Hofstaðir eru við norðanverðan Hofsvog í Helgafellssveit. Þórólfur Mostraskegg Örnólfsson nam þar land Milli Stafár og Þórsár og nefndi nesið Þórsnes, enda byggði hann traust sitt á þrumuguðnum. Í Eyrbyggju er líklega bezta og merkast lýsing á hofi því, sem Þórólfur lét reisa við bæ sinn, þótt engin merki sjáist um það nú á dögum.
Þórólfur er sagður hafa sett fyrsta þing á Íslandi og rök hafa verið færð að því, að það hafi verið haldið á Jónsnesi vestar með Hofsvogi, en þar sjást engar minjar um þinghaldið á yfirborðinu.
Hitaveita kom í Hólminn 1999. Borað var að Hofsstöðum nokkru sunnan bæjarins 1994 og upp kom nægilega heitt vatn til verksins. Framtakssamir menn komu fyrir fiskikerjum við borholuna áður en vatnið var nýtt og fóru að baða sig. Í ljós kom, að vatnið hafði góð áhrif á húð fólks, einkum þess, sem á við húðvandamál að stríða. Vatnið var rannsakað og svo virðist sem sölt í því geri það jafngott eða betra til þessa brúks en í heilsulindunum í Baden Baden í Þýzkalandi. Sundlaug var opnuð í Hólminum 1999.