Hrunakirkja er í Hrunaprestakalli í Árnesprófastsdæmi. Hún var byggð 1865 úr járnvörðu timbri og tekur 200 manns í sæti. Katólskar kirkjur á staðnum voru helgaðar Maríu guðsmóður, Tómasi erkibiskupi, Þorláki helga og heilagri Katrínu. Tungufellskirkja hefur verið útkirkja síðan 1819 og í Hrepphólum síðan 1974. Altaristaflan er meðal margra góðra gripa kirkjunnar.
Sögur segja, að kirkjan hafi staðið uppi á klettahæð, sem nefnist Hruni, og þar sé hægt að sjá Hrunakarlinn í klettunum. Á þessum tíma var þar prestur, sem hélt dansleik með sóknarbörnunum í kirkjunni á jólanótt með drykkju, spilum og annarri ósæmilegri hegðan. Eitt sinn stóð dansleikurinn óvenju lengi og kölski kom til skjalanna. Hann gretti sig framan í kirkjugesti og dró kirkjuna með öllum, sem voru í henni, niður í undirdjúpin. Indriði Einarsson samdi leikritið „Dansinn í Hruna“ upp úr þessari sögu.
Hátt lætur í Hruna
hirðir þann bruna
svo skal dansinn duna
að drengir megi það muna
Enn er hún Una
og enn er hún Una