Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hvítasunnukirkjan á Ísafirði

Hvítasunnukirkjan á Ísafirði var formlega stofnuð hinn 1. janúar 1945 undir nafninu „Salemsöfnuðurinn  „. Stofnendur voru 10 talsins og eru 4 þeirra enn á lífi og taka virkan þátt í starfi kirkjunnar. Árið 1993 var nafninu breytt í Hvítasunnukirkjan Salem í samræmi við nöfn annarra Hvítasunnukirkna á landinu.

Fyrsti forstöðumaður safnaðarins á Ísafirði var Arnulf Kyvik, en hann var einnig stofnandi kirkjunnar. Aðrir forstöðumenn hafa verið: Erik Martinsson, Göte og Mary Anderson, Gunnar og Margareta Lindblom, Indriði og Carolyn Kristjánsson. Fyrstu forstöðuhjónin sem bæði eru íslensk voru Grétar Theódór Birgisson og Katrín Þorsteinsdóttir, sem veittu starfinu forstöðu frá árinu 1993-1997. Þau starfa nú á Akureyri. Við starfi þeirra tóku hjónin Róbert Grétar Gunnarsson og Esther Christina Gunnarsson. Frá október 1999 hefur Kristinn P. Birgisson verið starfandi forstöðumaður í Salem. Stjórn safnaðarins skipa forstöðumaður ásamt öldungi og tveimur stjórnarmönnum. Hinn 17. janúar 1945 keypti Arnulf Kyvik og söfnuðurinn sameiginlega ásamt Kristínu Sæmundsdóttur, féhirðis safnaðarins, húseignina Fjarðarstræti 24 undir starfsemi kirkjunnar. Tveimur árum síðar ánöfnuðu Arnulf og Kristín sínum hluta hússins til safnaðarins. Hinn 6. júlí 1947 varð húsið að fullu eign safnaðarins.

Árið 1988 hóf söfnuðurinn gagngerar endurbætur á húsinu og hefur kirkjan enn aðsetur að Fjarðarstræti 24. Árið 1946 stofnaði Sigfús B. Valdimarsson Sjómannastarfið Salem. Sigfús var einn af frumkvöðlum Hvítasunnukirkjunnar á Ísafirði. Sjómannastarfið var enn í fullum gangi undir öruggri stjórn stofnandans er hann lést 1996. Sigfús heimsótti hvert einasta skip sem hafði viðdvöl í Ísafjarðarhöfn, gaf sjómönnum Biblíur og boðaði þeim fagnaðarerindið! Þá hefur blómlegt barnastarf verið rekið í Salem til margra ára og gengur það nú undir nafninu Sunnudagaskóli. Þar hafa margir Ísfirðingar fengið gott vegarnesti inn í framtíðina og verður svo um ókomin ár.

Upplýsingar frá Hvítasunnukirkjunni.

Myndasafn

Í grennd

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )