Hólsá, sem hét Djúpá til forna, er nær vestast í Rangárvallasýslu, og er u.þ.b. 18 km. löng frá sjó upp að ármótum Ytri-Rangár og Þverár. Austan hennar eru Landeyjar, en Holtahreppur (Þykkvibær) að vestan.
Hólsá telst bergvatnsá, sem áður var ólgandi jökulflaumur, þegar Markarfljót rann í Þverá, sem nú er búið að hefta. Góður vegur liggur vestan með ánni eða í nánd við hana, svo auðvelt er að komast að veiðistöðum. Í Hólsá er sjóbirtingur og bleikja af öllum stærðum og laxinn er ekki langt undan á leið sinni í Rangárnar. Vegalengdin frá Reykjavík er u.þ.b. 95 km.