Kirkjan er í Hafnarfjarðarprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var vígð 20. desember 1914. Áður Hafnfirðingar kirkjusókn að Görðum á Álftanesi. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi árið 1908 komst skriður á kirkjubyggingarmálið, þótt sú hugmynd hefði reyndar komið fram áður, t.d. um miðja 19. öld að byggð yrði kirkja í Firðinum.
Hafnfirðingar leituðu til Rögnvaldar Ólafssonar um teikningu að kirkju og skilaði hann teikningu í febrúar 1909. Samkvæmt henni var kirkjan úr steinsteypu og átti að taka 500 manns í sæti eða þriðjung íbúa kaupstaðarins. Var kirkjunni valinn staður í landi sem bæjarfógeti hafði til umsjónar við Strandgötu.
Framkvæmdir við kirkjugrunninn hófust haustið 1913 og lauk smíðinni á aðventu 1914. Yfirsmiður var Guðni Þorláksson, en hann andaðist úr lungnabólgu um það leyti sem smíði kirkjunnar lauk og var lík hans borið í kirkjuna á Þorláksmessu. Biskupinn, herra Þórhallur Bjarnason, vígði, kirkjuna 20. desember 1914.
Safnaðarheimilið var byggt eftir verðlaunateikningu, sem tók mið af kirkjunni og var skipt í nokkrar mismunandi byggingar. Næst kirkjunni er safnaðarheimilið með kapellu, skrifstofu og kennslustofum. Í hringlaga byggingunni eru þrír fundar- og samkomusalir og tónlistarskólinn er í þriðju einingunni. Engin þessara bygginga er hærri en kirkjuskipið. Lögð var áherzla á að nota innlent byggingarefni og tjörnin framan við húsalengjuna á að tákna hina gömlu strandlínu, sem var þar.