Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hagakirkja

Hagakirkja er í Tálknafjarðarprestakalli í Barðastrandarprófastsdæmi. Í Haga á Barðaströnd var kirkja  heilögum Nikulási í katólskum sið. Þarna var útkirkja frá Brjánslæk á meðan þar var prestakall, en síðan var sóknin lögð til Sauðlauksdals. Núverandi kirkja var byggð 1897-1899 og vígð 12. nóvember 1899. Yfirsmiður var Magnús Magnússon frá Flatey.

Eigendur kirkjunnar voru Björn Sigurðsson, kaupmaður í Flatey, og fleiri. Þeir höfðu látið smíða kirkju í Haga 1892 en hún fauk snemma vetrar 1897 og önnur var reist strax í staðinn. Hagakirkja var bændakirkja til 1952, þegar söfnuðurinn tók við henni af eigendunum, Hákoni J. Kristóferssyni og Nielsi P. Sigurðssyni í Reykjavík.

Kirkjan er byggð úr timbri og allvel búin gripum, m.a. kaleik úr gulli og silfri, gömlu skírnarfati úr eiri með upphleyptum myndum, fjórum altarisstjökum úr kopar, róðukrossi á altari og altarisklæðum með ártalinu 1649. Predikunarstóllinn með myndum af guðspjallamönnunum er frá 1745. Anker Lund málaði myndina af kvöldmáltíðinni í Emmaus á altaristöflunni árið 1900.

Myndasafn

Í grennd

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )