Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 9. dagur

Frá Höfn að Búðum í Hlöðuvík 10 km um Atlaskarð (327 m) og Skálarkamb (330 m)

Í dag er för okkar heitið til Hlöðuvíkur og er þá farið fyrst út með Hafnarnesi fyrir Kollinn til Rekavíkur. Á leiðinni þarf að fara þar um, sem gatan liggur um skarð í berggangi allstórum, sem skagar út í sjó. Heitir þar Tröllakambur, en skarðið Tröllaskarð.

Þarna var bjarndýri banað í júlímánuði árið 1917. Það bar þannig að, að tveir menn voru á ferð á báti og urðu varir við bjarndýr úti undir Hælavíkurbjargi. Þeir reru inn í Rekavík og fengu þar léða byssu og nokkur fuglaskot og slóst einn maður til viðbótar í för með þeim. Þegar þeir reru út aftur sáu þeir dýrið skríða upp á sker utan við Tröllakamb og leita inn eftir. Þeir flýttu sér sem mest þeir máttu og stóðst á endum, að þegar þeir tóku land innan við kambinn, þá stóð bangsi í skarðinu. Einn þeirra þremenninga, Kristinn Grímsson bóndi á Horni, fór til móts við dýrið og skaut tveimur skotum, en ekki féll það, heldur kleif í hellisskúta í klettagili ofan kambsins og lagðist þar. Sneri Kristinn aftur og reru félagarnir enn til Rekavíkur og útbjuggu þar drjúgmörg skot þannig: Þeir settu hvellhettur og púður í koparpatrónur, þéttu með bréfi, slógu síðan til blýkúlu, sem nær fyllti patrónuna og tróðu bréfi utan með og þéttu enn með bréfi. Með þetta að vopni fóru þeir aftur til baka, nú fjórir saman, alllangt inn fyrir Tröllakamb og klifruðu upp í hlíðina upp fyrir gilið, sem björninn var í. Seig Kristinn niður og fékk banað dyrinu, sem svo féll niður í Tröllaskarð. Var þeim ærið verk að koma því í bátinn, en hafðist þó.

Utan Tröllakambs liggur leiðin svo um skriður og upp á klettabrún, þar sem kallað er Barð. Liggur gatan þar sums staðar býsna tæpt og gæti lofthræddum liðið illa, en til þess er þó ekki ástæða, því gatan er örugg og skríður ekki undan fæti.

Þá erum við komin í Rekavík bak Höfn, en hún er svo nefnd til aðgreiningar frá nöfnu sinni vestar, sem kölluð er Rekavík bak Látur. Rekavík er lítil og háir bakkar við fjöru og sér enn rústir bæjarins, sem stóð þar tæpt á bökkunum. Utan við Rekavík er Hvannadalur og liggur þangað leið um einstigi utan í Rekavíkurfjalli. Einstigi þetta er merkt beggja vegna með lóðabelgjum og hafi menn löngun til þess að skoða fuglalífið í Fjöl og Langakambi, þá skulu þeir ekki láta einstigið aftra sér. Það er ekki verra umferðar en gatan fyrir Kollinn.

Til Hælavíkur er gengið fram Rekavík um atlíðandi mýrlendar brekkur unz kemur fremst í dalinn, þá er gengið upp sneiðinga, sem sjást skýrt mótaðir í urðina, í Atlaskarð. Í skarðinu er Atladys, sem sagt er að í sé dysjaður sakamaður og var það hvers manns skylda er um skarðið fór að kasta þremur steinum í dysina. Gera margir þetta enn í dag og segja að þá muni vel farnast. Eitt sinn var maður þarna á ferð ásamt fleirum og var hann lítillega við skál. Vildi hann þá endilega særa Atla úr dys sinni og vita hver karlmaður hann hafi verið. Varð hann þó að snúa frá án nokkurrar vitneskju þar um.

Úr Atlaskarði liggur sniðgata niður á jökulrudd holt, þar sem heitir Hraunbrekka og skilja þar leiðir. Liggur önnur til Hælavíkur, en hin áfram fyrir víkurbotninn, vörðuð vel út og upp á fjallið þar til kemur á Skálarkamb.

Fögur útsýn er af Skálarkambi til vesturs yfir Hlöðuvík, Kjaransvík og allt út á Haugahlíð. Álfsfell heitir formfagurt fjall milli Hlöðuvíkur og Kjaransvíkur; þar handar er Kjalarárnúpur þverhníptur í sjó. Utan við Haugahlíð er Kögur, en hann sjáum við ekki. En hann kemur í hugann þegar horft er í norður og við blasa Hælavík og Núpurinn, endi bjargsins. Jón Helgason kvað í Áföngum:

„Kögur og Horn og Heljarvík
huga minn seiða löngum;
tætist hið salta sjávarbrim
sundur á grýttum töngum;..“

Við förum ekki niður í Hælavík núna, en setjumst á brekkubrún á Skálarkambi og virðum hana fyrir okkur. Bæjarrústir sjást rétt ofan við fjörukambinn og Mávatjörn ekki þar fjarri. Þaðan er auðveld leið á Hælavíkurbjarg um Núpsdal. Upp af Hælavík, þar sem hún gengur til móts við Hvannadal, er Hvannadalsvatn. Það var sagt vera tvíbytna, en svo eru kölluð vötn, sem í á að gæta flóðs og fjöru, þótt engin tengsl séu sjáanleg við sjó. Í dalhvolfunum inn af Hælavík búa álfar og munu þeir hafa reynt að seiða til sín fólk einkum börn.
Í Hælavík bjó á 19. öld maður að nafni Snorri Brynjólfsson. Frá honum segir nokkuð í Hornstrendingabók og einnig af sonum hans, en um sögu þeirra hefur Þórleifi Bjarnasyni verið vel kunnugt, því hann ólst þar upp til 12 ára aldurs hjá afa sínum, Guðna Kjartanssyni. Honum tileinkaði Þórleifur bókina og þakkar fyrir sögurnar, sem hann sagði. Um uppvöxt sinn í Hælavík og Hlöðuvík skrifaði Þórleifur bókina Hjá afa og ömmu.

Um Skálarkamb liggur leið, sem er illfær á vetrum sökum harðfennis, en að sumarlagi er þar hverjum manni fært þótt ærið sé bratt að fara niður í Skálina. Við fikrum okkur varlega niður götuna; fyrst skásneiðir hún klettabelti efst í Skálinni, en neðar er gróið og brátt erum við komin í botn Skálarinnar. Þaðan er eftir um 100 m hár hjalli niður að Búðum í Hlöðuvík. Þar er kölluð Skálarbrekka og liggur gata í sneiðingum niður hana. Í Skálinni er lítil tjörn og rennur úr henni lækur í fossaföllum niður brekkuna og er nefndur Skálarlækur. Þar sem gatan liggur yfir lækinn í brekkunni, er foss fyrir ofan hana og fellur hann fram af dökkleiturn kletti, sem er síúrgur af skvettum lækjarins og vatnsaga ûr bökkunum. Í þessum kletti býr tröllkona, sem að vísu hefur ekki oft sýnt sig, en komið gæti sá dagur að hún gerði það. Nokkru ofar í brekkubrún, er hár klettur, sem ber svip af bæjarþili og auðvitað búa þar álfar. Það eru góðálfar, sem búa þarna í nálægð við tröllið og frá þeim er góðs eins að vænta. Á Búðum er nú tvennt húsa; skýli SVFÍ og sumarbústaður afkomenda Guðlaugs Hallvarðssonar, sem hér bjó einna síðastur, reistur á gamla bæjarstæðinu.

Sögur ganga af reimleikum , sem nú séu í og við skýli SVFÍ í Hlöðuvík ogsegjast margir hafa átt þar erilsama nótt við að leita að þeim óþokka, sem gangi um og lemji olíutunnu eða eitthvað þess háttar meðan aðrir vilja sofa. Enginn mun hafa fundizt sökudólgurinn, en sumir hafa þó þótzt finna skýringu á fyrirbærinu, sem þeir hafa sætt sig við og sofnazt vel eftir það.

Jakob Tómasson, sá er áður er getið á Nesi í Grunnavík, bjó um nokkur ár á Búðum í Hlöðuvík. Jakob dáði mjög hetjur Íslendingasagna og hafði þær um margt til fyrirmyndar. Ekki þótti hann gestrisinn fyrst eftir að hann fluttist að Búðum. Er menn komu þangað og leituðu gistingar átti hann það gjarna til að frýja þeim kjarks og karlmennsku til að halda áfram. Þótti mönnum þetta bera vott um ógestrisni og nízku, en því var fjarri. Hann stóðst bara ekki mátið að reyna karlmennsku manna. Son átti Jakob er Bjarni hét og er hans einnig getið í Hornstrendingabók, mest fyrir fræknleik í íþróttum.
Við skulum virða fyrir okkur fjallasýn inn í víkina. Er þá fyrst að greina Þórishorn, sem rís innan við Skálina. Þar var gjarna farið um á vetrum, ef Kamburinn var ófær. Inn af heita Jökladalir og Jökladalshorn. Ókleif klettaþil skilja að Hlöðuvík og Veiðileysufjörð í Jökulfjörðum utan á einum stað, þar sem er skar alldjúpt í fjallgarðinn, Hlöðuvíkurskarð. Ekki er það gott yfirferðar, en flestum þó fært yfir til Steinólfsstaða. Handan skarðsins gengur klettaþilið áfram, með dalverpum, allt til Álfsfells, sem fyrr er nefnt.

Í Álfsfelli var trú manna að byggju álfar, svo sem nafn þess bendir til. Voru þessir álfar mjög hjálplegir mönnum, sérstakleg kona sú er Ásdís hét. Oft bjargaði hún fólki um mat og sagði fyrir um afla. Sagt er að hún hafi einnig tekið til fósturs tvö börn úr mannheimum.

Myndasafn

Í grennd

Göngubók Snorra Grímssonar Inngangur
HORNSTRANDIR - JÖKULFIRÐIR GÖNGULEIÐIR UM HORNSTRANDIR OG JÖKULFIRÐI Kuldaleg nöfn setja gjarnan hroll að manni. Hefur líka löngum legið það orð á…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )