Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Heiðar Vesturlands

Heiði

HELLISHEIÐI
(375m) er sunnan Henglafjalla. Austurmörk hennar eru um Hurðarás frá Núpafjalli, Hengladalaá. Í norður nær hún til Litla- og Stóra-Skarðsmýrarfjalli. Í vestur nær hún að Reykjafelli og Lakahnúkum og í suður frá Hverahlíð að Hlíðarhorni og um Hurðarásvötn að Hurðarási. Þar sem hallar niður í Ölfus að austanverðu, heitir Kambar. Heiðin er víðast eldbrunnin og hraunin eru að mestu vaxin mosa og lyngi. Yngsta hraunið er talið hafa runnið frá 6 km langri sprungu árið 1000.
Þjóðvegurinn milli Reykjavíkur og Suðurlands hefur löngum legið um hana. Forna leiðin lá að austan upp Kamba, yfir Hurðarás og um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Þaðan lá hún um Bolavelli vestur með Húsmúla og norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli. Þessi leið sker núverandi þjóðbraut við sæluhúsið og beggja vegna vegar sjást vörðurnar með reglulegu millibili. Norðan þjóðvegarins sést stór þúst milli varðanna. Þar er borghlaðið sæluhús, sem var byggt í kringum 1830 og er nefnt Hellukofi. Þvermál þess er 1,85 sm og hæðin 2 m. Það rúmaði 4-5 manns. Byggingarefni þess var sótt í svokallaða Biskupsvörðu, sem getið var í heimildum 1703. Hún var krosshlaðin til að hafa mætti skjól af henni í öllum áttum. Vesturhluti gömlu þjóðleiðarinnar liggur um hraunklappir, sem umferðin markaði allt að 20 sm djúpum förum um aldirnar. Núverandi vegur var opnaður árið 1972. Vegurinn upp Kamba var hlaðinn upp á árunum1879-80 nálægt hinni fornu leið. Vagnfær vegur yfir heiðan var lagður á árunum 1895-96 vestur fyrir Reykjafell.
Hengladalaá kemur úr Hengladölum og rennur fyrir Ásstaðafjall í Reykjadalsá norðaustan Kamba. Vegna mikils vatnsaga í Arnarbælisforum var gerð tilraun til að veita henni út á Hellisheiði og síðar á 19. öld vestur á bóginn og svo suður. Austarlega á heiðinni má sjá merki um eina þessara tilrauna frá þjóðveginum

SVÍNASKARÐ
(481m) er á milli Móskarðshnúka og Skálafells. Það var alfaraleið milli Kjósar og Mosfellsdals þar til vegurinn var lagður meðfram Esjunni í kiringum 1930.

MOSFELLSHEIÐI
(260m) er á milli Esju og Henglafjalla og rís hæst í Borgarhólum (410m), sem eru gígar þessarar fornu gosdyngju, sem myndaði m.a. Reykjavíkurgrágrýtið á hlýskeiði, seint á ísöld. Fornar og nýjar þjóðleiðir liggja um heiðina, hin nýjasta um Mosfellsdal í þjóðgarðinn á Þingvöllum.

UXAHRYGGIR
nefnast melöldur milli Reyðarvatns og Uxavatns. Um þá liggur Uxahryggjaleið frá Brunnum og Hallbjarnarvörðum á Kaldadalsleið niður í Lundareykjadal í Borgarfirði. Um hana er skemmstur vegur milli höfuðborgarsvæðisins og Borgarfjarðardala, enda fjölfarin á sumrin. Vegurinn liggur meðfram Uxavatni á kafla og þar er silungsveiði. Þar eru upptök Sæluhúskvíslar, sem rennur langleiðina niður í Sandkluftavatn, stundum alla leið í vorleysingum.

KALDIDALUR
(727m) er stytztur hinna þriggja höfuðfjallvega landsins frá suðri til norðurs. Hann liggur á milli Oks og Langjökuls og hæsti hluti hans, efsti hluti Langahryggjar. Yfirleitt er hann fær flestum farartækjum þrjá til fimm mánuði á ári. Líkt og hinir eystri fjallvegir landsins var Kaldidalur mjög fjölfarinn fyrrum, einkum milli efstu bæja í Þingvallasveit og Borgarfirði. Þetta er fyrsti fjallvegur landsins, sem var ruddur árið 1830. Ofan af Langahrygg getur útsýni verið gott, s.s. til Prestahnjúks og mynnis Þórisdals, sem koma fyrir í þjóðsögum og Grettissögu. Syðst á Kaldadal er ein af fáum beinakerlingum landsins og hún er þónokkuð notuð af mismunandi hagyrtum ferðamönnum enn þá. Skúlaskeið, sem var talið einhver stórgrýttasti vegur landsins, er nokkuð norðan Langahryggjar. Það varð Grími Thompsen að yrkisefni í kvæðinu „Skúlaskeið”, sem hann byggði á þjóðsögu og allir urðu að læra í skóla. Norðan Kaldadals er tangi milli jökulsánna Geitár og Hvítár. Þar heitir Geitland og getið er um allþétta byggð þar á öldum áður. Þar á líka að hafa verið hverinn „Skrifla”, sem flutti sig tvisvar um set, fyrst eftir að blóðug föt manns, sem var veginn blásaklaus, voru þvegin þar. Skrifla endaði síðan niðri í Reykholti og úr hvernum rennur vatnið í Snorralaug hina fornu.

