Hofsá er í Geithellnahreppi í Suður-Múlasýslu. Upptökinn eru í drögum Hofsdals og í Hofsvötnum, u.þ.b. 30 km frá sjó og er hún allmikið fallvatn.
Hún rennur eftir endilöngum Hofsdal, sem er mjög gróðursæll, og í honum er stór og fagur skógur. Áin rennur svo í Álftafjörð, sem ásamt Hamarsfirði myndar lón við langt sjávarrif. Veiðisvæði Hofsár er um 15 km frá ósum að Stórafossi. Í ánni er sjógengin bleikja fremur smá, þótt þar hafi veiðst nokkurra punda bleikjur og stöku lax.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 540 km og 65 km frá Höfn.