Háteigskirkja er í Háteigsprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Háteigssöfnuður var stofnaður 1952 og kirkjan var vígð 19. desember 1965. Þar eru alloft haldnir tónleikar.
Háteigsprestakall var stofnað með lögum 17. júlí 1952, en árið 1963 breyttust sóknarmörk með stofnun Grensásprestakalls. Í upphafi var söfnuðurinn án kirkju, en messað var í Fossvogskapellu og í hátíðarsal Sjómannaskólans. Háteigskirkja var hönnuð af Halldóri H. Jónssyni arkitekt. Byggingameistari var Þórður Jasonarson. Þótt ýmsu væri ólokið var kirkjan vígð á aðventu 1965. Það var þáverandi biskup Íslands, hr. Sigurbjörn Einarsson sem vígði kirkjuna að viðstöddu fjölmenni.