GELDINGADRAGI
er á milli Skorradals og Svínadals. Fyrrum var hann fjölfarinn og um hann liggur vinsæl leið frá Hvalfirði við Ferstiklu norður til Borgarfjarðardala. Harðarsaga og Hólmverja segir frá því, þegar Hörður Grímkelsson dró tvo forystusauði yfir hálsinn, þegar þeir höfðu gefizt upp í rekstri vegna snjóþyngsla. Hörður og fylgismenn hans höfðu stolið þeim ásamt 80 fjár og voru á leiðinni með féð í Geirshólm.

ARNARVATNSHEIÐI og TVÍDÆGRA
Svæðið frá Kalmanstungu að Arnarvatni stóra nefnist þessu nafni. Reyndar ber gamla alfaraleiðin alla leið til Vatnsdals í Húnaþingi og Skagafjarðar þetta nafn. Sé haldið frá vestri liggur hún um Hallmundarhraun hjá Surtshelli og Voprnalág, yfir Norðlingafljót og Þorvaldsháls að botni Hólmavíkur í Arnarvatni. Þar skiptast leiðir, annars vegar norður í Vatnsdal um Grímstunguheiði og hins vegar um Stórasand, yfir Blöndu og niður í Svartárdal eða um Mælifellsdal til Skagafjarðar. Forfeður okkar fóru þarna um með skreiðarlestir, á leið í og úr kaupavinnu, skóla og vitaskuld Alþingis á Þingvöllum. Enn þá sést fyrir greinilegum götutroðningum víða á þessum leiðum.

Arnarvatnsheiði og Tvídægra eru heiðarflæmi, sem þekja norðvestuhluta meginhálendisins. Þar eru vötnin sögð óteljandi líkt og hólarnir í Vatnsdal og eyjarnar á Breiðafirði. Þessar heiðar eru meðal fegurstu og friðsælustu svæða landsins og þar hafa margar fjölskyldur átt ótal unaðsstundir í útilegum og veiðiferðum. Á Arnarvatnsheiði er mikill fjöldi veiðivatna, s.s. Arnarvatn stóra, Úlfsvatn, Réttarvatn, Reykjavatn, Krókavatn, Mordísarvatn og Krummavatn. Á Tvídægru, sem er votlend og ill yfirferðar, eru líka mörg vötn, s.s. Flóavatn, Krókavatn og Langavatn. Hún er m.a. vettvangur Heiðarvígasögu. Ýmsar ár renna frá Tvídægru, s.s. Þorvaldsá, Núpsá og Vestuá til Miðfjarðar, Hrútafjarðará til Hrútafjarðar og Kjarrá til Borgarfjarðar.

Norður- og austurhlutar Tvídægru eru kenndir við Aðalból í Austurdal í Vestur-Húnavatssýslu. Aðalbólsheiði nær úr byggð suður fyrir Arnarvatn stóra. Kjálki er milli Fitjár og Austurár. Lambatungur eru vestan Austurár. Hraungarðar heita hæðir, sem rísa sunnan Aðalbólsheiðar austan frá Núpsheiði. Gamlar reiðgötur liggja um mýrar og ótræðisflóa frá Aðalbóli að Arnarvatni.

Í flestum vötnunum er mikil fiskisæld og einhver veiði í þeim öllum. Þar hafa Borgfirðingar og Húnvetningar stundað veiði frá örófi alda. Veiðin var stunduð jafnt með dorg og netum, bæði vetur og sumar, enda geysileg búbót, þegar hart var í ári. Vetrarveiði féll niður um tíma, en nú orðið leggja æ fleiri leið sína á þessar fögru slóðir til að dorga í gegnum ís. Fuglalíf er mikið á heiðinni og þar var mikil grasatekja fyrrum. Sekir menn áttu oft bólstaði á heiðinni eins og lesa má um í Grettissögu. Nokkrar leiðir liggja yfir þessi heiðalönd. Þessar leiðir eru einungis ætlaðar jeppum. Að sunnan er farið frá Kalmanstungu yfir Strútsháls, Hallmundarhraun og Þorvaldsháls að Arnarvatni. Þangað liggja leiðir líka að norðan upp Víðidal og Vatnsdal. Frá Arnarvatni er hægt að aka austur um Stórasand út á Kjalveg norðan Sandkúlufells.

HOLTAVÖRÐUHEIÐI
(407m) liggur á milli Norðurárdals (Tröllakirkja/Snjófjöll) og Hrútafjarðar (heiðar vestan Tvídægru). Varða til minningar um heimsókn Danakonungs 1936 með fangamarki konungs var hlaðin til minningar um þennan atburð norðarlega á heiðinni. Vegurinn var endurbyggður frá árinu 1976 og var víða fluttur austar á heiðina og nýtt sæluhús byggt (fjarlægt 2001). Árið 1831 varðaði Fjallvegafélagið heiðina. Hún var löngum stytzta og fjölfarnasta leiðin milli byggða og þar varð fólk oft úti í slæmum vetrarveðrum. Sunnan heiðar var Fornihvammur lengi veitinga- og gististaður. Þar reisti Fjallvegafélagið sæluhús 1831 og áratug síðar hófst þar búskapur. Norðan heiðar gegndi Grænumýrartunga svipuðu hlutverki, þar til Brú og Staðarskáli tóku við því. Nú eru allir þessir staðir horfnir og/eða hættir, nema Staðarskáli, sem stendur nýr við nýjan veg um leirur Hrútafjarðar (2008).

BRATTABREKKA
(392m) er fjallvegurinn milli Mýrasýslu og Dalasýslu. Hann liggur upp frá Dalsmynni í Norðurárdal, skammt austan Bifrastar og Grábrókargíga. Nafnið á þessari leið fluttist yfir á hana frá gömlu póstleiðinni, sem er löngu aflögð. Árið 2003 var lokið við að endurbyggja veginn og leggja á hann bundið slitlag.

HEYDALUR
er lægsta skarðið í gegnum Snæfellsnesfjallgarð (Rauðamelsheiði). Þar liggur vegurinn milli Skógarstrandar og Hnappadals. Hann er vetrarvegur í Dalina og vestur á Firði og var aðalflutningaleiðin þar til vegabætur komu í Bröttubrekku.

VATNALEIÐ / KERLINGARSKARÐ
Kerlingarskarð (311m) var ein aðalsamgönguleiðin yfir Snæfellsnesfjallgarð áður en Vatnaleið var opnuð árið 2001. Báðar leiðir liggja milli Vegamóta í Miklaholtshreppi á sunnanverðu Nesinu og Helgafellssveitar á því norðanverðu. Kerlingin, sem leiðin er kennd við, stendur enn þá óhögguð og steinrunnin á norðanverðri öxl Kerlingarfjalls í skarðinu. Hún mun hafa steinrunnið á heimleið með silungakippu á bakinu (sjá Skyrtunnur, Hest og Baulárvallavatn). Nú liggur alfaravegur um hina fögru og lægri Vatnaleið, lítið eitt vestar.

FRÓÐÁRHEIÐI
(361m) er einn fjallveganna yfir Snæfellsfjallgarð, lítið eitt austan Ólafsvíkur. Leiðin liggur upp frá Búðahrauni og niður í Fróðárdal á norðanverðu Nesinu. Þessi leið liggur um snjóþungt skarð, þar sem veður verða oft vond.

JÖKULHÁLS
er austan undir Snæfellsjökli. Þar liggur leið milli Arnarstapa og Ólafsvíkur. Hún liggur fyrst meðfram Stapafelli, sé lagt af stað að sunnanverðu, og með jökulrótum í 700-800 m hæð yfir sjó. Leiðin er ekki alltaf fær, því að mismunandi er, hve snemma snjóa leysir. Þessi leið er tilvalin fyrir göngufólk, enda ekki nema 4-5 klst. ganga milli staða. Þeir, sem leggja leið sína á jökulinn, halda gjarnan upp á Jökulháls og þarna hefur verið rekin starfsemi (Snjófell) með snjóbíla og snjósleðaferðum.

Vikurvinnsla hófst á Jökulhálsi árið 1937. Byggðir voru stokkar ofan af hálsinum niður á Arnarstapa til að fleyta vikrinum með vatni. Niðri á Stapa var vikurinn kurlaður og settur í skip til Reykjavíkur eða beint til útlanda.

Heilsárstímabil 1932-33 var helgað alþjóðaveðurathugunum. Þá voru gerðar veðurathuganir á jöklinum og byggt hús uppi á Jökulhálsi í þeim tilgangi. Ferðafélag Íslands eignaðis þetta hús en það fauk 1936. Þar var endurreist tvisvar en jarðhiti undir því olli miklum fúa, þannig að lítið er eftir.

LAXÁRDALSHEIÐI
Laxárdalur gengur til norðausturs inn frá Hvammsfirði, langur og fremur þröngur milli lágra hálsa. Landslagið er sviplítið en algróið og gott til beitar. Samkvæmt Laxdælu var hann vaxinn þéttum skógi en þar sést varla hrísla nú. Um dalinn rennur Laxá og upp úr dalnum liggur vegurinn yfir Laxárdalsheiði (150m) til Borðeyrar í Strandasýslu við Hrútafjörð. Laxárvatn er vestantil á heiðinni og mörg önnur vötn á henni og norðan hennar. Stærst er Hólmavatn á Hólmavatnsheiði. Talsverð umferð er um heiðina.

Myndasafn

Í grennd

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )