Frá Búðum að Atlastöðum í Fljóti 16 km um Almenningaskarð (370 m) og Þorleifsskarð (398 m)
Leiðin frá Búðum til Kjaransvíkur liggur eftir sjávarbökkum þar til um miðja vík að þeir lækka og við göngum rétt ofan fjörunnar. Nokkru síðar komum við að Hlöðuvíkurósi, ekki miklu vatnsfalli hversdags og má gjarna leggja rekadrumb yfir til að komast þurrum fótum. Annars er bezt að vaða skammt ofan fjörunnar, þar sem ósinn er breiðastur. Nálægt því miðja vegu milli óssins og róta Álfsfells, sem nú gnapir yfir okkur, eru rústir Hlöðuvíkurbæjar, sem fór í eyði um líkt leyti og byggt var á Búðum upp úr 1870. Í Hlöðuvík var eitt sinn bóndi að nafni Indriði. Er fara átti með hann til greftrunar að Stað í Aðalvík var kista hans furðu þung og skammt voru líkmenn komnir er þeir heyrðu kveðið í kistunni:
„Anzaði karlsins andað lík
svo allar heyrðu þjóðir:
Heim á pall í Hlöðuvík
haldið þið, piltar góðir.“
Brá þeim nokkuð, en héldu samt á og sífellt þyngdist kistan þar til kom að á einni skammt ofan Staðar. Þá léttist hún allt í einu og var tóm er að Stað kom. Þegar líkmenn komu aftur heim í Hlöðuvík var líkið komið þangað og gekk þetta svo til nokkrum sinnum að ekki tókst að koma Indriða í gröfina. Gerðist hann hin versta afturganga, reið húsum og varð illa vært í Hlöðuvík. Sagt var að draugurinn legði undir sig bæinn cg elti ferðamenn og ærði suma. Hann komst þó ekki nerna að Hlöðuvíkurósi, því hann hafði Guðmundur biskup góði vígt. Að lokum var Indriði kveðinn niður og komið fyrir í Ólafsdal, dalverpi inni af Hlöðuvík og átti Indriði engum að gera mein væri ekki farið inn fyrir hring þenna.
Til Kjaransvíkur förum við fjöruna undir Álfsfelli og heitir þar Hrafnakambur í fjallinu fyrir ofan okkur. Við komum að Kjaransvíkurá og er léttur leikurinn að fara yfir hana. Spöl þar frá eru rústir bæjarins. Ekki var alltaf öllum vært í Kjaransvík og er t.a.m. saga frá því að menn, sem voru að gera við bæjarhúsin eftir ofviðri, urðu að flýja frá verki.
Minna undirlendi er í Kjaransvík en Hlöðuvík; landið smáhækkar frá sjó í ótal hjöllum. Til suðurs liggur leiðin til Hesteyrar upp með Kjaransvíkurá í Kjaransvíkurskarð og segir frá þeirri leið síðar.
Til norðurs, í Fljót, er farið um annað tveggja skarða, sem er inn af Kjalarárnúpi. Hvorug leiðanna er merkt og engar götur á leiðinni og ef dimmt er í veðri, skal ókunnugum bent á að fara heldur Kjaransvíkurskarð og til Hesteyrar, sem er miklu öruggari leið og vel merkt.
För okkar er hins vegar heitið í Fljót og því förum við upp úr víkinni til norðurs og fylgjum fyrst hryggjum milli lækja til þess að forðast sinuflækju og gljúpan jarðveg, sem torveldar okkur för. Fyrst verður fyrir okkur allnokkur brekka, en síðan taka við smáhjallar, nokkuð grónir, unz kemur að brattri skriðu efst í fjallinu áður en skarðinu er náð. Þar er Almenningaskarð og framundan eru Almenningar hinir vestari.
Háir hamrabakkar eru þar með sjó með smávíkum og klettabásum. Stærsti básinn heitir Kirfi. Innan Kirfis er klettabrúnin lægst og heitir þar Krosshamar, en utan þess smáhækkar brúnin og má þaðan komast um Breiðuskörð yfir í Svínadal í Fljóti, en ekki er það greið leið öllum, klettótt klungur, um 440 m hátt.
Á leið okkar um stórgrýtta hjalla í hlíð Almenninga reynum við að halda hæð og förum fram hjá Bergþóruskarði; þar hefðum við getað farið í stað þess að fara Almenningaskarð. En Bergþóruskarð er hærra og klettóttara þótt fært sé, og því völdum við hitt. Og innan skamms komum við að Þorleifsskarði. Þar liggur leið okkar um bratta stórgrýtisurð og síðan niður skriður að vestan og erum þá komin í Fljót.
Það væri hægt að fara hér beint niður brekkuna að vatninu og síðan út með því að Atlastöðum, en þar sem leiðin sú er mýrlend og gljúp, þá reynum við að stytta þann spöl, sem við göngum í bleytunni, svo sem hægt er. Þess vegna beygjum við út með Hvannadalshorni og höldum okkur ofarlega í hlíðinni. Fyrir neðan er vatn, sem nú er nefnt Fljótsvatn, en var áður kennt við Glúmsstaði, bæ, sem stóð við vatnshornið hinum megin í dalnum, þar sem við sjáum foss þann, sem heitir Glúmsstaðafoss. Undir fossinum á fyrsti búandi á Glúmsstöðum að hafa fólgið fé sitt, sem marga hefur fýst að ná en engum tekizt. En síðari bændur hétu á Glúm sér til árnaðar og færðu áheitin í fossinn. Við komum niður að vatninu við litla á, sem heitir Hvanná, og göngum þaðan mýrlenda bakkana út fyrir Svíná og erum þá komin að Langanesi, sem næstum skiptir vatninu í tvennt. Neðan Langaness má segja að ósinn þorni á fjöru utan hvað um 50 m breiður áll rennur til sjávar. Ofan ness gætir sjávarfalla mun minna, en þó svo, að Langanessvað, sem er rúmlega hnédjúpt á fjöru, er mittisdjúpt á flóði. En á Langanessvaði er farið ef flætt er í ósinn.
Fljótsvatn er grunnt, víðast l-2 m, og hefur myndast sem lón innan við sand- og malarkamb, sem hefur lokað víkinni, eftir að ísöld lauk. Í kambinum milli vatns og sjávar má sjá gamlar strandlínur frá hærri sjávarstöðum fyrr á nútíma.
Við förum þvert yfir Langanes og komum að Atlastöðum, þar sem gömlu bæjarhúsin eru fallin en sumarhús komin í staðinn. Atlastaði telja menn nefnda eftir Atla þræli Geirmundar heljarskinns og beri þar til sögu Landnámabókar af för Vébjarnar Sygnakappa og þeirra systkina, er þau strönduðu skipi sínu við Sygnakleif, sem nú er nefnd Sygnahlein undir klettahlíðinni austan Kögurs. Tók Atli við skipbrotsmönnum til vetrarvistar, en þá ekki endurgjald. Eru síðan fleyg orð þau er milli húsbónda og þræls fóru, er Geirmundur spurði „hví hann var svo djarfur, að taka slíka menn upp á kost hans“. Atli svaraði: „Því að það mun uppi, meðan Ísland er byggt hversu mikils háttar sá maður mundi vera, að einn þræll þorði að gera slíkt utan hans orlofs.“ Bað Geirmundur hann fyrir þetta tiltæki þiggja frelsi og bú það er hann varðveitti. Hafa síðan Atli og Geirmundur verið hetjur þeirra Hornstrendinga og þeir gjarna heldur hreykt sér en hitt, að vera af þræli komnir.
Við komum fyrst þar að, sem hús er byggt á hóli þeim, sem bærinn stóð frá aldaöðli og er þar nefndur Bæjarhóll. Í minni hól sem er þar rétt hjá, alveg á vatnsbakkanum, hermir sagan að grafið sé skip, sem að líkindum mun eiga að vera skip Atla, en hóllinn dregur af þessu nafn og heitir Skiphóll.
Nokkru innar, ekki ýkja langt frá túni á Atlastöðum, þar sem við gengum fyrr með vatnsbakkanum, er kallaður Grafarhóll, grasi vaxinn, líkur lágreistum bæ. Segja menn að þar búi álfar og séu þau álög á, að ekki megi slá hólinn né umhverfis hann. Júlíus Geirmundsson, sem bjó á Atlastöðum fram til 1946, lét eitt sinn slá þarna og reiddi heim heyið á hryssu, sem hann átti. Daginn eftir fannst hún fótbrotin við Grafarhól og um nóttina dreymdi Júlíus álfkonu, sem sagði honum þetta mátulegt, því hann hefði látið slá þrátt fyrir viðvaranir um álög. Ekki lét Júlíus sem draumurinn eða fótbrotið hefðu sannfært hann, en ekki reyndi hann aftur að slá Grafarhól.
Við sláum upp tjöldum undir Bæjarhólnum við blágresisbrekku og sóleyjabreiðu. Þaðan sjáum við inn Fljótið, Jökladali og Fljótsskarð, þar sem liggur leið til Hesteyrarfjarðar. Við sjáum líka Glúmsstaðafoss, sem fyrr er getið, en upp af honum er Glúmsstaðadalur og upp hann liggur leið upp á Háuheiði og til Hesteyrar. Nær okkur til hægri handar er Tunguhorn handan vatnsins og speglast það gjarna í ósnum á lognkyrrum sumarkvöldum. Norðan þess er Tungudalur, en þar liggur leið okkar á morgun yfir til Látra í Aðalvík. Fyrir utan Tungudal eru Hvestudalir og Hvesta þar utar og enn fjær sést Straumnes. Ef gott skyggni er, má greina byggingar þar uppi, en að því kemur síðar.