um kvöldið hóf hann að prédika boðskap eins og Biblían talar um, þ.e. synd, réttlæti og dóm Guðs.

Uppúr þessu fóru um eitt hundrað manns að mæta að staðaldri á samkomur og gekk svo fram í 5 ár. Árið 1925 var kirkjuhús byggt og var það vígt á stofndegi safnaðarins. Þeir fyrstu í safnaðarstjórn voru Níls Ramselíus, Kristján Jónsson og Guðjón Hafliðason, gjaldkeri.

Tilgangur safnaðarins er að kunngera Biblíuna sem allt Guðs ráð og lifa samkvæmt orðum Jesú Krists og lífsmáta. Við inngöngu í söfnuðinn er fólki niðurdýft í vatn (skírt) samkvæmt Matteusarguðspjalli 28:19 þar sem Guð almáttugur er opinberaður sem þríeinn Guð: Faðirinn, Sonurinn og Heilagur andi. Fyrsta niðurdýfing safnaðarins var 19. febrúar 1926 og hefur verið síðan eftir beiðni þeirra sem vilja láta skírast samkvæmt forskrift Biblíunnar.

En öllum þeim, sem tóku við honum (Jesú), gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.

– Jóhannesarguðspjall, 1:12.

Þú ert hjartanlega velkominn í Hvítasunnukirkjuna í Vestmannaeyjum!
Kynntu þér samkomutíma okkar og láttu sjá þig. Drottinn blessi þig!

Myndasafn

Í grennd

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )