Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Heiðar Norðurlands

ARNARVATNSHEIÐI
Arnarvatnsheiði og Tvídægra eru heiðarflæmi, sem þekja norðvestuhluta meginhálendisins. Þar eru vötnin sögð óteljandi líkt og hólarnir í Vatnsdal og eyjarnar á Breiðafirði. Þessar heiðar eru meðal fegurstu og friðsælustu svæða landsins og þar hafa margar fjölskyldur átt ótal unaðsstundir í útilegum og veiðiferðum. Á Arnarvatnsheiði er mikill fjöldi veiðivatna, s.s. Arnarvatn stóra, Úlfsvatn, Réttarvatn, Reykjavatn, Krókavatn, Mordísarvatn og Krummavatn. Á Tvídægru, sem er votlend og ill yfirferðar, eru líka mörg vötn, s.s. Flóavatn, Krókavatn og Langavatn. Hún er m.a. vettvangur Heiðarvígasögu. Ýmsar ár renna frá Tvídægru, s.s. Þorvaldsá, Núpsá og Vestuá til Miðfjarðar, Hrútafjarðará til Hrútafjarðar og Kjarrá til Borgarfjarðar.

Í flestum vötnunum er mikil fiskisæld og einhver veiði í þeim öllum. Þar hafa Borgfirðingar og Húnvetningar stundað veiði frá örófi alda. Veiðin var stunduð jafnt með dorg og netum, bæði vetur og sumar, enda geysileg búbót, þegar hart var í ári. Vetrarveiði féll niður um tíma, en nú orðið leggja æ fleiri leið sína á þessar fögru slóðir til að dorga í gegnum ís. Fuglalíf er mikið á heiðinni og þar var mikil grasatekja fyrrum. Sekir menn áttu oft bólstaði á heiðinni eins og lesa má um í Grettissögu. Nokkrar leiðir liggja yfir þessi heiðalönd. Þessar leiðir eru einungis ætlaðar jeppum. Að sunnan er farið frá Kalmanstungu yfir Strútsháls, Hallmundarhraun og Þorvaldsháls að Arnarvatni. Þangað liggja leiðir líka að norðan upp Víðidal og Vatnsdal. Frá Arnarvatni er hægt að aka austur um Stórasand út á Kjalveg norðan Sandkúlufells.

STÓRISANDUR
Stórisandur er hæðótt og lítt gróið svæði í 700-800 m hæð yfir sjó norðan Langjökuls í Vestur-Húnavatnssýslu. Nánar tiltekið er hann milli Arnarvatnsheiðar og Kjalvegar norðan Seyðisár. Þarna eru jökulsorfin og víða stórgrýtt grágrýtishraun, sem eru þó víða greiðfær, enda liggur hinn forni Skagfirðingavegur um þau. Fjallvegafélagið lét ryðja þar braut og varða á árunum 1831-34. Grettishæð er áberandi strýta á Sandinum. Hún er e.t.v. Grettisþúfa, sem kunn er úr Grettissögu, þar sem Þorbjörn öngull er sagður hafa grafið höfuð Grettis. Einnig er til sögn um að Grettir hafi barizt þar við óvini sína. Víða eru uppsprettur meðfram Stórasandi og vatnið fellu til norðurs til Vatnsdals- og Víðidalsár og einngi til suðurs í Fljótsdrög (Norðlingafljót). Krákur (1167m), norðan Langjökuls, er mesta fjallið við Stórasand. Skagfirðingar stunduðu skreiðarferðir um Sand til 1890. Þeir litu til Mælifellshnjúks til að átta sig á færðinni um Sandinn. Þar má sjá stóra fönn, sem líkist hesti í lögun. Þegar hún var gengin í sundur um bógana var Sandurinn orðinn fær.

Hvítan hest í Hnjúkinn ber,
Hálsinn reyrir klakaband.
Þegar bógur þíður er,
Þá er fært um Stórasand.

VÍÐIDALSTUNGUHEIÐI
er upp af Víðidal nog nær suður að Stórasandi og Arnarvatni, austur að Haukagilsheiði og vestur að Aðalbólsheiði. Suðurmannasandfell (710m) er á mörkunum við Stórasand og mestur hluti heiðarinnar liggur 400-500 m.y.s. Hún er velgróin, mjög mýrlend og erfið yfirferðar, aðallega norðan- og vestantil. Hæðahryggir eru á henni austanverðri, allt að Arnarvatni. Eyðibýli nyrzt á heiðinni voru lögð undir afréttina. Aðalvötnin á heiðinni eru Bergárvatn, Melrakkavatn, Hólmavatn, Þrístikla og Króksvatn. Víðidalsá og Fitjá eiga upptök sín á heiðinni. Upp frá Hnappsstöðum er bílaslóð að Arnarvatni.

AUÐKÚLU-, GRÍMSTUNGU og EYVINDARSTAÐAHEIÐI
Leiðir að vötnum á þessum heiðum liggja upp úr nokkrum dölum á Norðurlandi, Vatnsdal, Blöndudal og Svartárdal í Húnaþingi og Mælifellsdal og Vesturdal í Skagafjarðarsýslu. Leiðin upp á Grímstunguheiði (751 og 752) um Vatnsdal verður að jeppaslóða og tengist Kjalvegi um Stórasandsleið inn á Auðkúluheiði. Leiðin upp á Auðkúlu heiði um Blöndudal er öllum bílum fær eftir uppbyggðum vegi Landsvirkjunar (731, 732 og F37) fram hjá Blönduvirkjun. Sé ekið áfram suður og sveigt til vinstri, skammt norðan Geirsöldi á Kili, er hægt að komast yfir Blöndu á vaði inn á Eyvindarstaðaheiði. Leiðin frá þjóðvegi nr. 1 upp á Eyvindarstaðaheiði liggur um Vesturdal (751, 752 og F72) að Ásbjarnarvötnum og Laugafelli. Einnig er leið upp úr Mælifellsdal, sem tengist síðan leiðinni upp úr Vesturdal sunnar, norðan Hofsjökuls. Þessar leiðir eru víða seinfarnar og nokkrir gangnamannaskálar eru þarna á heiðum uppi.

Ásgeirs- eða Álfgeirstungur eru mýrlend og tiltölulega velgróin afréttarsvæði innarlega á Eyvindarstaðaheiði. Þar voru víðáttumiklar flár með stórgerðum rústum áður en land þornaði og fór að blása upp suður undir Hraungörðum. Við Fossabrekkur eru nokkrar tjarnir og Mannabeinavatn stærst. Svæði þetta er á milli Ströngukvíslar og Haugakvíslar og tveir leitarmannaskálar við hina fyrrnefndu. Flár eru mýrar inni á hálendinu. Þúfurnar í þeim kallast rústir og geta orðið allt að tveggja metra háar og 10-15 metrar á lengd og breidd. Milli þeirra eru oftast flóasund og fjöldi tjarna. Oft fer klaki ekki úr rústunum á sumrin og sumar eru blásnar í kollinn. Gróðurfélögin eru mjög mismunandi vegna mismunandi jarðraka.

Það er ekki laust við, að þessi tiltölulega velgrónu heiðarlönd heilli og hrífi þá, sem um þau fara, og kalli fólk til sín aftur og aftur.

HOLTAVÖRÐUHEIÐI
Holtavörðuheiði (407m) liggur á milli Norðurárdals (Tröllakirkja/Snjófjöll) og Hrútafjarðar (heiðar vestan Tvídægru). Varða til minningar um heimsókn Danakonungs 1936 með fangamarki konungs var hlaðin til minningar um þennan atburð norðarlega á heiðinni. Vegurinn var endurbyggður frá árinu 1976 og var víða fluttur austar á heiðina og nýtt sæluhús byggt (fjarlægt 2001). Árið 1831 varðaði Fjallvegafélagið heiðina. Hún var löngum stytzta og fjölfarnasta leiðin milli byggða og þar varð fólk oft úti í slæmum vetrarveðrum. Sunnan heiðar var Fornihvammur lengi veitinga- og gististaður. Þar reisti Fjallvegafélagið sæluhús 1831 og áratug síðar hófst þar búskapur. Norðan heiðar gegndi Grænumýrartunga svipuðu hlutverki, þar til Brú og Staðarskáli tóku við því. Nú eru allir þessir staðir horfnir og/eða hættir, nema Staðarskáli, sem stendur nýr við nýjan veg um leirur Hrútafjarðar (2008).
Miklagil með samnefndri á er á norðanverðri heiðinni. Vatn rennur um gilið frá Tröllakirkju og skammt neðan brúar eru klettadrangur og foss, sem báðir heita Jörundur. Gilið var mikill farartálmi áður en það var brúað og um það rennur mikið vatn í vorleysingum.

HJALTADALSHEIÐI
Hjaltadalsheiði er gömul og fyrrum fjölfarin gönguleið milli Hörgárdals og Hjaltadals. Efst á henni er farið yfir jökul í u.þ.b. 1000 m hæð yfir sjó en fjöllin umhverfis eru 1200-1300 m há. Hún er villugjörn í vondum veðrum og hefur krafizt margra mannslífa.

STÓRA-VATNSSKARÐ
Vatnsskarð (420m) er á milli Grísafells (782m) og Valadalshnjúks (850m) frá Vatnshlíðarvatni að vestan. Vegurinn um það liggur milli Bólstaðarhlíðar í Svartárdal og Víðimýrar í Skagafirði. Í dalskarðinu eru bæirnir Stóra-Vatnsskarð og Valagerði. Tvö eyðibýli eru í Valadal, Valadalur og Valabjörg. Þau, ásamt Vatnshlíð og Víðimýrarseli, voru kölluð á Skörðum. Valadalur fór í eyði 1972 og Valabjörg 1944. Bærinn Stóra-Vatnsskarð stóð áður norðan Valadalsár en var fluttur að þjóðveginum árið 1963 eftir bæjarbruna.

SIGLUFJARÐARSKARÐ
Siglufjaðarskarð varð meðal hæstu fjállvega á landinu (630m) og oftast lokað 8-9 mánuði á ári og stundum í sumarhretum. Eftir að Strákavegur og Strákagöng komu til sögunnar er lítið um ferðir yfir skarðið, þótt Siglufjarðarbær haldi veginum ökufærum fyrir þá, sem vilja njóta fagurs útsýnis úr skarðinu á góðum degi.

HELJARDALSHEIÐI
Heljardalsheiði (865m) er skarð milli Svarfaðardals og Heljardals, hliðardals Kolbeinsdals. Hæstu fjöll umhverfis eru Heljarfjall (1090m) og Hákambar (1162m). Heiðin er brött báðum megin og jökull efst. Hún var fjölfarin fyrrum og var oft erfið yfirferðar eins og nafnið gefur tilkynna. Ferð milli bæjanna Skriðulands í Kolbeinsdal og Atlastaða í Svarfaðardal er rúmlega fjórir klukkutímar. Árið 1195 var séra Guðmundur Arason, prestur á Völlum í Svarfaðardal, á ferð um heiðina við fimmtánda mann. Fólkið lenti í stórhríð og einungis Guðmundur og stúlkubarn lifðu hana af. Hann varð síðar biskup á Hólum (Guðmundar saga góða).

HÉÐINSSKÖRÐ
Héðinsskörð (1210m) eru milli Barkárdals í Hörgárdal og Hjaltadals. Það er mjög þröngt og 200-500 m langt milli brúna. Þarna er mjög sprunginn jökull og því er leiðin vandfarin. Þessi leið var fjölfarin fyrrum. Ingimar Sigurðsson (1880-1908) varð þarna úti og dró þá mjög úr ferðum.

ÖXNADALSHEIÐI
Öxnadalsheiði (540m) liggur milli Norðurárdals í Skagafirði og Öxnadals í Eyjafirði. Hún er þrengst vestantil um Skógarhlíð og Giljareit. Austar er víðara flatlendi og vatnaskil um Flóann. Þar varð flugslys árið 1958, þega fjórir ungir menn fórust. Heiðará fellur vestur til Norðurár. Í sæluhúsi Slysavarnarfélagsins, Sesselíubúð (Sesselía Eldjárn frá Tjörnum í Svarfaðardal) eru hitunartæki og sími. Mikil snjóþyngsli eru á heiðinni og þótti ferðalöngum gott að njóta yls og veitinga að Fremri-Kotum í Norðurárdal og í Bakkaseli (nú í eyði) efst í Öxnadal.

LÁGHEIÐI
Lágheiði (209m) er sumarfjallvegur milli Stíflu og Ólafsfjarðar. Hún er tiltölulega lágur og gróinn dalur. Vegurinn fyrir Ólafsfjarðarmúla og síðar göngin í gegnum hann ollu því, að vegurinn um Lágheiði var lítt notaður en síðar jókst umferð um hann vegna innlendra og erlendra ferðamanna. Árið 2002 samþykkti Alþingi jarðgangaáætlun milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, sem ríkisstjórnin frestaði 2003 við lítinn fögnuð Siglfirðinga, sem mótmæltu hástöfum

VAÐLAHEIÐI
Vaðlaheiði (600m) lá þjóðleiðin um Steinsskarð milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Endurvarps- fjárskiptastöð er á hæstu bungu norðar skarðsins (613m). Hún er víðast allvel gróin og stórkostlegt útsýni af hanni í góðu veðri.

Rétt sunnan Vaðlaheiðar er hið grunna Bíldsárskarð uppi af Kaupangi. Þar var fyrrum vörðuð og greiðfær alfaraleið til Fnjóskadals. Landnáma segir, að Helgi magri hafi byggt sér skála að Bíldsá annað árið sitt við Eyjafjörð. Líklega hefur Helgi lagt skipum sínum skammt norðan þessa bústaðar við svonefndan Festarklett við ósa Bíldsár. Þarna dvaldist hann í bráðabirgðaskála áður en hann fluttist að Kristnesi.

VÍKURSKARÐ
Víkurskarð (325m) tók við hlutverki Vaðlaheiðarvegar, þar sem það er mun lægra, þótt þar verði oft ærið snjóþungt.

REYKJAHEIÐI
Heiðin milli Reykjahverfis og Kelduhverfis, sunnan Gæsafjalla norður að Grísafjöllum er kölluð Reykjaheiði. Margir vilja þó aðeins nota þetta nafn yfir nyrzta hluta þessa svæðis. Reykjaheiðin er hulin mosavöxnum hraunum. Um heiðina liggur vegur milli Húsavíkur og Kelduhverfis (Fjöll) í 350 m hæð yfir sjó. Hann er einungis fær á sumrin og mjög er þar snjóþungt á veturna. Þarna var alfaraleið fyrrum og oft varð fólk úti á leiðinni á veturna. Botnsvatn er ein af perlum heiðarinnar. Það er örskammt frá Húsavík og heillaráð að fá leyfi til að fá leyfi til að renna þar fyrir fisk á leiðinni yfir heiðina. Árið 1700 varð maður úti á heiðinni í blindhríð um mitt sumar. Við Sæluhúsmúla var fyrrum sæluhús, sem nú er rústir einar. Þar urðu ferðamenn, sem voru einir á ferð oft fyrir ónæði draugs. Við Sæluhúsmúlann kvíslast vegurinn niður í Kelduhverfi og inn að Þeistareykjum og þaðan suður á þjóðveginn á Hólssandi. Gegnt Sæluhúsmúla er Höfuðreiðarmúli, sem nánar er getið undir Víkingavatni í Kelduhverfi.

TUNGUHEIÐI
Tunguheiði er 15 km langur fjallvegur yfir Tjörnesfjallgarð milli bæjanna Fjalla í Kelduhverfi og Syðri-Tungi á Tjörnesi. Hún er snarbrött að austan en aflíðandi niður Tjörnesið. Uppi á henni ber Biskupsás (532m), þaðan sem útsýni er óborganlegt á góðum degi. Heiðin var fjölfarin á meðan Keldhverfingar sóttu verzlun til Húsavíkur. Tunguheiði var 13 km styttri en Reykjaheiði. Akvegur var opnaður fyrir Tjörnes 1956.

FLJÓTSHEIÐI
Fljótsheiði (247m) er stórt heiðarflæmi austan Bárðardals. Norðan hennar er Aðal- og Reykjadalur en Mývatnsheiði að sunnan. Heiðin er víðast lægri en 200 m.y.s. og að mestu vel gróin, þótt nokkuð sé um uppblástur sunnantil. Allir bæir, sem byggðust á heiðinni á 19. öld eru nú í eyði. Þetta svæði kemur við sögu í Reykdælasögu.

MÝVATNSHEIÐI
Mývatnsheiðarvegur (335m) liggur framhjá Másvatni á milli Reykjadals og Mývatnssvæðisins. Þessi leið býður frábært útsýni í góðu veðri, alla leið suður til jökla á hálendinu.

MÝVATNSÖRÆFI
Mývatnsöræfi (350-355m) eru austan Mývatns, milli þess og Jökulsár á Fjöllum, og ná yfir stóran hluta Ódáðahrauns, sem er eign Reykjahlíðar við Mývatn. Þau eru flatlend, þakin hraunum, móbergsfellum og gígum. Þar er m.a. Búrfell, Skólamannafjöll, Jörundur, Eilífur, Herðubreið, Herðubreiðarfjöll. Öræfin eru víða sprungin og sundurtætt, enda hafa sprungugos og jarðskorpuhreyfingar valdið sífelldum breytingum. Stærsta jarðfallið er milli Austari- og Vestari-Brekku. Meðal stærstu gjánna eru Sveinagjá og Fjallagjá. Mývatnsöræfi líta í fljótu bragði út fyrir að vera gróðursnauð en við nánari athugun finnast fallegar gróðurvinjar, þar sem skammt er í vatn. Norðurhlutinn er að mestu mólendi. Þjóðvegurinn liggur um Námaskarð að brúnni á Jökulsá á Fjöllum (byggð 1957).

ÓDÁÐAHRAUN
Ódáðahraun er stærsta samfellda hraunbreiða landsins. Mörk þess eru Vatnajökull og Vonarskarð að sunnan, Skjálfandafljót að vestan, Jökulsá á Fjöllum að austan og líklega Mývatnsfjöll að norðan, þótt þau mörk séu óskýr. Þetta hraun- og landflæmi nær frá 400 m hæð nyrzt til 800 m hæðar syðst og upp úr því rísa mörg fjöll og fjallagarðar, s.s. Herðubreið og Dyngjufjöll. Að jafnaði er þetta svæði tiltölulega greiðfært, þótt gróður- og vatnsleysi geti valdið ferðalöngum erfiðleikum. Talið er að nafnið Ódáðahraun komi fyrst fram í riti Gísla Oddsonar biskups, Undur Íslands árið 1638. Svæðið var að mestu ókannað þar til Öskjugosið 1875 beindi för manna til Dyngjufjalla. Fyrstur til að sjá það var Englendingurinn William Lord Watts, sem var á ferð norður yfir Vatnajökul. Árið 1885 fór Þorvaldur Thoroddsen víða um Ódáðahraun með fylgdarmanni sínum, Ögmundi Sigurðssyni. Ólafur Jónsson frá Akureyri kannaði svæðið í 20 ferðum á árunum 1933-1945 og gaf síðan út þriggja binda ritsafn um ferðir sínar, Ódáðahraun I-III.

Sagnir frá fyrri öldum geta um Ódáðahraun sem alfaraleið í tengslum við Sprengisandsleið. Stytzt er að vitna í Hrafnkelssögu um ferðir Sáms á Leikskálum. Oddur biskup Einarsson er sagður hafa lent í villum og útilegumannabyggð. Gömlu leiðarinnar um Ódáðahraun hefur verið leitað og hún er talin fundin.

HÓLSFJÖLL
Hólsfjöll eða Fjallasveit nær yfir svæðið austan Jökulsár á Fjöllum, sunnan núverandi þjóðvegar og allt austur að Dimmafjallagarð og Haugsöræfum. Þarna var fyrst byggt á Hóli á 14. öld og síðar á Grímsstöðum. Hólssel byggðist í kringum 1650. Um miðja 19. öldina spruttu upp nýbýli á Hólsfjöllum og sveitin var gerð að sérstakri sókn með kirkju á Víðirhóli. Þarna bjuggu u.þ.b. 100 manns árið 1859. Möðrudalssókn á Efra-Fjalli og Fjallasókn voru gerðar að sérstöku prestakalli á árunum 1880-1907. Fjallahreppur var stofnaður 1893 en fram að því var sveitin hluti af Skinnastaðarhreppi. Hólsfjallahangikjötið var rómað fyrir gæði og óvíða annars staðar voru sauðir jafnvænir og á Hólsfjöllum. Uppblástur og ofbeit ollu verulegri gróðureyðingu, sem búið er að berjast gegn áratugum saman með ágætum árangri. Norðanverðum Hólssandi, sem nær u.þ.b. frá gígaröðinni Rauðhólum norður að Grímsstöðum, var lokað með sandgræðslugirðingu. Eini bærinn, sem er eftir í byggð í sveitinni, er Grímsstaðir. Leiðin milli Öxarfjarðar og þjóðvegarins við Grímsstaði er fjölfarin á sumrin, þegar ferðamenn leggja leið sína til Dettifoss. Leiðin vestan ár milli Kelduhverfis og þjóðvegarins á Mývatnsöræfum er mun ógreiðfærari en hún liggur að Dettifossi vestan ár. Báðar þessar leiðir eru ófærar á veturna.

VEGASKARÐ
Þjóðvegur #1 liggur upp úr Víðidal að vestan um Vegaskarð að Mörðudal á Fjöllum eða áfram um Háreksstaðaleið. Sunnan þess er Vegahnjúkur (783m) og Sauðahnjúkur (641m). Skarðið er snjóþungt og þar er talið reimt eftir að skyggja tekur vegna förukonu, sem varð þar úti.

MÖÐRUDALSÖRÆFI
Möðrudalsöræfi (660m) taka við austan Grímsstaða, Víðidals og Vegskarðs. Hæst rís gamli þjóðvegurinn (nú Háreksstaðaleið) í Möðrudalsfjallgarði. Þetta landsvæði tilheyrir Möðrudal á Fjöllum, sem er talin meðal landstærstu jarða landsins. Umhverfi bæjarins er í 460 m.y.s. Árið 2003 voru aðeins Grímsstaðir og Möðrudalur í byggð en Víðidalur lagðist í eyði í kringum aldamótin. Mörg örnefni benda til meiri byggðar fyrrum en Öskjugosið 1875 setti strik í reikninginn. Síðustu áratugi 20. aldar og fram á okkar tíma hafa öræfin gróið talsvert upp en enn þá skiptast á gróðurflesjur og uppblásturssvæði. Svæðið milli Möðrudalsfjallgarðanna heitir Geitasandur.

JÖKULDALSHEIÐI
Jökuldalsheiði er víðast í nánd við 500 m yfir sjó og er u.þ.b. 60 km löng á milli Þríhyrningsfjallgarðar, Möðrudalsfjallgarðar, Þjóðfells og Súlendna að vestan og hábrúna Jökuldals með ýmsum hnúkum að austan. Þar eru berar melöldur, fjöldi vatna, flóar og votlendi, vaxin broki, ljósastör og loð- og grávíði. Um og eftir miðja 19. öld var mikil byggð á heiðinni. Þar bjó fólk, sem vildi vera sjálfbjarga en hafði ekki efni á að stofna til búskapar annars staðar. Öskjugosið 1875 lagði byggðina á heiðinni að mestu í eyði og margt fólk, sem flosnaði upp fluttist til Vesturheims. Halldór Laxness mun hafa fengið margar hugmyndir að skáldsögu sinni „Sjálfstætt fólk” af kynnum sínum við síðustu ábúendur þar. Gunnar Gunnarsson skrifaði skáldsöguna „Heiðarharmur”, sem lýsir lífi fólksins á Jökuldalsheiði vel.

TUNGUSELSHEIÐI
er afréttur Langnesinga austan Hafralónsár. Kverká rennur um hana til Þistilfjarðar og Litla-Kverká til Miðfjarðar. Þessar ár eru sýslumörk Norður-Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu. Miðdalsvatn er stærst nokkurra vatna á heiðinni, sem er grösug og mýrlend. Arnarfjöll (528m) eru um hana miðja sunnanverða. Vesturbrún þeirra er Arnarhyrna. Þar er leitamannakofi. Austurkofi er á Sveindalseyrum norðan Kilafjalla (545m).

Myndasafn

Í grennd

Söguferð á eigin vegum
Á eigin vegum  Söguferð á eigin vegum um HRINGVEGINN á 7 dögum (eða þar um bil) Fyrstu árin eftir að hringvegurinn var opnaður (1974) kepptist fólk …
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )