Frá Atlastöðum að Látrum í Aðalvík 9 km um Kjöl (430 m)
Frá Atlastöðum förum við um fjöru, því þá er hægt að vaða ósinn á svonefndu Bæjarvaði. Við komum þar á hinn bakkann sem Tunguá fellur í ósinn og göngum upp með henni að bæjarrústunum í Tungu. Neðst í brekkunni skammt utan til við Tungu má sjá sérkennilega jarðmyndun, þar sem mýrarauði úr hallamýri hefur runnið út í sjávarsandinn fyrir neðan Fljótsvatn og límt hann saman í harðan járnsandstein.
Gönguleiðin frá Tungu yfir til Látra liggur frá bænum upp með ánni að utanverðu, sneiðir síðan upp brattan hjalla. Þar ofan við minnkar brekkan dálítið og liggur leiðin þá skáhallt um melhjalla í átt að Kóngum, en svo heitir fjallið utan við Tungudal. Þá er haldið upp með Nónfelli um svonefndan Ranghala, þar sem gatan sneiðir urðina upp á fellið og síðan af því og upp á Tungukjöl í um 500 m hæð. Þar uppi er ekki lengur skýr gata, en þéttar vörður, sumar hverjar lágreistar, vísa veginn niður í Aðalvík. Nú blasir við okkur Aðalvíkin eins og stöðuvatn, því hún opnast okkur ekki til hafs að sjá héðan. Við sjáum Sæból hinum megin víkur, en að Látrum sést ekki. Byggðin þar kúrir úti undir fjalli í hvarfi.
Niður í Aðalvík eru fyrst gengnar smábrekkur en síðan er breiður hjalli, Fljótshjalli. Á honum eru tjarnir og milli þeirra vörðuð leið. Ein tjarnanna er nokkru stærri en hinar og nefnist Drekavatn, því í hólma einum þar á að hafa búið dreki. Af hjallanum er vörðuð gata, sem þó er oftast undir snjó, og þaðan áfram niður hjallana unz kemur fram á horn upp af hálsinum milli Reykjavíkur og Aðalvíkur. Niður af horninu skyldu menn fara Aðalvíkurmegin og er svo komið niður á Hálsa.
Héðan sést út yfir Rekavík bak Látur og út á Skorar, þar sem ameríski herinn byggði eftirlitsstöð á 6. áratugnum. Rekavíkurvatn er allstórt og tekur mest allt undirlendi víkurinnar, en hefur ekkert sjáanlegt affall, heldur sitrar gegn um grófan Grjótkambinn. Rekavíkurbær stóð úti undir fjalli vestanvert í víkinni við enda kambsins þeim megin. Þarna gerðist saga sú, er Þórleifur Bjarnason notar sem uppistöðu í bók sinni, „Sú grunna lukka“. Um miðja 18. öld bjó í Rekavík Kolbeinn Jónsson og voru í heimili auk hans, kona hans og sex börn þeirra. Hét eitt Bjarni og mun hann hafa verið þeirra elztur. Vor eitt kom til þeirra strokufólk úr Arnarfirði, Sveinn Jónsson og kona með honum er Sigríður hét. Var þeim leynt í Rekavík og þótt sveitungar hefðu grun um vist þeirra þar þá vissi enginn. Og raunar kom það út á eitt, því engum hefði komið í hug að geta neins þar um við yfirvöld, sem kynnu að sækjast eftir þeim. Tveimur árum síðar komst það í hámæli að Sveinn hefði komizt í hollenzka duggu. En hvar var fylgikona hans? Margt var rætt, en ekki gert fyrr en eftir fjórtán ár að nýr prestur kom því til vegar að rannsókn hófst og að baki gerðum hans var kannski ekki helzt sannleiksást og réttlætis heldur það, að hann var að reyna að vinna til þess, að losna úr brauði, sem hann vildi ekki sitja. Eftir nokkurt þóf þótti ljóst að Bjarni Kolbeinsson hefði banað Sigríði. Gekk síðan á ýmsu í rannsókninni og meðferð fanga, sem og dómsuppkvaðningu, en þar kom loks að Bjarni hlaut dóm: tveggja ára betrunarhússvist. Nítján árum eftir drápið fór hann í fangelsi í Reykjavík.
Út og upp af Rekavíkurbæ er klettahjalli og ofan hans gengur dalur inn í fjallið og heitir sá Öldudalur. Þar um lá leið Guðmundar bónda Pálmasonar, sem lengi var vitavörður við Straumnessvita, er hann fór upp á Straumnessfjall og síðan niður Straumnessdal að vitanum. Viti þessi var reistur árið 1921. Það ýtti mjög undir byggingu vitans, að þarna hafði fáum árum fyrr orðið eitthvert frægasta strand, sem orðið hefur við Ísland, Goðafossstrandið. Má enn sjá leifar skipsins í fjörunni skammt frá vitanum.
Um Öldudal ætlaði líka ameríski herinn að leggja veg upp á fjallið, en hætti við er búið var að ryðja slóð út undir Grasdal. Þess í stað var vegurinn lagður upp Hóf og upp á Látrafjall og þaðan eftir Straumnessfjalli endilöngu að Skorum, þar sem megin byggingar stöðvarinnar voru. Töluvert er runnið úr veginum í hlíðinni og skriður á honum þar, en uppi á fjallinu er hann góður enn og eins, þar sem hann liggur frá Hálsum undir hlíðinni að Látrum. Það er sérkennilegt við þennan veg hve lítt hann er gróinn, en skýringa mun að leita í því að vegurinn var ekki gerður af lendingum, sem láta sér nægja að ryðja upp hrygg, sem síðan er gerður bílfær með því að slétta að ofan. Allt efni í þenna veg var unnið úr grjóti, sem var malað og því laust við lífræn efni. Nú, nær þrjátíu árum síðar, er gróður að mestu bundinn við hjólför, sem vindur hefur borið jarðveg í, og helzt er það melgrasskúfurinn harði, sem tórir þar.
Á Látrum var allnokkurt þorp og um 1920 bjuggu þar yfir 100 manns. Var þetta stærsta byggð í Sléttuhreppi og reyndar Ísafjarðarsýslu norðan Djúps. Þar var byggður skóli skömmu fyrir aldamótin, að mestu í sjálfboðavinnu og úr gefnu timbri. Hús það er nú horfið og sér aðeins af því grunninn. Látur urðu löggiltur verzlunarstaður árið 1905 og var þar allmikil útgerð mótorbáta og komu þar ýmsir við sögu. Þeirra kunnastur nú mun sennilega vera Gunnar Friðriksson, sem lengi var forseti Slysavarnafélags Íslands. Fátt eitt sést leifa frá þeirri sögu og er þar helzt að nefna það, sem eftir er af bryggjunni, sem Bandaríkjamenn bættu við grjótgarði er þeir komu hingað fáum árum eftir að byggðin lagðist af.
Enn eru á Látrum nokkur gömlu íbúðarhúsanna, en síðar hafa verið reistir nokkrir sumarbústaðir. Húsin standa að mestu í tveim röðum út með hlíð Látrafjalls, önnur fremst á háum sjávarbakka, en hin ofar undir hlíðinni. Hvert þeirra hefur sitt nafn, s.s. Yztibær, Jaðar, Nes o.fl. Við stöldrum við á sjávarbakkanum, þar sem hann er hæstur og setjumst á brúnina ofan brattrar brekku, sem er gróin vel og skrýdd blágresi og sóleyjum. Neðan hennar er vegur frá sjávarhúsum Látrabænda við bryggjuna inn að Naustabala, þar sem skýli SVFÍ stendur, og áfram þá leið, sem við komum hingað með fjallinu. Við okkur blasir Aðalvíkin allt að Rit, en að baki eru menjar frá dvöl bandarísku hermannanna undirstöður húsa, veggeiningar í þau, brunnar o.fl. Máski það sé ekki fallegt, en sögulegar minjar engu síður en annað það, sem hér er mannvirkja.
Hinum megin við víkina sjáum við Sæból. Þangað er ferðinni heitið a morgun; fyrir Núp, sem kallað er. Núpurinn heitir reyndar Hvarfnúpur og er áberandi stórt og mikið fjall við hinn enda gulu skeljasandsfjörunnar, sem er fyrir botni víkurinnar. Í Aðalvík skemmdust oft engjar af völdum roksands úr fjörunni og Hvarfnúpur gránaði í hlíðum.