Hofsdalur skerst til vesturs frá Álftafirði í átt að Vatnajökli og Flugustaðadalur teygist suður úr honum. Báðir dalirnir eru að mestu óbyggðir. Talsvert skóglendi er í dölunum, einkum í Tungu, sem er á milli þeirra. Hofsá fellur um Hofsdal til Álftafjarðar. Upptök hennar eru Hofsvötn austan Hofsjökuls. Þau sameinast Hofsá í Flugustaðadal, stórri á úr Hofsjökli, sem ber mikið fram og er að smáfylla Álftafjörð. Á bak við Stórafoss er stór, manngengur hellir. Áin var brúuð við Flugustaði árið 1955 og varnargarðinum var lokið næsta ár.
Hofsjökull (1069m) er rúmlega 13 km² milli Víðidals í Lóni og Hofsdals í Álftafirði. Skriðjökulstungan, sem gengur niður í Víðidal, heitir Morsárjökull. Fyrrum lá leið úr Víðidal um skarð milli Hofsjökuls og Tungutinda (1175m), stytzt leiða að bæjum í utanverðum Hofsdal. Sigfús Jónsson, sem byggði í Víðidal, var í för með Þorvaldi Thoroddsen um þessar slóðir árið 1882.