Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Húsið á Eyrarbakka

Húsið á Eyrarbakka er meðal elztu bygginga landsins. Það var flutt inn tilsniðið árið 1765 og er  stokkbyggt timburhús, 20 x 14 álnir að flatarmáli og 659 m³ á tveimur hæðum með háalofti undir hanabjálka.

Assistentahúsið er viðbyggingin að vestanverðu með tengibyggingu. Það var byggt árið 1881 og er 280 m³. Það var upphaflega aðsetur verzlunarþjóna Lefolii-verzlunarinnar.

Sjóvarnargarðurinn fyrir framan Húsið var gerður í kjölfar Básendaflóðsins (Stóraflóðs) árið 1799.

Fyrir norðan Húsið eru útihúsin, sem voru reist 1922 og kanínugarðurinn svokallaði, þar sem ræktaðar voru kanínur til manneldis. Síðar var reft yfir garðinn og hertur þar fiskur en á 20. öld var lengst af ræktað þar grænmeti. Leifar af stéttinni fyrir framan Húsið komu í ljós sumarið 1995, þegar jarðvegur á lóð Hússins var fjarlægður. Rústir, sem sjá má fyrir austan Húsið eru sennilega fjósrústir auk rennu, sem lá frá þvottahúsi og norður í dælu á Garðstúninu en er nú uppþornuð. Húsið og Assistentahúsið ásamt sjóvarnargarðinum eru friðuð í A-flokki samkvæmt þjóðminjalögum.

Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á Húsinu í tímans rás. Í fyrstu var aðalinngangurinn að sunnanverðu og var Húsið helztu einkenni danskrar húsagerðar. Herbergjaskipan var nokkru öðruvísi en hú, t.d. voru herbergi á jarðhæð nokkru fleiri en nú og óþiljað uppi á háalofti.

Ekki er vitað, hverjir byggðu Húsið á sínum tíma, sennilega danskir smiðir, en Þorgrímur Þorláksson frá Bessastöðum múraði og hlóð kringum eldavél, bökunarofn og reykháf. Árið 1868 var inngangurinn að sunnanverðu aflagður og færður á vesturstafninn í viðbyggingu, sem var reist samtímis, sem tengibygging við Assistenahúsið. Við þessar breytingar var stiginn færður úr miðju Húsinu í vesturenda þess. Stofurnar að sunnan voru færðar saman og stækkaðar og lítið herbergi gert í austurenda. Þá var loftið fyrst þiljað niður í herbergi, en framundir þennan tíma hafði það lítið verið notað til íbúðar. Árin 1932 til 1934 var rækilega gert við Húsið, enda illa farið, en þá höfðu hjónin frá Háteigi við Reykjavík, Halldór Kr. Þorsteinsson, togaraskipstjóri, og Ragnhildur Pétursdóttir frá Engey, keypt það. Frá 1979 til 1995 fóru fram viðgerðir og endurbætur á Húsinu með það að markmiði að færa útlit þess til fyrri tíma.

Opið:

1. maí – 30. sept. alla daga: 11.00 – 18.00
Eftir samkomulagi á öðrum tímum
Sími: 483-1504

LEIÐSAGA UM HÚSIÐ OG ASSISTENTAHÚSIÐ

Við uppsetningu sýninga í Húsinu hefur verið að leiðarljósi að láta húsakynnin njóta sín. Safnið hlýtur óhjákvæmilega að mótast af þeirri umgjörð, sem það er sett í, og því er einn hluti safnsins um sögu Hússins og íbúa þess. Jafnframt eru teknir fyrir nokkrir valdir þættir úr sögu héraðsins.

Í Assistentahúsinu eru sex sýningardeildir. Þar eru: 1. Safnmunir úr Lefolii-verzlun, 2. Verzlunarmunir Guðlaugs Pálssonar (1896-1993), 3. Kirkjumunir, 4. „Brot af því bezta”: Úrval safngripa Byggðasafns Árnesinga, sem ekki rúmast á öðrum sýningum. Á efri hæð Assistentahússins er sýning um Flóaáveituna og önnur um vefnað og tóvinnu.

Á jarðhæð Hússins eru þrjár stofur og eldhús. Græna stofan (5) hefur verið endurgerð, líkust því, sem hún er samkvæmt ljósmyndum, sem eru til úr henni frá því um aldamót. Merkasti gripur safnsins er tvímælalaust píanóið, sem kom þangað árið 1871 og var til 1930.

Í bláu stofunni er saga Hússins og íbúa þess rakin (6). Á veggjum hennar gefur að líta ljósmyndir Agnesar Lunn og Oline Lefolii, sem teknar voru um aldamótin við Húsið. Upphaflega var bláa stofan skrifstofa kaupmannsins, auk þess sem lítið herbergi var austast í henni og aðalinngangur vestast.

Í gulu stofunni eða borðstofunni (7) gefst gestum tækifæri að tylla sér og fræðast um Húsið og Eyrarbakka af bókum og öðrum heimildum, sem liggja þar á borði. Ljósmyndir ásamt skýringartextum eru á veggjum en húsgögnin eru flest smíðuð af Júlíusi Ingvarssyni smið á Eyrarbakka og meðal stofnenda fyrsta iðnskóla, sem settur var á fót í Árnessýslu.

Í eldhúsinu er gamla eldstæðið (7), sem byggt var upp í upprunalegri gerð af Auðbjörgu Guðmundsdóttur og Pétri Sveinbjarnarsyni. Við hlið þess er gamalt borð, sem var í Húsinu til 1934. Þá fór það upp í Grímsnes en safnið endurheimti það í maí 1996. Safngripir á borðum tengjast kaffidrykkju Íslendinga á einhvern hátt.

Gamla búrið hefur fengið hlutverk snyrtingar.

Á leið upp á aðra hæð má sjá gömlu trébolina, sem Húsið er byggt úr en byggingin var flutt tilsniðin til landsins. Stiginn upp á aðra hæð var endurnýjaður árið 1933 en sjá má leifar af slitnum tröppum, ef gægzt er undir næstefsta þrepið.

Í dætraherberginu er sýning um heimilishald um aldamótin 1900. einnig eru þar frásagnir um lífið í Húsinu fyrr á tímum.

Í súðarkompu að norðanverðu eru ýmsir munir til heimilisþarfa geymdir. Þar munu vinnukonurnar hafa verið látnar sofa.

Í kvistherberginu að sunnanverðu eru ljósmyndir af Árnesingum. Inni af kvistherberginu er súðarkompa. Þar gefur að líta gömul leikföng í eigu Byggðasafns Árnesinga.

Uppi á háalofti var svefnherbergi vinnumanna. Geta gestir virt fyrir sér aðstæður þeirra.

ÁGRIP AF SÖGU HÚSA Á EYRARBAKKA

Frá 1765 til 1925 var Húsið heimili kaupmanna og annars starfsfólks Eyrarbakkaverzlunar. Það var nefnt „Húsið” í daglegu tali, sennilega vegna þess, að lengi fram eftir 19. öld var ekkert annað íbúðartimburhús á Bakkanum og bar því höfuð og herðar yfir annan húsakost.

Húsið er landsfrægt fyrir sögu sína og hlutverk í íslenzkri menningarsögu. Það var miðstöð allrar menningar austan Fjalls og einnig eitt mesta menningarsetur landsins um langt skeið eða frá þeim tíma, þegar Guðmundur Thorgrímsen verzlunarstjóri og kona hans frú Sylvia Thorgrímsen fluttust þangað árið 1847. Menningarleg áhrif frá Húsinu á þessum tíma voru margvísleg og báru einkenni danskrar borgaramenningar.

Guðmundur Thorgrímsen stóð ásamt fleirum að stofnun barnaskólans á Eyrarbakka árið 1852 en hann er nú elzti starfandi barnaskóli landsins. Thorgrímsen þótti sanngjarn og vinsæll verzlunarstjóri. Fjölskylda hans stuðlaði að útbreiðslu tónmenningar um héraðið en í Húsinu var spilað á orgel, gítar og píanó jafnframt því sem mikið var sungið. Bjarni Pálsson, faðir Friðriks Bjarnasonar tónskálds, lærði hjá frú Sylviu og Sylviu dóttur hennar. Bjarni kenndi mörgum á orgel síðar. Í Húsinu heyrði Páll Ísólfsson fyrst spilað á píanó „og varð í senn undrandi og glaður yfir þessum töfratónum”. Guðmunda Nielsen (1885-1935), dóttir Peters Nielsens verzlunarstjóra og Eugeniu Thorgrímsen, kenndi mörgum Eyrbekkingum á píanó. Hún gaf m.a. út sönglög fyrir einsöng og píanó, auk þess stjórnaði hún kórum í bænum og rak verzlun á Bakkanum um árabil. Hún var einn stofnenda og fyrsti formaður Kvenfélagsins á Eyrarbakka árið 1888. Ásgrímur Jónsson, listmálari, var vikapiltur í Húsinu um tveggja ára skeið eftir fermingu og taldi í endurminningum sínum, að áhugi og hvatning frú Eugeniu hafi með öðru stuðlað að því, að hann fetaði braut myndlistarinnar.

Peter Nielsen var verzlunarstjóri í Lefolii-verzlunar frá 1887-1910 og bjó ásamt konu sinni Eugeniu í Húsinu. Nielsen var þekktur fyrir náttúrufræðirannsóknir og söfnun náttúrugripa, auk verzlunarstjórastarfsins, sem hann gegndi við góðan orðstír. Hann safnaði fuglshömum og eggjum íslenzkra fugla og varð safn hans stórt í sniðum. Greinar eftir hann um náttúruvísindi, einkum um útbreiðslu íslenzkra fuglategunda, birtust í blöðum hér og erlendis.

Gestagangur var mikill í Húsinu í tíð Thorgrímsens og Nielsens. Til eru margar frásagnir, erlendar og íslenzkar, um lífið í Húsinu á þessum tíma. Þær bera allar vott um, að Húsið hafi verið mikið menningarheimili og gott þangað að sækja, ekki bara af höfðingjum, heldur einnig af alþýðufólki. Eftirsóknarvert fannst vinnufólki að komast í vist í Húsinu og þótti jafnast á við skóladvöl.

Árið 1918 keypti Kaupfélagið Hekla eigur danskra kaupmanna á Eyrarbakka, þ.m.t. Húsið. Þá flutti Guðmundur Guðmundsson kaupstjóri Heklu í Húsið ásamt fjölskyldu sinni og Haraldur Blöndal, ljósmyndari, og fjölskylda hans varð leigjandi í hluta Hússins. Á tímanum 1920 til 1926 komu fram margháttaðir erfiðleikar í verzlun á Bakkanum, svo að árið 1926 lenti húsið um sinn í eigu Landsbanka Íslands.

Árið 1932 eignuðust Halldór Kr. Þorsteinssong og Ragnhildur Pétursdóttir í Háteigi Húsið eftir að þau sáu það auglýst til sölu. Þau létu gera við það undir leiðsögn Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar, sem hafði hvatt þau til kaupanna, og er talið, að með þeirri viðgerð hafi tekizt að bjarga Húsinu frá niðurrifi, enda þá ekki algengt að vernda hús með gamla sögu. Er talið, að það sé fyrsta markvissa endurgerð húss á vegum einstaklings hérlendis, sem tekur mið af húsvernd. Ragnhildur Pétursdóttir ráðgerði að setja á fót húsmæðraskóla í Húsinu, en ekkert varð úr þeim áformum. Bretar hernámu Húsið í síðari heimsstyrjöldinni en eftir það var Húsið sumarhús Háteigshjónanna. Ragnhildur Halldórsdóttir Skeoch, dóttir þeirra, erfði Húsið eftir foreldra sína.

Halldór og Ragnhildur leigðu Assistentahúsið um langt skeið. Bjó Guðmundur Daníelsson rithöfundur í því um nokkurn tíma á fimmta áratug 20. aldar og skrifaði þar sjö bækur. Guðmundur léði Halldóri Laxness húsið árið 1945 og þar skrifaði hann „Eldur í Kaupmannahöfn”. Fleiri bjuggu í Húsinu og Assistentahúsinu um lengri og skemmri tíma. Kvenfélag Eyrarbakka hafði Assistentahúsið á leigu um nokkuð ár og var þar með kaffisölu og ljósböð fyrir börn. Síðast stóð það autt, enda illa farið.

Auðbjörg Guðmundsdóttir og Pétur Sveinbjarnarson keyðtu Húsið árið 1979. Þau létu endurbæta margt í Húsinu og bjó Auðbjörg í því frá þeim tíma til 1994 en árið 1992 keypti ríkissjóður Húsið. Þá var gert samkomulag um framtíðarskipan umsjónar og reksturs Hússins á Eyrarbakka. Þjóðminjasafn Íslands tók þá við eigninni fyrir hönd ríkisins og hafði umsjón með viðgerðum næstu tvö árin. Byggðasafn Árnesinga flutti starfsemi sína í Húsið í ágúst 1995 og opnaði það lamenningi til sýnis. Eyrarbakkahreppur hefur alla umsjón með lóð og lóðaframkvæmdum.

Myndasafn

Í grennd

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )