Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Grafarvogskirkja

Grafarvogskirkja Grafarvogsprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Samkeppni var var um   hönnun kirkjunnar og hlutskarpastir urðu arkitektarnir Finnur Björgvinsson og Hilmar Þór Björnsson. Heildarstærð kirkjunnar er um 2890 m² og aðalrýmið er á tveimur hæðum, 1000 m² hvor hæð. Reykjavíkurborg leigir 650 m² undir bókasafn í kjallara og á fyrstu hæð og Lionsklúbburinn Fjörgyn 100 m² sal á efstu hæð. Boðin voru út skuldabréf til að steypa upp kirkjuna, glerja hana og innrétta neðri hæðina að hluta fyrir safnaðarstarfið. Eftir nokkurra ára hlé á byggingarframkvæmdum endurfjármagnaði Búnaðarbankinn upprunalegu skuldabréfin og bætti við lánum til að ljúka mætti byggingunni. Kirkjan var vígð við hátíðlega athöfn 18. júní 2000 kl. 13:00.

Í samkeppni um hönnun kirkjunnar lögðu höfundar áherzlu áhugmynd um klassíska, þrískipta krikju, sem byggir á öllum helztu hefðum kirkjubygginga liðinna tíma.

Miðskipið er „Via Sacra”, hinn heilagi vegur, sem táknar vegferð mannsins frá vöggu til grafar og áfram til eilífðar. Við enda hans er hringurinn, sem er söfnuðurinn, opinn á móti eilífðinni, þar sem er altarið. Þarna eru sameinaðar tvær helztu stoðir kirkjubyggingarlistar, vegurinn og hringurinn. Líkt og í dómkirkjum miðalda tengjast miðskipinu ýmis rými og kapellur, sem þjóna tilefnum líðandi stundar.

Miðskipið er steinsteypt og klætt steinum. Steinarnir í veggjum miðskipsins eru skírskotun í ritninguna, þar sem segir: „látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús”. Þannig eru steinarnir tákn safnaðarins. Helztu táknmyndir kristninnar verða klappaðir í þessa steina (fiskur, kross, dúfa, heilagur andi, þríhyrningur, hringur, skip, alfa og omega, lamb o.fl.).

Stóri steindi glugginn fyrir enda miðskipsins er u.þ.b. 6 m breiður og 11 m hár. Veggir og gólf eru klædd   steinflísum af sömu gerð og utan á kirkjunni. Í loftinu eru hvítar málmplötur, sem stjórna ómtíma hljóðsins og ofan við þær er lýsing, sem er óregluleg og fer vaxandi þar til komið er að altarinu, þar sem hún er mest og hæst. Þessari útfærsla lýsingarinnar er ætlað að minna okkur á himininn. Ómtíminn lengist eftir því sem nær dregur altarinu. Forkirkjan og miðskipið er lífæð hússins, þar sem hátíðlegt yfirbragð eykst eftir því sem innar dregur.

Í kirkjunni var tekinn upp sá forni siður að koma skírnarfontinum fyrir á leið barnsins til samfélags kristinna manna á miðjum heilaga veginum. Þar er rúmt um hann og aðstandendur safnast þar saman við athöfnina. Að henni lokinni er haldið með barnið að altarinu, söfnuði kristinna manna.

Loftin í mið- og hliðarskipunum eru hvít, lit hins ósundurgreinda ljóss, hins fullkomna Guðs, hreinleika, engla, dýrlinga og hinna nýskírðu.

Grunnmynd kirkjunnar líkist fiski, sem er elzta tákn kristinna manna. Gríska orðið yfir fisk er ichþys. Þessir stafir eru skammstöfun fyrir orðin: Jesús Kristur, Guðs sonur, frelsar. Því var fiskurinn tekinn upp sem leynimerki ofsóttra kristinna manna í frumkristni.

Kirkjan er þrískipa. Skipið er tákn kirkjunnar. Hún er skip, sem siglir yfir heiminn. Drottinn er við stýrið, hinir kristnu eru áhöfnin og hreyfiaflið er heilagur andi. Skipið er á leið til hafnar í paradís til eilífs lífs og áttavitinn er Guðs orð. Helztu tölur kristninnar í trúarlegu táknmáli koma fram í kirkjunni. Miðskipið er eitt en sú tala er móðir allra talna, Guð er einn og talan er tákn upphafsins. Hliðarskipin eru tvö, lögmál og fagnaðarerindi gamla- og nýja testamentisins. Hin þrjú skip tákna heilaga þrenningu. Upprisa Jesú var á þriðja degi. Hliðarskipunum er skipt í fjóra hluta, höfuðáttir heimsins og guðspjallamennina fjóra. Heildartala þessara hluta er átta, sem er tákn endurfæðingarinnar og upprisunnar. Heimurinn var fullskapaður á sjö dögum og áttundi dagurinn er tákn nýrrar sköpunar. Átta hlutar hliðarskipanna og miðskipið eru níu. Níunda stundin var dauðastund Jesú: „Það er fullkomnað”. Níu er tala sannleikans. Súlurnar á austur og vesturhliðum eru tólf og tákna postulana og hlið Jerúsalem eru tólf.

Myndmál altarisgluggans . Verkið er tvískipt, annars vegar er myndræn uppbygging, þar sem tengsl þess við arkitektúr kirkjunnar skipta meginmáli ásamt samsetningu lita, lína og forma og hins vegar er myndefnið sjálft. Þessi tvö atriði héldust í hendur allt frá fyrsta degi. Verkið er samhverft í megindráttum og helzta einkenni þess er gríðarstór sigurbogi. Form hans gerir það að verkum, að kirkjan virðist talsvert hærri en hún er. Frumdrögin voru gerð 11. marz 1998, 6 sm á hæð og 3 sm breið. Þau voru samþykkt og hafa ekki breytzt í grunnatriðum. Síðan voru gerðar margar teikningar í hlutföllunum 1:10 og síðan 1:5 og svo voru gerðar vinnuteikningar í fullri stærð í litum.

Bogaformið, sem er áberandi í rómverskum basilíkum er nauðsynlegt í þessum glugga, ekki sízt þar sem kirkjan er að öðru leyti köntuð. Neðst í glugganum má sjá veggi Almannagjár og þar í forgrunni er fólk í glitklæðum. Gjáveggurinn er settur mosadyngjum hér og þar og myndar dökkan bakgrunn fyrir presta og aðra, sem standa við altarið. Þetta er gert til að forðast of skært bakljós. Fyrir ofan klettavegginn birtist Kristur í hásæti með fjórum kerúbum og engli með básúnu. Umhverfis Krist er mandöluform. Steindi glugginn er 70 sm innan ytra glers kirkjunnar og á pósta þess eru festir flúrlampar, sem lýsa verkið upp aftanfrá. Glugginn er einnig upplýstur innan frá, þannig að hann sjáist greinilega utanfrá. Glerið er ógagnsætt antíkgler, þannig að ekki sést í gluggapóstana og flúrperurnar fyrir aftan. Glugginn er eins og himneskur sigurbogi, sem leysist upp í lit himinsins, tákn sigursins á Þingvöllum árið 1000. Þessi forkunnarfagri, steindi gluggi var gjöf íslenzku ríkisstjórnarinnar til æsku landsins í tilefni kristnitökunnar.

Efni úr bæklingi Grafarvogskirkju.

Myndasafn

Í grennd

Kirkjur á Suðvesturlandi
Það er erfitt að draga skörp landfræðileg skil milli kirkna, kirkjustaða og sögu kristninnar á milli landshluta. Á þessum vef fer skiptingin ekki efti…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )