Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hallgrímskirkja

Hallgrímskirkja

Hallgrímskirkja í Reykjavík er kennd við prestinn og skáldið Hallgrím Pétursson (1614-1674), sem  Hallgrímskirkja kunnur er fyrir. Hún stendur efst á Skólavörðuholtinu með 73 m háan turn, sem gerir hana að mest áberandi mannvirki borgarinnar og þar með eitt aðalkennileiti hennar. Útsýni er frábært úr turninum á góðum degi. Gjald er tekið fyrir notkun lyftunnar í turninum.

Ekkert annað mannvirki hefur verið lengur í byggingu hérlendis. Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, var fenginn til að gera teikningar af kirkju á Skólavörðuholtinu árið 1937. Hann keppti að því að sameina íslenzka náttúru og byggingarlist í kirkjunni. Árið 1948 var kapellan undir núverandi kór kirkjunnar vígð. Árið 1974 voru turn og kirkjuvængir með nýrri kapellu fullgerðir og árið 1986 var kirkjuskipið vígt á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar.

Söfnuðurinn bar 60% kostnaðar en 40% komu frá einstaklingum, fyrirtækjum og ríkisstofnunum. Í desember 1992 var orgel kirkjunnar vígt. Það smíðuðu orgelsmiðir þýzka fyrirtækisins Johannes Klais í Bonn. Það er með fjórföldu hljómborði og pedulum, 72 stillingum og 5275 pípum. Orgelið er 15 m hátt og vegur 25 tonn og þar með stærst sinnar tegundar á landinu. Fjármögnun orgelsins fer m.a. þannig fram, að fólki og fyrirtækjum er gefinn kostur á að kaupa einstakar pípur, sem merktar eru kaupendum. Lengstu pípurnar er u.þ.b. 10 m langar.

Sumarið 1992 var gefin út geisladiskur með myndum af Hallgrímskirkju, vígsluathöfn orgelsins og öðrum íslenzkum orgelverkum. Tekjur af sölu hans renna til orgelssjóðs. Minna orgelið með 10 stillingum var keypt frá Th. Frobenius & Sønner A.S. í Danmörku árið 1986. Samtímis orgelkaupunum var sætum kirkjunnar komið fyrir. Þau eru breytanleg, þannig að kirkjugestir geta snúið aftur eða fram í kirkjunni eftir athöfnum. Kirkjan tekur 1200 manns í sæti. Hurðir kirkjuskipsins eru blýskreyttar sem og predikunarstóllinn. Listamaðurinn Leifur Breiðfjörð annaðist það. Hvort tveggja var vígt á hvítasunnu 1993. Hinn hái, steindi gluggi yfir inngangi kirkjunnar bættist í safn verka eftir Leif árið 1999. Hann er kallaður „Dýrð-Vald-Virðing”.

Sjötugsafmæli Sigurbjörns Einarssonar (†2008), biskups, árið 1981 var tilefni til gjafa til kirkjunnar, sem gerðu kleift að ljúka þessu verkefni. Fyrirhugað er að setja steinda glugga í kirkjuna, a.m.k. í kórinn, en margir eru þeirrar skoðunar, að draga eigi sem minnst úr birtu í kirkjunni. Einar Jónsson, myndhöggvari, gaf kirkjunni Kristmyndina í kirkjunni árið 1948. Hún sýnir Krist meðtaka skírn heilags anda. Hann gerði líka styttuna til minningar um Hallgrím Pétursson. Sigurjón Ólafsson gerði höggmyndina Marturium.

Meðal margra guðsorðabóka í kirkjunni er afrit af Guðbrandsbiblíu, sem var prentuð að Hólum árið 1584. Þótt skipsmódel séu ekki algeng í íslenzkum kirkjum, er eitt slíkt í kirkjunni, kútter, sem er gjöf frá Færeyingum. Í norðurhluta kirkjunnar er kapella. Í anddyri kirkjunnar fara fram skiptisýningar ýmissa listamanna. Sóknarbörn kirkjunnar eru u.þ.b. 6000. Þeim þjóna tveir prestar, aðstoðarprestur og forsöngvari auk fjölda sjálfboðaliða, sem starfa með börnum og öldruðum. Tveir prestar Landsspítalans og prestur heyrnalausra eru tengdir kirkjunni. Tónleikar eru haldnir reglulega í kirkjunni.
Heimildir: Bæklingur kirkjunnar.

Myndasafn

Í grennd

Hallgrímskirkja í Saurbæ
Hallgrímskirkja í Saurbæ Kirkjan á Hvalfjarðarströnd er í Saurbæjarprestakalli í prófastsdæmi Borgarfjarðar. Kirkjan í Saurbæ, sem var vígð 1957, er…
Kirkjur á Suðvesturlandi
Það er erfitt að draga skörp landfræðileg skil milli kirkna, kirkjustaða og sögu kristninnar á milli landshluta. Á þessum vef fer skiptingin ekki efti…
Sögustaðir Höfuðborgarsvæðinu
Ýmsir staðir tengdir sögu svæðisins Akurey Alþingishúsið Bessastaðakirkja Bessastaðir – Álftanes …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )