Hornafjarðarfljót er stutt og vatnsmikið og fær mestan hluta vatnsins frá Suðurfljóti, sem kemur úr Viðborðsdal og undan Svínafellsjökli, og Austurfljóti, sem kemur undan Hoffellsjökli. Yfir að sjá er fljótið eins og fjörður, sem var erfiður yfirferðar áður en brýr voru byggðar. Þá var fljótið riðið á allt að 5 km breiðu vaði og ekin, þegar bílar voru komnir til sögunnar.
Brúin var byggð árið 1961 og var þá önnur lengsta brú landsins, 255 m. Hún er talsvert missigin og það verður að aka hægt yfir hana. Hreppamörk Mýra og Nesja liggja um fljótið.