Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR, 8. dagur

Frá Bjarnanesi að Höfn í Hornvík 12 km um Axarfjall (220 m) og Almenningaskarð (300 m)

En þar sem hvorki galdrar né skrímsli raska ró okkar í náttstaðnum, þá höldum við af stað að morgni áleiðis til Hafnar í Hornvík. Frá Bjarnanesi göngum við yfir eilítinn hrygg og komum að Hrolleifsvík. Þar hafði Frímann Haraldsson, sem var vitavörður á Hornbjargsvita árin 1936-41, beitarhús og vitjaði hvern dag hvernig sem viðraði. Ekki væri það á hvers manns færi, því Axarfjall er bratt beggja vegna og þverhnípt í sjó. Leið okkar liggur yfir Hrolleifsvíkurá og síðan á brattann upp á Axarfjall, sem er að mestu gróið utan efstu hjallar. Af Axarfjalli sjáum við Hornbjarg og Látravík og skörð þau, sem fara má um til Hornvíkur. Næst okkur er Kýrskarð, ekki mjög fjarri okkur, um 340 m hátt, tiltölulega þægilegt skarð að fara og kemur þá niður í Kýrdal. Því næst sjáum við Hestsskarð upp af fjallinu Hesti, 380 m hátt og öllu torfærara og sjaldfarnara en Kýrskarð. Fjærst, á brún Hornbjargs, sér á Almenningaskarð, sem er alfaraleiðin og sú, sem við ætlum að fara.

Niður með Axarbjargi liggur leiðin í sneiðingum um snarbratta brekkuna og það er farið að taka í hné og kálfa þegar við komum að Hornbjargsvita, sem stendur á 30 m hárri bjargbrún í Látravík.

Þarna var ekki búið fyrr en Jóhann Halldórsson settist þar að um 1890. Jóhann var afburða skotmaður og var sagt að hann hæfði það hann vildi. Ekki lá Jóhann skytta, eins og hann var gjarna kallaður, fyrir tófu, heldur gaggaði hana til sín. Alls taldi hann sig hafa drepið um 700 dýr. Einhvern tíma reit hann Alþingi bréf og beiddist árlegs ellistyrks af landsfé, 100 króna á ári, eða 3-400 króna í eitt skipti fyrir öll. Þessu var hafnað og það sagt standa nær þeim sýslufélögum, sem hann hefði unnið fyrir, að greiða slíkt. Bréfi Jóhanns fylgdu ýmis rök og var m.a. tilgreint að áð 11. ári hefði hann skotið tvo refi, en það mundi hann á eftirfarandi vísum:

„Ellefu nær ára var
eg hjá rnóðurbarmi
tvær jeg deyddi tóur þar
í tóptar-skothús garmi

Hljóp jeg opt að geddugeim,
gjörði slíkt að vana
sama árið selum tveim
sjálfur varð að bana.“

Viti var reistur í Látravík um 1930 og er því raunar alls ekki á Hornbjargi, en nafngiftin er að líkindum komin frá því er menn höfðu í huga að reisa vita á Hornbjargi sjálfu, en hurfu frá því og settu hann þarna.

Það er erfið lending við Hornbjargsvita í þröngum klettabási, en gaman er að sjá hversu vel Frímann vitavörður útbjó básinn með stiga miklum og rennibraut, sem koma má bæði bát og vistum upp í. Frímann heitinn var listasmiður eins og bæði þetta verk hans, sem og bátar þeir er hann smíðaði vitna bezt um. Hornbjargsviti er eina byggða ból á nyrzta hluta Vestfjarðakjálkans, allt frá Ingólfsfirði að Unaðsdal, og það er dálátið einkennileg tilfinning, sem fylgir því er maður kemur þangað. Þarna er hús, sem er heimili en ekki sumarbústaður eins og þau hús önnur, sem við höfum komið að.

Á Hornbjargsvita er gestkvæmt oft á sumrum og er höfðinglega tekið á móti gestunum. Jóhann vitavörður Pétursson sem þar hefur verið í 24 ár, er gestrisinn mjög og veitir ávallt er einhverja ber að garði. Þykir reyndar mörgum nóg um og segja að þegar tekið sé að skipta hundruðum, sé það óbærilegur kross einu heimili að taka þannig öllum gestum. En óviðkunnanlegt væri samt að ganga hjá garði án þess svo mikið að heilsa húsráðendum. Jóhann þykir sérstæður maður og finnst mörgum eitthvað hljóta að vera bogið við það hve lengi hann unir vistinni. Hann hefur gefið þá skýringu sjálfur, að hann fari ekki fyrr en hann finni skó samstæðan öðrum er hann fann rekinn á fjöru á fyrsta vetri sínum á vitanum. Það er gaman að ræða við Jóhann; hann er víðlesinn og hefur enda til þess gott næði og mikið bókasafn, sem í eru margar perlur. Hann hefur ákveðnar skoðanir á mörgum málum og heldur sínu fast fram. Undanfarin ár hefur Jóhann lítt verið sjálfur við vörzlu vitans á sumrum, heldur afleysingafólk. Í þess hópi er m.a. systir hans, sem fýsti að sjá hvað héldi honum þarna svo lengi. Einar Bragi skáld er annar og hefur hann ritað um dvöl sína þar auk þess sem sjá má ýmis verk hans í vitavarðarhúsinu.

Draugasögur og slíkt segir Jóhann hindurvitni ein og fussar við öllu af því tagi. En annar vitavörður var þar um tíma áður, sem sá verur í hverju holti og kletti. Það var Óskar Aðalsteinn, sem síðar var lengi á Galtarvita, en hann sér reyndar meira en flestir aðrir.
Frá vitanum liggur leið okkar hjá Blakkabás, þar sem Drífandi fellur drifhvítur frarn af klettunum beint í sjóinn. Þarna er líka Dugghola, eins konar hringlaga hola, þar sem brúnin er hæst til lands en lækkar utar og þar hefur sjórinn rofið vegginn, sem snýr til hafs. Inn í Duggholu berst oft reki og á síðustu árum búskapar á Horni voru það óskráð lög, að þann reka ætti einn húsmanna þar, Samúel Guðmundsson. Úti undir bjargi, allnokkru utar, eru Fjalir, um 60 m háir blágrýtisgangar, frálausir bjarginu, tilkomumikil tröll, hvít af driti og græn af skarfakáli. Áfram skal haldið á brattann og niður undan fjallinu Hesti, sem fyrr er á minnzt, sjást tóttir. Þarna bjó um nokkur ár Elías Einarsson, stjúpsonur Stígs á Horni. Bát sinn setti Elías í svonefndu Trogi, sem er þar beint niður af.

Gatan þræðir bjargbrúnina, sums staðar tæpt, en ekki þó svo að hættulegt sé. Samt skyldu menn gæta sín á leiðinni upp hjallana. Okkur á vinstri hönd rís allhátt fjall, Dögunarfell, en sem hærra regur upp brúnina koma ýmsir tindar og skörð Hornbjargs í ljós. Loks komum við þar að, sem tveir staurar standa sem leifar af hliði, göngum þar í gegn og erum þá komin úr Grunnavíkurhreppi í Sléttuhrepp. Framundan er Almenningaskarð.

Á hægri hönd teygja sig Eilífstindur og Skófnaberg til himins og milli þeirra skerst Harðviðrisgjá og er auðvelt að komast að henni eftir götuslóða, sem liggur úr skarðinu utan í Skófnabergi. Gjáin er djúp og mikil og hefur mikið verið sótt í hana á síðustu árum, er menn hafa ekki haft nægt lið til siga. Á brún er þögult vitni um það, hvernig menn hafa farið að: handvaður, sem settur er um stóran jarðfastan stein. Á honum handstyrkja menn sig niður gjána, en hlaupa síðan lausir út í þræðinga í bjarginu og safna þar eggjum. En þess vil ég lengstra orða biðja, að rnenn fari ekki þar niður né annars staðar þar sem slíkir vaðir eru; það er aðeins fyrir alvana bjargmenn.

Lengra frá sjáum við risann sjálfan, Kálfatinda, bústað trölla og forynja og heiðnaberg Hornbjargs, 534 m háan og frá honum teygist fjallsrani að Hornvík. Heitir hann Múli og markar Innstadal að utan. Af Múla er gengt á Kálfatinda, en ekki er það fyrir lofthrædda. Þó mun það, að nær allir þátttakendur í ferðum ferðafélaganna á þessar slóðir hafi farið á tindana. Þaðan er mikið útsýni ef vel viðrar og ferðin upp því vel þess virði, en hrikaleg er sýnin niður.

Niður Innstadal liggur gatan fyrst í sneiðingum um allbratta brekku, en síðan um móaholt og mýrar neðan undir Múlanum út að bænum á Horni, sem stendur á sjávarbakka niður af Miðdal. Fyrir ofan bæ er allhár og brattur klettahjalli og yfir hann sér á Kálfatinda og Jörund, klettadrang við hlið þeirra. Utar er Yztidalur og þangað er gata frá Horni á snið upp á dalinn allt út á yzta núp bjargsins. Milli Yztadals og Miðdals er Miðfell og er gengt yfir það eftir skýrum troðningi, en bratt er það. Sé sú leið farin frá Yztadal er komið niður í Miðdal við svonefnt Svaðaskarð og gefst mönnum betra færi þar en víðast annars staðar til að skoða fuglalífið án þess að tildra sér á fremstu brún. Frá Svaðaskarði er síðan haldið á inn með brúninni og þá gnæfir Jörundur brátt yfir á vinstri hönd. Við hlið hans rísa Kálfatindar og neðan þeirra landmegin er brött hlíð, grasi gróin. Heitir hún Stóðahlíð og vatn þar neðan undir er kallað Stóðahlíðarvatn. Þar sem hlíðin sveigist út til Múlans er klettahjalli nokkuð miðhlíðis og má fara eftir honum út á Múla og þaðan upp á Kálfatinda. Kannski Kálfatindar hafi verið Jónasi Hallgrímssyni í hug er hann orti:

„Yzt á Hornströndum heitir
Hornbjarg og Kópatjörn.
Þeir vita það fyrir vestan
þar verpir hvítur örn.“

Til að skoða bjargið veitir ekki af deginum og er það þó yfirborðsleg skoðun, því margt er að sjá. Við komum heim að Horni og skoðum þar. Á Horni eru nú tvö bæjarhúsa uppistandandi, Stígshús og Frímannshús. Standa þau á gömlum marbakka frá lokum síðasta jökulskeiðs.
Héðan frá Horni sést Hælavíkurbjarg vel. Þar heitir á einum stað Heljarurð. Um hana er sú saga, að menn höfðu verið í bjargi og hent fugli niður í fjöru og komu þá þar að útlendir duggarar, sem vildu stela fuglinum þegar hinir voru farnir heim um kvöldið. Þetta sá Hallur á Horni og segir sagan að hann hafi „beðið bænirnar sínar gömlu“ og hrundi þá úr bjarginu yfir þjófana. Reyndu duggarar ekki til slíks meir.

Þeir feðgar á Horni, Hallur Erlendsson og Hallvarður hafa orðið þjóðsagnapersónur og skráði Gísli Konráðsson margar sagnir af þeim. En einn var bóndi enn á Horni, sem sögur fara nokkrar af, þótt ekki hafi hann haft á sér galdraorð. Það var Stígur Stígsson. Sögurnar um hann hafa spunnist út frá því hversu mjög hann kom upp búi á Horni og að hann var völundarsmiður á tré og járn svo göldrum þótti líkast.

Við kveðj um Hornbæina og höldum inn með fjjörunni. Af Innstadal rennur Hornsá og spölkorn fyrir innan hana er Skipaklettur*. Þar þarf að sæta sjávarföllum til að kornast fyrir og má vanta þriðjung á flóð svo fært sé. Lengra inn rneð eru klettabelti neðst í hlíðinni og er svo nokkuð inn fyrir víkurbotn, en þar er sendið nes, gróið melgresi og heitir það Grænanes. Á Grænanesi eru sérkennilegir klettastandar neðan undir hömrunum og nefnist hlíðin Standahlíð eftir þeim. Einn standanna heitir Steinþórsstandur og er kenndur við Dýra-Steinþór, frægan bjarnabana, sem sagður var hafa drepið 19 bjarndýr og auk þess skessu eina í Lónafirði. Ofan við Grænanes fellur fallegur foss fram af klettunum og heitir sá, eins og reyndar sumir fleiri fossar, sem við höfum séð, Drífandi.

Á fjöru er bezt að vaða Hafnarós við sjó. Af Grænanesi er merkt með staurum reknum niður í sandinn, þar sem kallast Standavað. En sé flóð er betra að fara inn með hlíðinni að svonefndu Kýrvaði rétt neðan við þar, sem Kýrá fellur i Hafnarós. Þarna mætast leiðir þeirra, sem fara þá leið, sem nú hefur verið lýst, og hinna, sem fara um Kýrskarð. Þeirra leið liggur niður úr skarðinu um bratta hjalla niður í Kýrdal og síðan með ánni niður að vaðinu, sem ávallt er vel fært þótt flóð sé og tekur á að gizka í mið læri. Stundum gætir þar dálítillar sandbleytu, en ekki svo að þurfi að óttast. Hinum megin óssins taka við Háumelar eða Hafnarsandur, sem um sólbjartan heitan dag gefur þá hugmynd að maður sé í Sahara. Fyrir þreyttan ferðalang eru sandöldurnar endalausar að því er virðist, en allt í einu komum við í vin: Höfn í Hornvík.

Hafnarbærinn stendur austan undir Hafnarfjalli, nokkuð frá sjó. Nú er þar skýli SVFÍ. En úti undir sjó er klettur einn nefndur Hamarinn* og þar hefur verið tjaldað undanfarin ár eftir að tjaldstæði á Grænanesi var lagt af sökum þess, hve illa veikur gróðurinn þoldi álagið. Hér er svörðurinn sterkari, en í vætutíð getur verið erfitt að finna þurran blett til að tjalda á. Og trauðla er gróðurinn nógu sterkur til að þola mikið álag til lengdar. Því er áætlað að færa tjaldstæðið eilítið ofar, að fjárhústóttum miðja vegu milli skýlisins og klettsins.
Ekki ýkja langt frá Hamrinum voru naust Hafnarbænda og enn má sjá grunninn að verzlunarhúsi Betúels Betúelssonar þar upp af á sjávarbakkanum. En gólffjalirnar eru orðnar fúnar og mosavaxnar þar, sem Þórleifur Bjarnason keypti tommustokkinn forðum daga.
Nú, þegar við erum komin í náttstað, er rétt að staldra aðeins við áður en lagzt er til svefns og virða umhverfið nánar fyrir sér, því á morgun er förinni heitið áfram og þá gefst lítill tími til að skoða Höfnina nánar. En Höfn heitir undirlendið inn af Hornvík. Við höfum þegar vaðið Hafnarós og gengið Háumela þvera, en framan við sandinn er vítt graslendi, sums staðar blautt, en annars staðar þurrara og þá gjarnan blómum skrýtt, einkanlega við hlíðarrætur og í brekkurn. Um þessar brekkur falla nokkrar ár með fossa í gljúfrum og sameinast svo í Hafnarósi, sem er mismikill eftir sjávarstöðu, en á flóði sem stöðuvatn að sjá. Kýrá höfum við þegar kynnst, en hinar heita Gljúfurá, Selá, Torfdalsá og Víðirsá. Þar, sem Víðirsá fellur fram af hjalla nokkuð innan við Hafnarbæinn heitir Víðirshlíð. Skáhallt upp hana, þó áður en kemur að ánni, er varðaður vegur upp í Hafnarskarð (519 m) og til Veiðileysufjarðar. Ekki sést upp í Hafnarskarð héðan, en önnur tvö skörð sjást. Því sem næst í hásuðri er Rangalaskarð (587 m), sem fært er um til Lónafjarðar og Breiðaskarð er litlu austar. Neðan undir Breiðaskarði eru Skarðavötn, en úr þeim fellur Gljúfurá. Við þau og í fjallhvilftunum situr snjór lengi sumars og sér Hafnarósi fyrir vatni.

Það er eins hér sem í öðrum náttstöðum okkar, að það er betra að vita með hverjum maður sefur. Í Hamrinum eru álfar, sem jafnan munu hafa reynzt mönnum vel og gæta skyldum við þess, að styggja þá ekki. En öllu viðsjárverðari nágranni er Hafnar-Skotta. Skotta var draugur, sem sagt var að Dýrfirðingar hefðu sent Barna-Snorra bónda í Höfn. Drap hún hann úti á túni, en fylgdi síðan niðjum hans í marga ættliði. Sagt er að hún hafi sézt fram undir síðustu aldamót, en síðan fara ekki sögur af henni. En ef menn verða varir við litla stelpu í stuttu pilsi og með mikið hrokkið hár, sem ekki á að vera í þeirra hópi, þá . . .

 

Myndasafn

Í grennd

Göngubók Snorra Grímssonar Inngangur
HORNSTRANDIR - JÖKULFIRÐIR GÖNGULEIÐIR UM HORNSTRANDIR OG JÖKULFIRÐI Kuldaleg nöfn setja gjarnan hroll að manni. Hefur líka löngum legið það orð á…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )